Færslur frá 31. mars 2009

31. mars 2009

Fallandaforað, feisbúkk og grunnskólaritunardútl

Freyja: Eftir gáfulegt komment þitt um þröskulda og dráttarvélar fór ég að tékka og komst að því að hér eru bara þrír þröskuldar: Tveir við útidyr + bakdyr og svo þetta Fallandaforað innan úr þvottahúsi.  Ég ætti kannski að hætta að þvo þvott? Er músin ennþá í þínu þvottahúsi? Kannski fæ ég mér mús í mitt.

Ég er sammála Einari um að Fallandaforaðið og dettingar séu viðbrögð æðri máttarvalda við úrsögn úr Feisbúkk. En nú fékk ég uppljómun og veit fyrir hverja Feisbúkk er: Fólkið sem vinnur eftir stimpilklukku! Nú geta jafnt grunnskólakennarar í Kardemommubæjum sem ráðuneytisstarfsmenn unað sér í Feisbúkk daginn út og inn :)   Gaman fyrir þau!

Ég er að byrja enn eina yfirferðarlotuna (hvað ætli ég hafi farið yfir margar ritgerðir um ævina?  Eitthvað um 2000 held ég …). Og enn og aftur fórna ég höndum og spyr mig hvað í ósköpunum grunnskólinn hafi verið að kenna nemendum í 10 ár!  Sveitungi minn orti: “Að lesa og skrifa list er góð / læri það sem flestir.” Ég reikna með að svona sirka helmingur nemenda læri að lesa hjá foreldrum sínum eða öðrum skyldmennum, aftan á mjólkufernur, seríospakka o.þ.h. Ætti þá ekki að vera tími til að kenna að skrifa? 

Ég er með kenningu:  Kenningin er sú að í grunnskólum sé lögð áhersla á einnar blaðsíðu ritgerðir. 

Þá skrifar krakkinn: “Í þessari ritgerð ætla ég að skrifa um Stubb.  Meginmál: Stubbur er ekki stór Stubbur er fimm ára Stubbur á tvo bræður bræður Stubbs heita óli og pétur. Lokaorð: Í ritgerðinni skrifaði ég um stubb og vona að þú lesandi góður hafir haft gagn og gaman að.”

Ég er svo að slást við andskotans stubbamódelið, notað öll tíu árin í grsk. (fyrir utan þann hrylling sem svokallaðar “heimildaritgerðir” eru í grsk.),  upp eftir öllum áföngum og afkenna tiktúrur grunnskólans. Það gengur yfirleitt þokkalega á önn eða tveimur. En ég spyr mig: Hvað eru kennararnir að gera í kennslustundum úr því þeir eru sannanlega ekki að kenna að skrifa og áhöld um að þeir kenni að lesa?

Ég hef þá kenningu að þá séu þær (megameirihluti grsk. er kvenkyns, oft vinstri sinnaðar feminískar barbíur).  Að þá séu stóru barbíurnar að halda við bleiku prinsessuppeldi leikskólans og séu í leiknum “við stelpurnar” alla daga. Strákunum má fleygja fram á gang þar sem þeir geta snapað gams og hugsanlega leitað skjóls á bókasafninu eða bara farið út í fótbolta. Sem betur fer kenni ég 102 og þar eru nemendur talsvert eðlilegri en í 103. (Þetta er náttúrlega smekksmunur en mér finnst óþægilegt og subbulegt þegar nýnemastelpur aðhyllast sömu fatatísku og maður sér í Rauða hverfinu í Amsterdam. Sennilega þykir þetta ekki óþægilegt á að horfa í grunnskólum. Í 102 eru nemendur eðlega klæddir.) 

Nú er ég komin langt frá efninu, eins og kvenlegra kvenna er siður. En óleysta spurningin er: Hvurn andskotann er verið að kenna í ritun í grunnskólanum í 10 ár?  (Guðni O., ég gæti þegið stuðning núna þegar fúríur af báðum kynjum klaga mig í manninn, skólastjórann, hví-hópinn á kennarastofunni, synina báða og föður minn. Síminn hjá honum er 486 1221 en áttræður öldungur klagaði mig fyrir föður mínum eftirlaunaþeganum núna í vor og kannski langar aðra að fara þá leið ;-)

Það væri gaman að sjá tölfræði yfir það hvers konar stúdentar fara í Kennó. Eitt er víst og það er að ekki eru það dúxarnir!

Ummæli (8) | Óflokkað, Skólamál, Daglegt líf