Færslur frá 19. febrúar 2009

19. febrúar 2009

MacLean í denn

Ég hef aðeins reynt að bakka aftur í óspilltu, ógeðveiku árin mín.  Þetta er svona freudískt endurlit án þess að ég telji líkur á að höndla stórasannleik.  Nema hvað: Ég fékk lánaðar tvær McLean bækur á bókasafni Kardímommubæjarins. Því miður mundi ég endinn á báðum bókunum (eftir meir en 30 ár!) en gat samt alveg notið þess að lesa harðspjalda-reyfara í gullaldarþýðingu Andrésar Björnssonar, útvarpsstjóra

 … og prófdómara í munnlegum prófum í íslenskuskor, í denn.  Það var alger hryllingur því karlinn tuðaði eitthvað allan tímann og maður fipaðist í þessum þó réttu svörum sem maður kunni við að reyna að heyra hvað karlinn var að tuða. Nú nýverið rann upp fyrir mér að vegna gáfna hafi hann þulið eins og Njáll - sem gekk afsíðis og þuldi og mátti enginn trufla hann þegar hann var að leysa mál eins og hvernig meðalbóndi í Fljótshlíðinni ætti að fara að því að greiða skaðabætur fyrir dráp fjórtán manna. Þetta var útúrdúr…

Í Nóttinni löngu segir:  “En öllu má nú nafn gefa. Hvílíkur morgunverður - kaffi, harðar kexkökur og …. Nú áttum við aðeins eftir fjórar dósir með kjöti, fjórar með grænmeti, ein tíu pund af þurrkuðum ávöxtum og svolítið af frosnum fiski, einn bauk með kexi, þrjá smápoka með blásnu korni og tíu dósir með mjólk.” (s. 136) Þegar hér er komið sögu hefur farþegaflugvél nauðlent á Grænlandsjökli, sem betur fer rétt hjá frumstæðri veðurathugunarstöð, frostið úti er yfirleitt um 40° C og auk þess morðingjar á sveimi. Mér finnst þetta mjög raunsæ bók, allt nema þessir smápokar með blásnu korni.  Hvað er blásið korn? Er það ekki poppkorn? Því miður er ekki hægt að finna útgáfudag bókarinnar og ég nenni ekki að leita að honum í Gegni.

Mér finnst blásið korn miklu fallegra en poppkodn. Blásið korn … líður ljúflega af tungu lesandans … eins og bleikir akrar …

 Ég er líka búin að lesa Neyðarkall frá Norðurskauti en rakst ekki á neitt málræktarlega sniðugt í henni.

Næst verða það sjálfsagt Byssurnar í Navarone og Arnarborgin.  Svo þyrfti ég reyndar að lesa svolítið í Njálu.

Ummæli (16) | Óflokkað, Daglegt líf