Færslur frá 17. febrúar 2009

17. febrúar 2009

Kvikindið vaknað = merki um bata

Freyja segir að síðasta færsla hljómi hræðilega.  Ég er alveg sammála henni en þetta er samt bara raunsæ lýsing á deginum; hann var hræðilegur!  Ég hætti umsvifalaust á auknum skammti af Zyban en helv. lyfið er 10 daga að skolast úr líkamanum svo ég tók ekki sénsinn á að henda hinni töflunni út í hafsauga strax.

Góðu fréttirnar eru þær að ég skrifaði mínum góða lækni sem tók hysterísku bréfi sjúklingsins síns af stakri ró og er sammála mér um að endurskoða lyfjatöku mína - og vonandi sjúkdómsgreiningu líka!

Það eru einnig góðar fréttir fyrir mig að ég hvæsti smávegis á póstlista kennara þegar yfir okkur helltist loðmullulegt grunnskólakjaftæði, sem er því miður að finna í framhaldsskólalögunum frá 1996. Við erum auðvitað alla daga að vinna að þessum markmiðum ljóst og leynt, í kennslustundum og utan, og alger óþarfi að núa okkur þeim um nasir. Ég vil alls ekki líta til grunnskólans sem fyrirmyndar; ekki hef ég áhuga á að sinna starfi mínu eftir stimpilklukku eða reyna að hugnast mistækum stjórnendum. (Reyndar hef ég unnið eftir stimpilklukku um ævina, það var í frystihúsinu á Raufarhöfn fyrir svona 35 árum. Mig minnir að stjórnendur þar hafi einnig verið doldið mistækir.)

Mér er ljóst að ekki hafa allir sama álit á köstun í kekki eða smávegis þrasi. Mér leiðist hins vegar þessi óendanlega meðvirkni, þegar einhver reynir að slétta allar misfellur og hamra á að auðvitað séu öll dýrin í skóginum vinir.

Það að ég skuli yfirhöfuð nenna að hafa einhverja skoðun er ákaflega hollt og gott fyrir geðið í mér. Ég hef líka látið eftir mér að vera með smávegis uppsteyt á kennarastofunni og leið ofboðslega vel á eftir. Kvikindið í mér er vaknað og ég er hætt að vera eins og hver önnur læpuleg Þyrnirós. Væri ég enn inni á feisbúkk myndi ég áreiðanlega hella andstyggilegum kommentum yfir fésbókarsvæði hvers systkinis!  Djöst for the fönn of it. Þið heppin að ég skuli hafa yfirgefið svæðið nokkurn veginn ósködduð.

Ummæli (16) | Óflokkað, Geðheilsa