Færslur frá 5. maí 2009

5. maí 2009

Upp og niður

Það er eitthvert f* bakslag í mér núna - mér finnst heimurinn almennt frekar fánýtur og leiðinlegur. Takist mér að rífa mig út úr húsi mun líðanin batna (en ég er bara svo innilega búin að fá nóg af því að rífa mig upp, út, frá o.s.fr. að ég orka því ekki lengur). Ég hugsa að styrkleiki dýfunnar sé lítill og hún standi stutt yfir. Augljóslega er ég ekki á hraðferð í Helvítisgjána, af því hef ég næga reynslu til að meta dæmið og sjálfsagt er þetta rugg á sálarlífinu bara fráhvarfsónot eða af stöðu himintungla. Kannski batnar mér ef ég er duglegri að lesa reyfarann “Ren ondskab”, sem er faktískt soldið ógislegur.

Í kringum mig gerist þó margt skemmtilegt og skondið. Má nefna að nú höfum við loksins fengið nágranna á efri hæðina. Þeir nágrannar fluttu reyndar úr næsta húsi og eru þannig séð ekki spánnýir fyrir okkur. En það er gaman að fá börn í húsið.

Unglingurinn minn er að tærast upp af ást, nokkur kíló á mánuði, svei mér þá. Ég fékk náðarsamlegast leyfi til að tilkynna að hann er að deita stúlku - þó sagði unglingurinn áhyggjufullur að nú þyrfti hann að svara hundrað spurningum frá ömmunum. Ömmurnar verða bara að skrá sig á feisbúkk ;)

Þetta er myndarleg stúlka og greindarleg í þeim örsamtölum sem ég hef átt við hana. Hún býr í Mosó svo notkun strætós 57 hefur nokkuð aukist, auk þess sem hratt gengur á veglykil unglingsins (sem við gáfum honum í jólagjöf og vakti gífurlegan fögnuð!).

Maðurinn sekkur æ dýpra í sín grísku fræði. Nú er ég búin að hundskamma hann fyrir að sofna út frá eða ofan á penna! (Hlítur að vera einsdæmi.) Penninn var rauður tússpenni og lokið ekki á. Þetta er annað sængurverið sem maðurinn spillir með rauðu bleki og löngu ljóst að rautt blek er algerlega þvottekta.

Frumburðurinn er svo til búinn að öllum sínum verkum og getur útskrifast með BA (og vonandi láði) í vor. Ritgerðin er á seinustu stigum. Hann rétt leit hér inn um helgina og virðist vera að tærast upp af sporti; Nú er æft og æft fyrir Laugaveginn í sumar. Mér er óskiljanlegt hvaðan frumburðurinn hefur fengið þessi sportgen (í miklum mæli). Hlítur að vera stökkbreyting!

Ummæli (6) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf, Ættin