Færslur frá 12. janúar 2009

12. janúar 2009

Hetjan ég!

Vil bara koma því á framfæri að ég fór í líkamsræktartíma áðan!  Að vísu fór ég bara einn hring eftir upphitun og tilkynnti kennaranum að ég þyrði ekki meiru, upp á að vera OK í fyrramálið. Hún samþykkti það enda vinnur hún í apótekinu.

Meginkostir við þessa líkamsrækt er að hún er ekki í hefðbundnum íþróttasal (heldur litlum speglasal) og kennarinn er ekki íþróttakennari. Meginókosturinn í þessum fyrsta tíma reyndist vera algerlega horfin tilfinning fyrir hægri og vinstri. Mér gengur skást ef ég hermi eftir manneskjunni fyrir framan en er ekki að spá í hvaða fótur eða hné er kallaður upp hverju sinni. Þetta kemur …

Ég sannfærði mig um að Mens sana in corpore sano ætti enn við og með því að fá eilítinn styrk í skrokkinn muni geðveikin minnka eilítið. Til öryggis borgaði ég allt námskeiðið fyrirfram … til að hvetja mig til að hætta ekki við.

Barnunginn (sá sem hefur verið kallaður kolbítur á þessu bloggi en hefur nú risið sem Fönix úr öskustó!) er önnum kafinn við undirbúning Gettu betur. FVA var soldið óheppinn í drætti, dróst gegn MR. En kraftaverk gerast stundum og bróðir minn sagði mér frá því þegar ML vann algerlega óvart MR í undankeppni í útvarpi. Ég óska auðvitað okkars alls hins besta og mun hlusta á þá í útvarpinu. Yfirleitt nenni ég ekki að hlusta á þessa keppni, hún er alltof stöðluð og ekkert kemur á óvart. Svo ekki sé minnst á framburð keppenda í hraðaspurningum, með tilheyrandi frussi (sem sést sem betur fer ekki í útvarpi). Móðurmálshnúarnir á mér hvítna þegar skothríðin í hraðaspurningum hefst.

Ummæli (3) | Óflokkað, Daglegt líf