Færslur júnímánaðar 2009

8. júní 2009

Sumar-blogg-frí

Ég hef svo mikið að gera við að vera til … og lesa og pikka inn ættargögn og vinna að ÆM og aðeins í garðinum o.s.fr. að ég lýsi yfir sumarfríi á blogginu. Sjáumst í haust.

Stórfjölskyldan verður að nota tölvupósthring til samskipta … munið að ég og Freyja stöndum utan fésbókar. Hlakka til að sjá ykkur á sunnudaginn kemur!

Harpa

Ummæli (4) | Óflokkað, Daglegt líf

4. júní 2009

Dottin í fortíðina

Ég ákvað að slá inn bréfin sem ég fékk á Laugarvatni um síðustu helgi, þ.e. bréfin sem afi skrifaði sumar og haust 1946 til ömmu á spítalanum. Nú sé ég hvaðan blogggenin mín koma því honum tekst ótrúlega vel að skrifa skemmtileg bréf á fárra daga fresti þótt ekki gerist ýkja margt á Raufarhöfn, a.m.k. eftir að síldin lét sig hverfa (ég er komin fram í september í bréfasafninu). Sumt er óskýrt, t.d. get ég ekki lesið almennilega úr öllum gælunöfnum og þarf e.t.v aðstoð við það. Svo þurfti ég að fletta upp orðinu “flæsa” en skil hins vegar ágætlega “dulbeidd”, notað um kvíguna sem talin er kálflaus en af því ég skannaði bréfahrúguna veit ég að hún er með kálfi, hvað kemur í ljós svona í október.

Dyggir fjölskyldulesendur munu kunna að meta þessa klausu, frá 3/9 1946:

Krakkar voru í Lundi á skemtun á sunnudaginn og komu í Valþjófsstaði og heilsuðu Balda og Gunnu. Þau seigja Gunnu hafa stækkað mikið í sumar, hún sé orðin nærri eins há og Baldi, og vel feit. Baldi kvað vera ákaflega duglegur að tína ber, en Gunna heldur löt við það. Baldi sendi Frænda ber í bauk og hafði verið fljótur að tína það, enda kvað vera mikið af berjum í Núpasveit, en minna í Axarfirði.

Menn hafa greinilega haft soldið aðrar skoðanir á vexti barna á þessum tíma og nú. Ekki skrítið að mamma skammaðist sín seinna fyrir horgrindina sína elstu og hafði hana aldrei í stutterma bolum svo ekki sæjust beinin :) Lukkulega hef ég lagast síðan, ekki hvað síst fyrir aukaverkanir lyfja … Mér hefur líka alltaf þótt leiðinlegt að tína ber í óhófi, man þegar ég var send með Árna og Lillu í einhvern tveggja daga maraþon-berjamó, sem krakki. Eiginlega finnst mér best að kaupa bara bláber frá Kanada, í Einarsbúð!

Ummæli (5) | Óflokkað, Daglegt líf, Ættin

2. júní 2009

Um dapurleg örlög Silla og æskilegan fjölda systra

Deyr fé

deyja frændr

deyr Silli ið sama!

Nú hefur verið gefið út dánarvottorð fyrir besta vin Vífils, sem Silli var kallaður en hét fullu nafni Volkswagen Passat. Silli “hné niður” á götu í borg óttans fyrir nokkru, var dreginn í skjól hjá mágkonunni og hennar hænum og skoðaður í dag: Því miður greindist gírkassinn brotinn og bramlaður og of dýrt að blása nýju lífi í Silla, skinnið. Eigandinn hefur verið í talsverðri lægð undanfarið en er nú að jafna sig á sorginni og farinn að huga að öðrum farskjótum því enginn er unglingur án bíls! Líffæri Silla verða gefin frændum hans = hann verður dreginn á partasölu fljótlega.

Af öðrum er allt fínt að frétta nema ég virðist vera að eitra fyrir sjálfri mér með sjálflækningum / oflækningum. Fer þó fjarri að ég taki læknanemaglósur í sátt (sjá síðustu færslu), meira að segja þótt óljósar heimildir séu fyrir því að læknakennarinn sé stúdent úr ML og jafnvel Skagamaður að upplagi. Það gleður mig náttúrlega að hann sé ekki úr MR-klíkunni en þrátt fyrir það er ég sama sinnis um fáránlegar leiðbeiningar til læknanema um meðhöndlun miðaldra kvenna. Ég kenni brotthvarfi Litíums (og Seroquels, þótt engin Einblind, Tvíblind og Þríblind styðji það) um að skjaldkirtilshormón er í sögulegu lágmarki og ég því e.t.v. komin með ofvirkan kirtilsfjanda í stað vanvirks. Ráðið við því er að trappa niður þau lyfin í samráði við útlenda heimilislækninn sem ég hef tekið ástfóstri við, eftir aðeins eina heimsókn ;)

Það var auðvitað mjög gaman um helgina, á míní-ættarmótinu uppi á Laugarvatni! Mesta furða hvað hægt er að troða mörgum manneskjum í eitt íbúðarhús en munaði náttúrlega helling um að hafa krakkana í tjaldi inni í sólstofu ;) Maðurinn var í slíkum önnum að júbba að hann komst ekki yfir mikla myndatöku - og í rauninni mætti segja að þessar fáu sem teknar voru ættu að vera læstar með lykilorði. En manninum finnst þær aðallega sanna að enginn skyldi eiga meir en eina systur! Ég birti því tvær myndir sem sönnunargagn á þessari heimspekilegu teóríu en hef vaðið fyrir neðan mig (eða nefið) og passa að enginn þekki þolandann á myndunum.  Fyrri myndin sýnir systur í samsærislegri hópvinnu (Ragna virðist vera potturinn og pannan), sú síðari árangurinn.  Ógislega fyndið! (fyrir okkur systur).

Ummæli (8) | Geðheilsa, Daglegt líf, Ættin