28. desember 2009

Möbíus

Dagurinn í dag hefur verið með skásta móti og ég fylgt fötum núna seinnipartinn. Ég nenni samt ekki að skrifa um eigin líðan í augnablikinu (hún hefur hvort sem er ekki breyst sem heitið getur lengi …) en set inn stutta færslu til að grobba mig af því að ég er að prjóna Möbíusar-herðaskjól (Freyja!!!) sem var uppskrift af í skemmtilegu prjónabókinni sem börn og tengdabörn gáfu mér í jólagjöf. Eftir nokkrar tilraunir tókst að fitja upp Möbíusar-fit á 80 cm hringprjóninn. Nú er að sjá hvað kemur út úr þessu ef prjónað er stanslaust undir “De fortvivlede husmødre” sem sömu aðilar gáfu mér líka í jólagjöf.

Annað sem familían gæti haft áhuga á er að nú er Jósefína á forsíðu Kattholts, sjá kattholt.is. Flestir hafa væntanlega þegar kveikt á því að hún er á fésbókinni, undir nafninu Jósefína Dietrich (vegna sérstakrar raddbeitingar).

Akkúrat núna eru drengirnir að prófa ísvélina (sem við hjónin fengum í jólagjöf), þeir stauta sig fram úr uppskrift á engilsaxnesku og mér heyrist að Jósefína sé eitthvað að hjálpa til í vigtun hráefna - og er skömmuð fyrir vikið! Aumingja litla dýrið … Best að að loka sig af inni í stofu meðan þessu fer fram.

4 ummæli við “Möbíus”

 1. freyja systir ritar:

  Þessi prjónaskapur hentar mjög vel á fundum, sérstaklega á Menntavísindasviði. Prjónarðu slétt eða perluprjón eða…..?

 2. Harpa ritar:

  Ég er að myndast við garðaprjón (þá slétt og brugðið til skiptis á hringprjóni). Svo var ég að lesa mér til um Elizabeth Zimmermann og sá að Pi-sjalið hennar væri sennilega doldið skemmtilegt. EZ er sumsé móðir stærðfræðilegra prjónapælinga en kannski merkilegust fyrir þau afrek að kenna Könum að nota hringprjón og einnig að prjóna með hægri og halda í bandið með vinstri (en Kanar og Englendingar hafa þetta akkúrat öfugt, sem er mun seinlegri aðferð).

  Ég hugsa að ég hafi Möbíusinn ekkert mjög stóran áður en ég felli af og athuga hvort þetta virkar. Kannski setti ég óvart heilan snúning? Einíveis þá er stykkið hugsað sem prufa enda á ég ekki nóg af færeyskri einspinnu (sem ég tek hundrað sinnum framyfir íslenskt einband / eingirni).

 3. Harpa ritar:

  Tek fram að ég fékk ekkert af ísnum - en drengbörnin staðhæfðu að í honum hefði verið svo ógurlegt magn vanilludropa að ísinn hefði verið ein risa fallgildra fyrir mig! (Kökudropar almennt held ég að séu mér ekki hollir svo ég sætti mig möglunarlaust við þetta. Aftur á móti er dagurinn í dag búinn að vera viðbjóður og ég þarf að taka á öllu til að koma mér fram úr bælinu … svo ég sendi manninn út í búð til að kaupa handa mér 4 Prins Póló, sem er það eina sem gæti bjargað tutlu af svona degi! Ég grennist bara síðar þegar mér batnar nóg til að fara í einhverja andskotans labbitúra!)

 4. Gísli frændi ritar:

  Þú átt ekki að láta drengina ljúga svona að þér. Þeir hafa örugglega notað vanillustöng en ekki tímt að gefa þér af ísnum með sér.