Færslur janúarmánaðar 2009

29. janúar 2009

Aumur dagur

Einhverra hluta vegna er þetta þunglyndisdagur dauðans! Sé ekki ástæðu til að fjölyrða; ég er þaulvön að pompa ofan í þessa drullupytti á lífsleiðinni.

Plúsmegin má segja að ég setti upp fésbók / smeðjuskruddu og játaði öllum óskum um vinskap hvort sem ég þekkti fólkið eða ekki … nei, djók, ég þekkti alla ;)  

Sýnist fésbókin afturhvarf til hinna góðu tíma þegar maður notaði kermit, talk, gopher, Veroníku og allt það:  Sem sagt meira og minna kjaftæði um ekki neitt en skemmtilegt og gáfulegt af því það var í tölvu.

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa

27. janúar 2009

Spegill og smáskref

Ég er svooooo ekki að höndla það að mæta í vinnu núna á eftir! Vildi geta allt til að fá að skríða upp í rúm og búa til holu úr tveimur sængum! Til að andæfa þessum hugsunarhætti tek ég eitt oggu-skref í einu: Hef komist úr rúminu, sem er plús, svo er að þvo sér og bursta tennur - > annar plús ef hefst o.s.fr.  Ég hef oft þurft að nota þessa aðferð, sumsé að teyma sjálfa mig áfram í smáskrefum. Það er til mýgrútur spakmæla um svona teymingu en ég sleppi svoleiðis tilvitnunum hér.

Annað er að einhvers staðar æxlaði ég mér mynd af mínum góða lækni, á Vefnum. Mér hefur dottið í hug að gera myndina að skjáhvílumynd (núna gegnir orkídea því hlutverki) og horfa fast í augu myndefnis og segja “Læknir, læknir segðu mér:  Hver á landi hraustust er!” 

Til þess að blanda ekki saman aðferðum mun ég nota skjáhvílumyndar-hugrænu-atferlismeðferðina á fimmtudaginn.

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa

25. janúar 2009

Löt bloggynja spáir í net-stjórnmál

Þetta með letina er reyndar álitamál. Á miðöldum töldu menn þunglyndi til dauðasynda. E.t.v. hefur MGD, þ.e. Medieval Guild of Depressed (hagsmunafélag þunglyndra) fengið því framgengt að dauðasyndinni var breytt í leti. Og upplýsingar um MGD eru allar týndar, nema þessi eina tilvísun í þessari einu bloggfærslu.

Sem sagt ráfa ég og reika um bloggheima (vil ekki segja refilstigu því ég passa mig auðvitað að detta ekki í neina drullupolla sem aðrar bloggendur hafa grafið á sínum bloggstígum - Hér á frasinn Live and Let Live afar vel við. Hann á einnig gasalega vel við þessa bloggfærslu).

Ég er búin að skoða þessi tvö framboð sem komin eru. Annað tekur strax fram að það sé ekki framboð og ekki flokkur ??? Þau gætu notað orðið hreyfing ef þeim er svona meinilla við öll f-orð. Sjá Nýtt lýðveldi.

Fjórir eru hvatamenn þessa fyrirbæris (sem er ekki flokkur, ekki samtök, ekki framboð o.s.fr.) sem sjá má hér. Ég kannast við 3 af þeim fjórum “okkur” og get ekki ímyndað mér hvað þetta fólk á sameiginlegt annað en heilbrigðan áhuga á fornum fræðum ýmiss konar. En ég hef sosum ekki nennt að lesa allt á síðunni, heldur gripið oní textann hér og hvar. Það sniðugasta sem ég hef séð er að nota hvíta plastborða til að vekja athygli á sér: Það er eitthvað svo kínverskt og austurlandadulúðin sveipar mjúklega allar misfellur sem kunna að vera. Nokkrar hækur myndu gera sig vel á síðunni. 

Hitt ekki-framboðið o.s.fr. telur sig byltingu, a.m.k. heitir það Lýðveldisbyltingin. Þar fann ég enga hvatamenn eða forystusauði sem e.t.v. helgast af því að byltingin er algerlega anarkísk; Ætli þetta eigi ekki að vera bylting fólksins? Með frekara grufli mátti finna út að eftirtaldir linkuðu í Lýðveldisbytinguna:  anna.is, Egill forstjóri Brimborgar, Einar Indriðason og Soffía Sigurðardóttir. Kannski eru þetta forsprakkarnir? Anna heldur a.m.k. utan um teljarann.

Síðan þar er gerð í einhverju MediaWiki sem ég veit ekkert um en fær mig til að gruna að síðan höfði til þeirra sem telji sig lítt hafa fengið hljómgrunn til þessa,  feminístar, nýhílistar og alls konar afgangsgrúppur í þjóðfélaginu. (Nýtt lýðveldi virðist meira ætlað fólki með a.m.k. eina háskólagráðu.)

Í forritinu MediaWiki getur hvaða skráður notandi sem breytt texta og skrám.  Eldri skrárnar vistast sjálfkrafa og því er hægt að sjá hvernig textanum hefur verið breytt og væntanlega einnig hvaða notendur gerðu það.

Það væri sterkur leikur hjá Lýðveldisbyltingunni að koma sér upp appelsínugulum plastborðum í áróðri;  Það er einmitt svo kínverskt og Falun Gong legt … og nokkrar hækur myndu punta upp á forsíðuna. (Þeim má svo skipta út eftir smekk hvers og eins.)

Líklega telur Lýðveldisbyltingin þetta ákaflega frjálslynt kerfi.  Ég spái því að síðan verði algerlega ónothæf innan skamms,  ef unglingateymi finna hana og auglýsa sem skemmtiatriði á Fésbók, eða einhverjir kennarar sem vakna um 5 leytið á nóttu hverri og hafa ekkert skárra fyrir stafni meðan beðið er dagmála. Eða einhverjir Eyjamenn …

Bæði þessi ekkiframboð hafa mjög svipaða forsíðu; Skjaldarmerkið er haft lengst til hægri - svo titillinn og linkar á fyrirsjáanlegum stöðum. Ég legg til að undirskriftarlistar þessara tveggja framboða verði samkeyrðir þegar fram líða stundir því ég býst við að stór hluti sé fólk sem skrifar á undirskriftalista hvar og hvenær sem er, bara af undirskriftarkikkinu einu saman. Því má ætla að talsvert stór hluti undirritaðra sé hinn sami hjá báðum ekkiframboðunum.

Hvernig væri að bylta almennilega og lofa því að skipta úr skjaldarmerki?  Taka fálkafánann af MR og þar með verður hann kominn í hring og í þær hendur sem upphaflega áttu að eiga hann. Auk þess er þetta skjaldarmerki svo karlrembulegt að konu verður ómótt! Enginn fulltrúi kvenna hefur ratað með fjór”menningunum”! Mætti uppfæra MR-fánann í örn eða öllu heldur össu! Þetta er það eina pólitíska sem mér hefur  dottið í hug við lestur á krókaleiðum bloggsins.

—– 

Ætli maður haldi sig ekki við það að kjósa listann með skásta liðinu eins og endranær, vera ekki að velta stefnumálum allt of mikið fyrir sér en passa t.d. að kjósa ekki fasista eða rasista eða kalla sem blogga drukknir um nætur eða feita kalla í jakkafötum o.s.fr.

Mér er ljóst að ég safna ekki mörgum vinum með þessari færslu. En nú hafa lífsgildin mín breyst svo mjög á áratug að ég er nánast ný og miklu syndugri manneskja. Miðað við hvað er mikilvægt í þessu lífi er kjökur móðgaðra bloggara eins og hver önnur smákökusneið!
 

Ummæli (11) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf

22. janúar 2009

Frekari fréttir af líkamsrækt bloggynju

Inngangsorð: Þessi færsla er hvorki um kreppu né mótmæli. Ég hef ákveðið að mótmæla þessum hallærismótmæla-múg með því að blogga ekki um hann; það mætti kannski halda að þögn sé sama og samþykki en í þessu havaríi má skilja þögn sem andmæli mótmæla. Ég hef samúð með fólkinu mínu í þurrabúðinni og munið að við Skagamenn tökum ávallt vel á móti flóttamönnum! 

Hér er vikið að öðru: 

Best að halda dyggum lesendum upplýstum hvert sinn sem kroppatamningunni vindur eitthvað fram (sem ég reyndar ekki viss um að sé að gerast). Lauslega sagðar eru fréttirnar þessar:

- Í gær passaði ég að taka ekki Rivotril og mætti út á Jaðarsbakka svoleiðis skínandi hrein og edrú (”clean and sober” er tæknifrasinn). Niðurstaðan er sú að e.t.v. er ég ekki alveg jafn grútslöpp og annars en á hinn bóginn hafa allar boðleiðir brenglast svo handleggir létu alls ekki að stjórn og vanar kroppadýrkunarkonur sjá auðvitað hversu erfitt og ruglandi það er ef bæði hendur og fætur skjálfa að ráði. Sennilega gúterar heilinn á mér ekki eitthvert náttúrulega framleitt endorfín.  Ég náði ekki að vera alveg hálfan tímann - var orðið svo flökurt - en plúsinn í gær var að ung kona (fyrrum nemandi) sagðist hafa verið með mér í morgun-eróbikki fyrir nokkrum árum og ég hefði verið svo dugleg! Hm … ég hlýt að hafa verið í veikindaleyfi þá … ætli ég hafi ekki verið í raflostmeðferð? En miðvikudagurinn flokkast plúsmegin úr því ég mætti og reyndi.

- Í dag ákvað ég að droppa inn í Kúrfuna, sem er miklu vingjarnlegri og kvenlegri rækt en Jaðarsbakkaræktin. Labbaði þangað í storminum og hálkunni, með vatnsflösku og strigaskó … til þess eins að lesa um minni opnun vegna kreppu og ég lenti á lokaða bilinu um miðjan daginn. Ég fór aftur heim en gleymdi öðru sem ég ætlaði að bardúsa. Seinna fór ég í hitt bardúsið og var komin að Kúrfunni þegar rann upp fyrir mér að í rauninni myndu tvær ferðir, fram og tilbaka, frá mér að Kúrfu dekka nokkurn veginn hálftíma-kúrfutímann. Svoleiðis að ég set þennan dag plúsmegin.

- Um morgundaginn er ekkert hægt að segja (ef maður er hinn góði AA maður).

- Enn annað: Mig vantar betri græjur og föt, íþróttakyns. Í okkar góða bæ er rjúkandi útsala á sport- og tískuvörum. Ég hef hins vegar strengt þess heit að versla ekki í búðum sem heita útlendum nöfnum. Þessi íþróttabúð heitir Gallery Ozone. Héti hún “Sýningarsalur þrí-ildis” mundi ég versla þar. Kannski þýðir Ozone eitthvað annað en kannski eru stafsetningarvillur til að punta upp á ósonlagið, sem er svo óspennandi.

Ég læt þessu lokið að sinni, nenni ekki að myndskreyta og vona að vinstri sinnuðu menntamannabörnin kasti ekki neinu ógislegra en skyri í lögguna í nótt. 

Ummæli (8) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf

20. janúar 2009

Kroppatamning á þrjóskunni

Ég er sumsé byrjuð í líkamsrækt, aðallega af uppsafnaðri gremju yfir að vera ekki eins og hinar (konur á mínum aldri) og af því að vera ekki bara kramaraumingi á sálinni heldur einnig á líkama.

Dæmigerður tími er mánudagstíminn: 

Klukkutíma fyrr fór ég í trimmbuxurnar og fann til draslið - skó og svoleiðis. Svo sat ég og eggjaði sjálfa mig lögeggjan að mæta í helvítis tímann. Það tekur svona 20 mín. að labba þvert yfir nesið, þar sem Jaðarsbakkaíþróttamusterið er. Þá hafði ég 10 mínútur til að tala við hinar konurnar og afsaka hvað ég væri mikill aumingi og þær peppuðu mig rækilega upp.

Svo hefst tíminn.  Fyrst eru grilljón hopp og hí á palli. Ég kann rétt tæplega grunnrútínuna í eróbikki og einsetti mér að gera bara hana, sleppa þrem hnjám og níu hnjám og höndum með, en reyna í staðinn að halda alltof hröðum taktinum. Eftir tíu mínútur er ég næstum dáin; fæturnir hættir að hlýða og mig er farið að sundla. (Sem framtíðarviðbrögð við þessu er rétt að taka ekki Rivotril fyrir tíma, jafnvel þótt kvíðinn vilji ljúga upp á mann ælupest eða hjartaáfalli.  Rivotril er ábyggilega ekki gott veganesti fyrir þolfimi. Þá veit ég það.)

Myndskreyting sýnir fjarlægan framtíðardraum … nema kannski hárið.

En aftur í æsispennandi speglasalinn: 

Konur á öllum aldri og allri líkamsgerð flugu þarna yfir sína palla þvers og kruss í allskonar flóknum rútínum og blésu ekki úr nös. Ég brá fyrir mig æðruleysisskildi og ákvað að einn yrði að vera lélegastur (”að einn er auðkvisi ættar hverrar” segir í fornum fræðum) og það gæti sosum alveg eins verið ég, kennslufræðilega séð ;)

Myndin til hægri lýsir annarri draumsýn …

Eftir tæpan hálftíma átti að fara að æfa einhverja tvíhöfða og þríhöfða (sem ég er alls ekki viss um að ég hafi!). Ég er með tímasetningar á hreinu því ég er með augað á klukkunni, eins og elskulegir nemendur mínir eru stundum á morgnana.

OK: Kona settist á pallbrún, lét rassinn síga oná gólf og dró sig upp aftur. Þetta var gert með handafli.  Eftir nokkur sig og hnig - ekkert svo erfitt - small einhver andskotinn í brjóstinu á mér og ég fann hryllilega til. Þetta var samt ekkert hjartaáfallslegt … ég er nú svo klár í þeim verkjunum eftir öll ofsakvíðaköstin. Nei, ég held að einhver sin hafi skroppið til, milli bringubeins og rifja.  Þetta var samt hundvont.

Mér og kennaranum fannst að nú væri nóg komið og ég fékk að fara eftir hálfan tímann … svo hringdi elskulegur kennarinn um kvöldið til að vita hvort ég væri alvarlega meidd.

Næsti tími er á morgun og nú hef ég sett mér þessi markmið:  Gera a.m.k. helminginn af æfingunum og vera a.m.k. hálfan tímann. Til að fóðra þessi markmið betur fyrir mér, svo þau séu ekki eins aumingjaleg, bendi ég á að ég labba a.m.k. 3 km samtals fram og tilbaka fyrir og eftir líkamsrækt.

Ef ég lifi af þessar sex vikur held ég náttúrlega áfram og draumurinn hjá mér er að geta hoppað í kringum pallinn við hraða tónlist eins og ALLAR HINAR GETA.

Ég ætla að færa mig aftast í salinn. Svo hef ég fundið soldið af tölvumyndböndum þar sem kínversir karla kenna algengar eróbikk rútínur. Því miður snúa þeir að manni en ég þarf leiðbeinanda sem snýr eins og ég (útaf hægri-vinstri fötluninni).

Systkini mega hrósa þessu framtaki kramaraumingjans ef vilja!

Ummæli (4) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf

18. janúar 2009

Hún Þyrnirós var besta barn …

og ég þar af leiðandi líka því ég hef lítið annað gert um þessa helgi en sofa. Geti maður ekki sofið þá er hægt að búa til litla holu úr sænginni og skríða þar oní og ímynda sér allt mögulegt, t.d. að maður sé eskimói, að maður sé að grafa heppilegar herbúðir í Ölpunum, að maður sé kanína og margt fleira. Ég gat reyndar sofið alveg ótrúlega, sjálfsagt 20 tíma laugardags- og sunnudagssólarhringinn. Það er dálítið snúið að vera í vinnu með þessum svefnháttum.Kannski ég ætti að senda mínum góða lækni tölvupóst og stinga upp á pillu-lotterí? Auka sumt en minnka sumt og gá hvað gerist? Sé til, eins og með flest.

Við herra Bísam erum að mörgu leyti lík og því skreyti ég með hans holu-útfærslu, sem er eilítið ólík minni.

Ég tók þó eftir að börnin okkar, spurningalið skólans, stóðu sig með prýði en máttu sín náttúrlega ekki mikils gegn liði sem æfir fjórum sinnum í viku allt árið. Okkars höfðu boðið MR-ingum í mat fyrir keppni en þeir vildu ekki þiggja, hafa sjálfsagt ímyndað sér að þetta væri hernaðartrix úr Skagabúðum. Sem var alls ekki.

Í þeim stutta vökutíma sem mér gafst inn á milli tók ég eftir tvennu: Að framsóknarflokkurinn er ekki vel að sér í tölum, plúsum og mínusum og hver fékk hve mörg atkvæði; hitt var að ung stúlka fékk nóg af eineltinu sem hún var beitt, skipti um skóla og skrifaði grein í moggann um eineltið í Mosfellsbæ. Svo loga athugasemdardálkar við blogg þessarar stúlku. Eitt kommentið benti á að þegar þolandi kom inn í skólann í 3. bekk hefðu barbí-englabossarnir, sem fyrir voru, ekki lengur verið hæstar og bestar.  Þær hefðu hefnt sín með því að leggja þessa stúlku í einelti næstu 6 árin. Mér fannst þetta svo dásamlegt orð: Barbí-englabossar! Ég veit svo nákvæmlega við hvað er átt: Ég hlakka til að nota orðið hér inni á heimilinu.

Þessi skóli, Varmárskóli, hefur státað af því að taka þátt í Olweus-verkefninu (er ekki alveg viss með stafsetninguna), evrópsku átaki gegn einelti, með þúsund blaðsíðum af skýrslum, rannsóknum og öðru svoleiðis dóti sem evrópskar skólastofnanir eru svo hrifnar af. Gott ef grunnskólarnir hér á Skaga eru ekki líka með í alveg eins verkefni, sem hægt er að státa sig af á tyllidögum. Í málflutningi þolandans, sem virðist skýrleiksstúlka og ágætlega skrifandi, kom fram að þátttaka í verkefninu er bara prump!  Þótt skipt hafi verið um skólastjórnendur nýverið er nýja skólastýran einmitt sú sem sagði okkar góða þolanda í þriðja bekk að hætta þessu væli!

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa

14. janúar 2009

Oní helvítisgjána!

Ég má nú ekki við neinu því smávegis atburður í gær setti mig algerlega úr jafnvægi.  Ég sleppti útsölu, afpantaði tímann í krabbameinsskoðun, kvöldið var líka ónýtt svo ég fór bara að sofa. Svo hélt ég að þetta væri búið, tókst að hanga í bælinu til hálf sex í morgun, lesa blað, taka pillur (þ.á.m. róandi sem eiga að slá á kvíða) en svo byrjaði þetta venjulega: Ég nötra eins og róni án brennivíns, mér er ofboðslega flökurt (en get ekki hugsað mér að æla svo það er spurningin um að liggja á réttri hlið, eins og í Akraborginni forðum) o.s.fr.

Ég sá að nemendur mínir elskulegir væru betur settir án mín. Svo ég meldaði mig veika. Þar með missi ég af trimminu, eins og mér veitti nú ekki af því að fá frekari æfingar í hægri og vinstri!

Hef hugsað mér að nota daginn í að klöngrast aftur upp úr helvítisgjánni og verða frísk og flott á morgun.

Ummæli (4) | Óflokkað, Geðheilsa

13. janúar 2009

Framtíðin mætt á svæðið

Í dag leið mér nákvæmlega eins og opinbera starfsmanninum í Litlu stúlkunni og sígarettunni.  Sé sama lygin endurtekin nógu oft verður hún að sannleik … eða hvað?

Ummæli (0) | Óflokkað, Daglegt líf

12. janúar 2009

Hetjan ég!

Vil bara koma því á framfæri að ég fór í líkamsræktartíma áðan!  Að vísu fór ég bara einn hring eftir upphitun og tilkynnti kennaranum að ég þyrði ekki meiru, upp á að vera OK í fyrramálið. Hún samþykkti það enda vinnur hún í apótekinu.

Meginkostir við þessa líkamsrækt er að hún er ekki í hefðbundnum íþróttasal (heldur litlum speglasal) og kennarinn er ekki íþróttakennari. Meginókosturinn í þessum fyrsta tíma reyndist vera algerlega horfin tilfinning fyrir hægri og vinstri. Mér gengur skást ef ég hermi eftir manneskjunni fyrir framan en er ekki að spá í hvaða fótur eða hné er kallaður upp hverju sinni. Þetta kemur …

Ég sannfærði mig um að Mens sana in corpore sano ætti enn við og með því að fá eilítinn styrk í skrokkinn muni geðveikin minnka eilítið. Til öryggis borgaði ég allt námskeiðið fyrirfram … til að hvetja mig til að hætta ekki við.

Barnunginn (sá sem hefur verið kallaður kolbítur á þessu bloggi en hefur nú risið sem Fönix úr öskustó!) er önnum kafinn við undirbúning Gettu betur. FVA var soldið óheppinn í drætti, dróst gegn MR. En kraftaverk gerast stundum og bróðir minn sagði mér frá því þegar ML vann algerlega óvart MR í undankeppni í útvarpi. Ég óska auðvitað okkars alls hins besta og mun hlusta á þá í útvarpinu. Yfirleitt nenni ég ekki að hlusta á þessa keppni, hún er alltof stöðluð og ekkert kemur á óvart. Svo ekki sé minnst á framburð keppenda í hraðaspurningum, með tilheyrandi frussi (sem sést sem betur fer ekki í útvarpi). Móðurmálshnúarnir á mér hvítna þegar skothríðin í hraðaspurningum hefst.

Ummæli (3) | Óflokkað, Daglegt líf

10. janúar 2009

Komst í gegnum heila tónleika! Eða: Vandinn að klæða sig pent!

Við hjónin fórum á hátíðartónleika Rótarýs í gærkvöldi.  Þeir voru haldnir í Salnum í Kópavogi undir dyggri stjórn Jónasar Ingimundarsonar. Þennan dag rak ég fyrst augun í auglýsingu þar sem þess var æskt  að menn væru samkvæmisklæddir, gæsla væri í fatahengi og freyðivín í hléi. Eins og ég hafi ekki verið nógu stressuð fyrir!

Ég fór yfir fataskápinn og vissulega á ég eitthvað af samkvæmisfötum - málið er bara það að ég kemst ekki í neitt af þeim. Loks tók ég þann kostinn að vera í þokkaleg svörtu pilsi og toppi við, útsaumuðu með blómaborðum svipað og samfella eða skautkyrtill. Svo fann ég alltof lítinn svartan brjóstahaldara með tróði og náði þannig hinu eftirsóknarverða útliti nútímans: Að sýna brjóstaskoru! Þetta er aftuhvarf til einhverrar enskrar cleavage tísku og gott ef ekki átti að setja punktinn yfir i-ið, í bókstaflegri merkingu álímdan fæðingarblett. Mín skora var samt ekki nærri því eins flott og þessi sem sést á myndinni.

Háhæluð svört stígvél … og mér fannst ég líta út eins og gleðikona.  Manninum fannst ég fín.

Hitt vandamálið er svo að ég á ekkert dýr til að ganga í. Gæslumenn fatahengis eru að passa alls konar skinnfeldi og pelsa og ég á ekki einu sinni dauðan ref til að bregða um hálsinn! (Sem minnir mig á: Einar og þið hin: Hvað varð um dauðu refina hennar ömmu? Þeir héngu upp á vegg og horfðu á mann svörtum gleraugum þegar maður gekk hjá.) Svoleiðis að ég fór í Kína-jakka sem passaði sæmilega utan um þetta, ekta því ég keypti hann sjálf í Soho Kínahverfinu.

Ef ég á að segja eitthvað um tónleikana þá voru þeir prýðilegir. Þóra Einarsdóttir er sætari en Katherine Jenkins og miklu betri söngkona. Mér finnst reyndar að það hefði mátt hafa betur þekkt lög á efnisskránni - miðað við markhópinn sem sótti tónleikana. Mér fannst líka tónleikarnir of langir … en þar kann að spila inn í að ég er mjög óvön því að vaka mikið fram yfir kl. 21.

Ég er náttúrlega yfir mig hreykin að hafa tekist þetta, þ.e. sitja tveggja tíma tónleika í tiltölulega stórum sal, án þess að fá kvíða að ráði. (Mér sýndist hins vegar gítarleikarinn á þessum tónleikum fá kvíðakast á sviðinu … en hann jafnaði sig fljótt.)

Afrekin í dag eru einungis þrif og síðan óvænt upprifjun úr Njálu, hvar frú Bergþóra segir: “Gjafir eru yður gefnar” og eggjar svo til hefnda. Mér datt aldrei í hug að smjaður yrði til þess að mér væri gefin svona óumbeðin gjöf.

Ummæli (5) | Óflokkað, Daglegt líf