Færslur frá 18. janúar 2009

18. janúar 2009

Hún Þyrnirós var besta barn …

og ég þar af leiðandi líka því ég hef lítið annað gert um þessa helgi en sofa. Geti maður ekki sofið þá er hægt að búa til litla holu úr sænginni og skríða þar oní og ímynda sér allt mögulegt, t.d. að maður sé eskimói, að maður sé að grafa heppilegar herbúðir í Ölpunum, að maður sé kanína og margt fleira. Ég gat reyndar sofið alveg ótrúlega, sjálfsagt 20 tíma laugardags- og sunnudagssólarhringinn. Það er dálítið snúið að vera í vinnu með þessum svefnháttum.Kannski ég ætti að senda mínum góða lækni tölvupóst og stinga upp á pillu-lotterí? Auka sumt en minnka sumt og gá hvað gerist? Sé til, eins og með flest.

Við herra Bísam erum að mörgu leyti lík og því skreyti ég með hans holu-útfærslu, sem er eilítið ólík minni.

Ég tók þó eftir að börnin okkar, spurningalið skólans, stóðu sig með prýði en máttu sín náttúrlega ekki mikils gegn liði sem æfir fjórum sinnum í viku allt árið. Okkars höfðu boðið MR-ingum í mat fyrir keppni en þeir vildu ekki þiggja, hafa sjálfsagt ímyndað sér að þetta væri hernaðartrix úr Skagabúðum. Sem var alls ekki.

Í þeim stutta vökutíma sem mér gafst inn á milli tók ég eftir tvennu: Að framsóknarflokkurinn er ekki vel að sér í tölum, plúsum og mínusum og hver fékk hve mörg atkvæði; hitt var að ung stúlka fékk nóg af eineltinu sem hún var beitt, skipti um skóla og skrifaði grein í moggann um eineltið í Mosfellsbæ. Svo loga athugasemdardálkar við blogg þessarar stúlku. Eitt kommentið benti á að þegar þolandi kom inn í skólann í 3. bekk hefðu barbí-englabossarnir, sem fyrir voru, ekki lengur verið hæstar og bestar.  Þær hefðu hefnt sín með því að leggja þessa stúlku í einelti næstu 6 árin. Mér fannst þetta svo dásamlegt orð: Barbí-englabossar! Ég veit svo nákvæmlega við hvað er átt: Ég hlakka til að nota orðið hér inni á heimilinu.

Þessi skóli, Varmárskóli, hefur státað af því að taka þátt í Olweus-verkefninu (er ekki alveg viss með stafsetninguna), evrópsku átaki gegn einelti, með þúsund blaðsíðum af skýrslum, rannsóknum og öðru svoleiðis dóti sem evrópskar skólastofnanir eru svo hrifnar af. Gott ef grunnskólarnir hér á Skaga eru ekki líka með í alveg eins verkefni, sem hægt er að státa sig af á tyllidögum. Í málflutningi þolandans, sem virðist skýrleiksstúlka og ágætlega skrifandi, kom fram að þátttaka í verkefninu er bara prump!  Þótt skipt hafi verið um skólastjórnendur nýverið er nýja skólastýran einmitt sú sem sagði okkar góða þolanda í þriðja bekk að hætta þessu væli!

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa