Færslur frá 4. júní 2009

4. júní 2009

Dottin í fortíðina

Ég ákvað að slá inn bréfin sem ég fékk á Laugarvatni um síðustu helgi, þ.e. bréfin sem afi skrifaði sumar og haust 1946 til ömmu á spítalanum. Nú sé ég hvaðan blogggenin mín koma því honum tekst ótrúlega vel að skrifa skemmtileg bréf á fárra daga fresti þótt ekki gerist ýkja margt á Raufarhöfn, a.m.k. eftir að síldin lét sig hverfa (ég er komin fram í september í bréfasafninu). Sumt er óskýrt, t.d. get ég ekki lesið almennilega úr öllum gælunöfnum og þarf e.t.v aðstoð við það. Svo þurfti ég að fletta upp orðinu “flæsa” en skil hins vegar ágætlega “dulbeidd”, notað um kvíguna sem talin er kálflaus en af því ég skannaði bréfahrúguna veit ég að hún er með kálfi, hvað kemur í ljós svona í október.

Dyggir fjölskyldulesendur munu kunna að meta þessa klausu, frá 3/9 1946:

Krakkar voru í Lundi á skemtun á sunnudaginn og komu í Valþjófsstaði og heilsuðu Balda og Gunnu. Þau seigja Gunnu hafa stækkað mikið í sumar, hún sé orðin nærri eins há og Baldi, og vel feit. Baldi kvað vera ákaflega duglegur að tína ber, en Gunna heldur löt við það. Baldi sendi Frænda ber í bauk og hafði verið fljótur að tína það, enda kvað vera mikið af berjum í Núpasveit, en minna í Axarfirði.

Menn hafa greinilega haft soldið aðrar skoðanir á vexti barna á þessum tíma og nú. Ekki skrítið að mamma skammaðist sín seinna fyrir horgrindina sína elstu og hafði hana aldrei í stutterma bolum svo ekki sæjust beinin :) Lukkulega hef ég lagast síðan, ekki hvað síst fyrir aukaverkanir lyfja … Mér hefur líka alltaf þótt leiðinlegt að tína ber í óhófi, man þegar ég var send með Árna og Lillu í einhvern tveggja daga maraþon-berjamó, sem krakki. Eiginlega finnst mér best að kaupa bara bláber frá Kanada, í Einarsbúð!

Ummæli (5) | Óflokkað, Daglegt líf, Ættin