Færslur frá 23. apríl 2009

23. apríl 2009

Gleðilegt sumar! Og smávegis af spons-hugmyndum.

Ég óska öllum lesendum mínum (og örfáum ólesandi ættingjum) gleðilegs sumars. Óvísindalegt tékk síðasta vetrardag leiddi í ljós að einungis sirka 5% nemenda minna - nýnema og kannski annars árs - vissu að það byrjaði einhver sumarmánuður þennan fimmtudag, hvað þá að hann héti því gullfallega nafni harpa! Núna vita a.m.k. 85% nemenda í þessum áfanga af gömlu mánuðunum og undurfagra nafninu þessa, miðað við 15% fjarvistir í gær.

Ég fór á ABBA tónleika hjá Tónlistarskólanemendum í gærkvöldi, með vinkonu minni. Þeir voru ekki hnökralausir en náðu þó ABBA fílingnum vel með glansgöllum, ABBA hreyfingum o.þ.h. Mér fannst mjög gaman. Í tilefni þess hvað ég var hress á eftir sagði ég manninum hvað ég ætlaði að kjósa á laugardaginn. Maðurinn saup hveljur og bað mig vinsamlegast að segja ekki sonunum.

Tók svo eina rispu við manninn, með hálfum huga því mér er svo sama um pólitík, um fémútur, sponsora, betlistafi o.fl. Ég var líka nýbúin að horfa á álíka stöff um lyfjafyrirtæki í síðasta Kompás þættinum á vefnum (sá var í janúar en ég hef verið heldur sein að fatta hlutina almennt séð og lítið hirt um fjölmiðla síðastliðið ár).

Svo sá ég að fyrirlestraröðin í HÍ, um mannlíf og kreppu, var sponsuð af …. lyfjafyrirtækjum (Frumtök, Actavis) og þremur annars konar fyrirtækjum. Sem sagt: Þegar góðir fyrirlesarar gáfu sitt efni og fluttu ókeypis og leyfðu birtingu var HÍ það leim að þurfa að borga upptökufyrirtækinu (Kukl ehf) fyrir að koma þessu á vefinn og þurfti til þess að betla út aura hjá hagsmunaaðilum kreppunnar!

Fyrst og fremst vorkenni ég fyrirlesurum að láta fara svona með sig. Var t.d. Guðrúnu Nordal ljóst að hún var í boði Frumtaka (hagsmunasamtaka frumlyfjafyrirtækja) og Brims, sem annað hvort er brimbrettafatnaðarverslun eða sjávarréttafabrikka einhvers konar? Fór hagfræðingurinn Gylfi Zoega út í að fjalla um heilsutengd efni svo Actavis borgaði upptöku og klippingu á hans fyrirlestri? Vissu allir hverjir sköffuðu pening?

Í annan stað má benda á að í flestum framhaldsskólum og grunnskólum eru nemendur sem geta tekið upp efni, klippt og látið birtast í “fullum gæðum” á vefnum. Væntanlega er einhver kvikmyndaklúbbur í HÍ sem gæti hið sama fyrir minna verð. Þess utan laggar myndin alltaf við og við hjá mér, sennilega vegna þess að ég er ekki enn komin með ljósleiðara og ef notandi tölvu er ekki með hraðvirkasta samband sem völ er á þá skipta “full gæði” í skránni sem liggur frammi voða litlu máli.

Fyrir einhverjum árum hafði kennarastofa FVA fundið út kosti sponsunar / betls. Við vorum til í að enda kennslustundir með yfirlýsingum eins og “Þessi íslenskutími var í boði Baugs hf”, “Þessi efnafræðitilraun var í boði Norðuráls” o.s.fr.. En það sem við litum þá á sem brandara er núna greinilega alvara í tilraunum HÍ til að gera sig sýnilegan og höfða til “fólksins í landinu”.

Sem sjá má er ég pirruð á lyfjafyrirtækjum og sponsun. Reyndar er ég nýbúin að fara yfir kaflana um málafærslumanninn Eyjólf Bölverksson, sem stóðst ekki digran gullhring (um arm) og tók að sér að verja vonlaust keis á Alþingi. Hann var auðvitað drepinn, eftir að Snorri goði hafði hlegið að styrktaraðila-gullhringnum hans og spáð honum illu.

Ég er enn í niðurtröppun. Þetta er verk sem tekur tímann sinn! Engin trappa hefur verið stigin síðan síðustu helgi en ég ætti að komast á stigapallinn núna um helgina (með tilheyrandi óþægindum). Enn þarf ég að sofa a.m.k. 2 tíma á dag, auk 10 tíma nætursvefns, sem segir mér að annað hvort er ég svona veik eða svona lyfjuð ennþá. Eina leiðin til að komast að hvort er er náttúrlega að minnka lyfin óendanlega hægt og bítandi. Kannski verður einhvers staðar náð jafnvægi? Besti hugsanlegi árangur væri að geta verið lyfjalaus, þó ekki væri nema í nokkra mánuði. Ég er næstum búin að gleyma því hvernig ég er í raun og veru.

Nú, ég var búin að setja manninum fyrir að koma með mér á karlakórstónleika kl. 17 (ég er svo svag fyrir karlakórum: Brennið þið vitar og Stenka Rasin gefa gæsahúð!) - en þá færði þessi sami maður mér óvænta sumargjöf: Hnausþykkan blóðugan reyfara sem ég hef einungis heyrt jákvæða dóma um! Svo karlakórarnir þrír verða að halda tónleikana sína án mín :)

Mér líst vel á sumarið: Páskaliljurnar virðast ætla að hafa þetta af þetta vorið og í sumar verðum við maðurinn á eyjahoppi á Tylftareyjum. Annars hefði ég verið til í Krít eins og venjulega.

Ummæli (14) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf