Færslur frá 26. apríl 2009

26. apríl 2009

Harpa:1, Seroquel:0!!!

Þetta eru mikilvægustu úrslit helgarinnar á mínu heimili! Það versta er búið (2 fyrstu næturnar og seinnipartar daga) og í lok næstu viku verður eins og ég hafi aldrei snert á Seroqueli. Þar lýkur 9 vikna tröppun! Hárlosið, sem var búið að gefa í skyn að væri ímyndun í mér, er hætt; baðkerið og hárburstar ekki lengur útbíað í hárum en hins vegar fullt af illhærum í vinstra kollviki, sem bendir til að litla góða hárið sé einmitt að fara að vaxa þar!

Næst snúum við okkur að Lítíum-ógeðinu en ég hef ekki trú á að það verði eins erfitt; mun þó væntanlega gleðjast yfir að geta safnað nöglum sem líta út eins og neglur en ekki bárujárn. (Þetta er óskráð aukaverkun af Litarex og því gef-í-skyn-ímyndun mín, svona stundum alla vega.)  Ég hugsa að ég láti Litarexið bíða fram undir næstu helgi. Þar erum við að tala um tvær tröppur. Og næst … sjáum til!

Meirihluti kjósenda á þessu heimili er dulítið spældur en nær sér niður á að hía á kosningasigur minnihlutans hér á bæ. Mér er slétt sama! Auðvitað kaus ég Gutta og Ólínu, ekki hvað síst af því ég held að þau hafi bæði svo gott af því að kynnast hvort öðru! Auk þess vita þau ýmislegt um skóla og menntakerfið í landinu sem er meira en hægt er að segja um kvótakónga og fiskverkunarkonur vestrá Fjörðum eða Nesi. (Nei, ég er ekki snobbuð - bara lífsreynd og raunsæ eftir að hafa unnið í þremur frystihúsum á mínum yngri árum.)

Listar sem troða Skagamönnum í fimmta sæti eða neðar, eins og Akranes sé eitthvert trilluþorp í kjördæminu, geta bara snapað gams og étið það sem úti frýs fyrir mér!

Ummæli (9) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf