Færslur ágústmánaðar 2009
Errata og vandinn að vera mannleg
Komið hefur í ljós að ég er lítið skárri en Einar frá Hermundarfelli þegar kemur að eigin minningum, svo ekki sé minnst á sorglega feila í frádrætti (ártölum og aldri) sem ég hef nú orðið uppvís að í Ættarsögunni Miklu! Af veikum mætti hef ég reynt að benda ættingjum á þá staðreynd að villurnar kunni að verða metnar til fjár eftir því sem tímar líða, a.m.k. ef maður hefur sjaldgæf frímerki með t.d. röngum lit eða bullustimpli í huga. Ættingjar hafa nú ekki sýnt þessu mikinn skilning eða fagnað frímerkjadæmum. Svo ég sé ekki fram á annað en ég verði að gefa þessum fjórum eigendum svokölluð “errata” í jólagjöf, þ.e.a.s. límmiða með klausum í Georgia-letri í 8, 10, 12 og 14 punktum, svo þeir geti límt snyrtilega leiðréttingar inn í bókina sína fínu. Hvernig líst ykkur bókaeigendum á það?
Til hægri sést rígmontinn höfundurinn, ekki búin að gera sér ljóst hvursu mannleg hún er …
Sem betur fer veit ég ekki enn um neina villu í Ættarsögunni smærri, sem er einhvers staðar á leið til landsins / mín. Meira að segja upplýsingar um upphaf verslunar á Raufarhöfn eru tékkaðar í bak og fyrir og kórréttar! (Í stað þess að trúa heitnum blaðamanni Þjóðviljans, sem fór hugsanlega eitthvað frjálslega með staðreyndir … ég verð samt að játa að ég hugsa með mér: “Og hverjum er ekki sama?” en svoleiðis hugsanir bera vott um grimmt og guðlaust viðhorf til hagsögu og alveg sérstaklega síldarsögu landsins!)
Þetta er samt ekkert í líkingu við fyrri lífsreynslu: Þá ég var ung, ógeðveik (altént ekki greind) og ofvirk í skólastarfi tók ég m.a. að mér að ritstýra blaði Fjölbrautaskólans á Akranesi (?), Innsýn, sem senda skyldi á hvert heimili í Vesturlandsfjórðungi. Í þá daga lágu umbrotsforrit ekki á lausu og ég klippti og límdi og mældi með reglustiku hvernig allt efnið skyldi verða, auk þess náttúrlega að skrifa drjúgan hluta þess og snúa upp á handleggi á öðru fólki til að fá eitthvað frá því! Skólameistari fékk svo síðustu “próförk” og gerði örfáar tillögur til breytinga … man ekki hvort hann fékk allar myndir með … nema þegar blaðið kemur í mörg þúsund eintökum úr prentun er mynd á forsíðu, fyrir neðan segir að þetta séu nemendur í vélavarðanámi í Ólafsvík … og helvítis myndin var tekin á Hellissandi! Stjórnendur og heimamenn supu hveljur og fullvissuðu mig um að þetta væru ófyrirgefanleg mistök! (Svona álíka og að kalla Hveragerði Þorlákshöfn eða eitthvað svoleiðis!) Í einum grænum prentaði prentsmiðjan út fleiri þúsund límmiða í örmjóum ræmum sem þöktu akkúrat myndatextann og sögðu nemendur standa í einhverjum garði á Hellissandi og svo eyddi ég 12 tímum í striklotu í að líma og líma og líma … vöðvagigtin hvarf ekki fyrr en haustið eftir. Mér er einnig í fersku minni hvað húsvarðarfjölskyldan (þáverandi) var almennileg að taka ein þúsund eintök með sér heim því Júróvissjón var um kvöldið og þau sögðu að krakkarnir hefðu nú bara gaman af því að sitja með foreldrum sínum fyrir framan sjónvarpið og líma; Einstaklega jákvætt fólk þá og nú!
(Myndin að ofan lýsir bloggynju meðan hún var enn perfeksjónisti og ekki búin að átta sig á öllum gildrum stafsetningar og heimsins og svoleiðis.)
Það sem ég lærði af þessu var að treysta mér aldrei til fulls og að nágrannakrytur á Snæfellsnesi væru ekki til að hafa í flimtingum! Sem betur fer er Nesið löngu gengið úr samstarfi við okkur og rekur sinn eigin framhaldsskóla.
Bilíf mí: Ég hef kynnst errata áður! Þess vegna var verulega sniðugt af mér að gefa ÆM einungis út í 5 eintökum, ef skyldi þurfa að líma.
Ég reikna með að kúgaðir áskrifendur að verkinu séu svo fjúkandi yfir röngum nöfnum aukapersóna að það skýra hina algeru þögn frá þeim. Gerið ykkur engar vonir: Þið fáið ekki endurgreitt!
—
Við unglingurinn fórum í berjamó í gær, örsnöggan, í hávaðaroki, og tíndum það lítið að það kláraðist í kvöldmatnum. (Venjulega hefur helmingi berjanna verið hent, fyrir rest.) Svo ég sé nú alveg heiðarleg þá tókst þetta með því að leggja ríkulega með mér í bensínpeningum en ekki af því unglingurinn héldi að það væri svo gaman að fara með mömmu gömlu í berjamó …
—
Loks er að geta þess að ég hef hugsað um gildi sumarskólavinnu í mínu fagi og sé nú að auðvitað á að setja Sturlungu fyrir í maí og byrja á að prófa úr henni, í ÍSL 103 t.d., fyrstu vikuna í september. Þessir unglingar lesa hvort sem alltof lítið og svona kennsluaðferð yrði þá einnig til að kennarinn læsi Sturlungu, því þótt miðaldra kennslukonan hafi tvö meistarapróf í íslensku - og reyndar fimm háskólagráður ef allt er talið
þá hefur hún ekki lesið þessa þekktu morðsögu ennþá!
En sé Sturlunga mæld til fjár er hún léttvæg: Námskeiðið Facebook fyrir byrjendur, hjá Endurmenntun HÍ, kostar 15.500 kr. (6 klst. langt) en Leiðarvísir að Sturlungu kostar ekki nema 9.800 og er þó jafnlangt. (Sjá bæklinginn Menning, sjálfsrækt og tungumál, útg. Endurmenntun Háskóla Íslands, haustið 2009.) Af þessu má sjá hve Facebook er miklu mikilvægari og merkilegri bók en Sturlunga enda geymir hún oft miklu fleiri persónur og verður þá að sama skapi flóknari! Samt stefni ég leynt og ljóst að því að verða vinafæsti einstaklingurinn á Facebook því mér leiðist þetta kjaftæði svo hroðalega - ætli ég sé ekki gömul hoggin sál!
—
Vefurinn er með eindæmum svifaseinn í augnablikinu: Ég held að nú hafi WWW þófnað!
P.s. Takk Vilborg!
Sniftari allra tíma - eða langlundargeð?
Ég hef byrjað æfingar á mitt pjanóforte undanfarna daga eftir að hafa fengið staðfest að maðurinn á efri hæðinni vinnur aldrei á næturvöktum. Eins og alltaf er ákaflega frústrerandi að fatta hve miklu maður týnir niður á nokkrum mánuðum en ég reyni að vera bjartsýn á að þessi tónverk pikki ég aftur upp innan tíðar og gleðst einnig yfir að hafa nýlega nagað neglurnar upp í kviku því það gerir pjanófortespil miklu auðveldara (en er að sama skapi ókvenlegra að sjá).
Eitt af því sem ég ákvað að æfa er Söngur Sólveigar, í þokkalegri útsetningu. Ekki fylgir textinn en mig minnir að hann sé nokkurn veginn svona: Kanskje vil der gaa baade vinter og vaar / og neste sommer med og det hele aar o.s.fr. … þangað til hún sæi útrásarvíkinginn Pétur Gaut á ný. Minnir mig að þessi þolinmæði Sólveigar hafi verið fyrir bí og útrásarvíkingurinn aldrei skilað sér úr höllu Dofrans eða hvar hann var nú að þvælast. (Myndin vinstra megin krækir í flennistóra útgáfu hafi menn áhuga á að sjá stilltu góðu þolinmóðu stúlkuna Sólveigu og töffarann Pétur Gaut með útrásarvíkingalokka. Sú til hægri krækir í Söng Sólveigar á YouTube).
En nú er ég farin að prjóna!
Jess!!! Ættarsagan mikla er komin í hús!
Ein mynd segir meira en þúsund orð og tvær myndir ættu því að vera á við tvö þúsund orða færslu … Litlu myndirnar krækja í aðrar flennistórar af rígmontnum höfundi!
Þetta prjódjekt er meir en 10+, mælt í lopapeysum! Að sjálfsögðu er gripurinn ekki ókeypis en skipaðir áskrifendur fá kostnaðaryfirlit og rukkun í tölvupósti. Svo reikna ég með því að þá áskrifandi er orðinn áttræður safni hann öllum sínum afkomendum saman og tilkynni hvaða uppáhaldserfingi fái Ættarsöguna miklu …
Ættarsagan smærri verður helmingi ódýrari en hún verður ekki í eins flottu broti og bandi og þessi stóra. (Markhópurinn hennar er sennilega með lægri tekjur en markhópur Ættarsögunnar miklu.)
Eiginlega ætti ég að halda námskeið í hvernig maður snuðrar á vef og hvernig hægt er setja saman flott ættarrit, í ýmsu formi.
Rögnu bók fer í póst á morgun - reynt verður að koma hinum til skila í vikulok - um ákv. ráðuneyti þar sem fólk hefur tíma til að taka á móti pökkum til dreifingar.
Ánægjuleg starfsskilyrði
Við í framhaldsskólunum brúkum blessunarlega ekki stimpilklukku. Hins vegar erum við kennararnir nokkurs konar gangandi lifandi stimpilklukkur því við stimplum viðveru (eða fjarveru) nemenda í rafrænan kladda sem heitir Inna. Nú blasti við okkur kennurum ný Inna í gær, áreiðanlega eigum við einhverjum góðum ködlum í Mrn. að þakka þessa uppfærslu, og það sem mest hefur glatt mig, persónulega, er að svo virðist sem nú þurfi ég bara að vinna þriggja daga vinnuviku! Viðverulistinn, sem stimpilklukkan ég stimpla inn í, er nefnilega aðeins fyrir seinni hluta vikunnar, sjá mynd. Ég er ákaflega hlynnt þriggja daga vinnuviku og held ég geti jafnvel giskað á hvur var svona hupplegur að breyta þessu svona fyrir okkur kennarana … þúsund kossar til … X (góði maðurinn í ráðuneytinu á konu og gæti misskilist ef ég færi að nafngreina hann svona á opinberu bloggi)!
Svo ætlaði ég að blogga helling í viðbót en mér er svo illt í maganum að ég held ég leggist aftur útaf. Þessi magaveiki hefur versnað hægt og bítandi í nokkur ár og ég hafði mig loks í fyrsta skrefið, að panta tíma hjá heimilislækni, í dag. Vonandi finnst einföld ástæða sem er ekkert mál að lækna.
Næ þó að nefna frumburðurinn hefur linkað í myndir af sér hlaupandi, ljómandi huggulegar myndir og strákurinn ansi stæltur í svona spandex-brókum … sjá þessa og þessa (bloggið mitt á fleiri lesendur en fésbókin hans svo hann verður sjálfsagt þakklátur móður sinni fyrir auglýsinguna
Enn eitt: Hef ástæðu til að ætla að ÆM (stóra útgáfan) sé komin til landsins! En ég á eftir að svara klassíska bréfinu frá tollinum um hvort megi opna pakkann til að leita að reikningi o.s.fr. … má kallast gott ef ég næ sendingunni út klónum tollsins fyrir helgi. Áskrifendur (sem ég ákvað reyndar sjálf hverjir væru) geta nú bráðum farið að kafa djúpt í buddur sínar!
Skinka dauðans
Í fyrrakvöld bauð danska ríkissjónvarpið upp á myndina Blondinens Hævn sem Íslendingar þekkja betur undir titlinum Legally Blonde. Ég hef ábyggilega séð þessa mynd hátt í fimm sinnum en finnst hún alltaf jafngóð! (Sama gildir ekki um framhaldsmyndina því miður … en aðdáendur Reese Witherspoon ættu að reyna að hafa upp á meistaraverkinu The Election sem er um heldur grimmari skinku en í Blondinens Hævn - mæli með henni. Election-ljóskan er afbrigði af skinku, eiginlega “góða pabbastelpan-in-extreme”, þótt mig minni reyndar að hún alist upp hjá einstæðri móður, í myndinni. Ég held annars að svipurinn á Election-skinkunni segi allt sem segja þarf. )
Ljóskan í Legally Blonde sýnir óvænta hæfileika og reyndar kemur á daginn að yfirburða ljóskuþekking gerir henni kleift að vinna mál annarrar ljósku og rústa ræfils morðingjanum sem fór flatt á að vera með ljótt permanent ár eftir ár. Virðist sem æðsta boðorð þessarar erkiskinku sé að vera sæt (og bleik) hverju sem á gengur.
Fólk af minni kynslóð man ágætlega eftir erkitýpu ljóskunnar sem var Svínka (Miss Piggy) í Prúðuleikurunum. Erkitýpan er alltaf til en mismunandi eftir kynslóðum; má nefna Marilyn Monroe, Marlene Dietrich, Jean Harlow o.fl. o.fl. frá því hljóðið í kvikmyndum var fundið upp. (Fyrir þá tíma var skinkutýpan oft dökkhærð og máluð um augun eins og þvottabjörn.)
Sé leitað aftur í þjóðararfinn má nefna væluskjóður á borð við Helgu Þorsteinsdóttur á Borg eða Hrefnu Ásgeirsdóttur, konu Kjartans. Sú fyrrnefnda var gífurlega ljóshærð, hárið var “sem gull barið” og náði niður fyrir mitti, hin kann að hafa verið dökkhærð miðað við nafnið en er prúð og stillt eins og ljóska þeirra tíma.
Þessi ofurkvenlega týpa með leyndu hæfileikana þarf sumsé ekki endilega að vera ljóshærð! Þessi vegna er tegundarheiti nútímans, skinka, miklu betra en orðið ljóska. Skinka vísar líka á svo ljómandi skemmtilegan hátt til hennar Svínku, á gullaldarárum RÚVsins!
En athugum betur skinkuafbrigðið “prinsessan-hans-pabba-síns”, þ.e. undurþægu ljóskuna með mismunandi hárlit, a la Helga á Borg.
Í gærkvöldi horfuðum við hjónin á vídjó-ið Taken með Liam Neeson, sem staffið á vídjóleigunni sór að væri “geðveikislega spennandi”. Það reyndist rétt mat starfsfólks. Liam Neeson kálaði einn og sjálfur albönsku mafíunni í París og slatta af óbreyttum borgurum, sem voru á röngum stað á röngum tíma, án þess að blása úr nös. Þetta hefur maður sosum séð áður, í Bond-myndum. En ólíkt 007 var Liam þessi ekki að verja leyndarmál ríkisins eða koma í veg fyrir heimstyrjöld heldur einungis að bjarga litlu sætu skinkunni sinni; stúlkunni hans pabba síns! Stúlkukindin var með skinkutaktana á hreinu; hoppaði, gargaði og hvíaði eins og lítil meri í hestalátum en var samt pottþétt hrein mey, þótt’ún gengi með naflann beran!
Meydómurinn reyndist líka hið dýrasta djásn og gerði stúlkuna gífurlega markaðshæfa meðal moldríkra útrásarvíkinga í París. Kapphlaup Liams snérist náttúrlega ekki bara um að ná litlu sætu pabbaskinkunni á lífi heldur einnig að ná henni óspjallaðri. Minnir albanska mafían óneitanlega á athæfi dusilmenna í Íslendingasögum sem taka upp á því, til að ná sér niðri á hetjunni, að “fífla” frændkonu hetjunnar og lækka hana þar með í verði! Yfirleitt leiðir þessi leiða hegðun til manndrápa og eftir að hafa séð Taken er ég ekkert hissa á því!
Þar sem setið er um kennara þessa dagana og reynt að hanka þá á málfari og stíl … og gera þeim enn einu sinni ljóst að kennsla er ekki starf heldur köllun sem menn eiga að uppfylla 24 tíma á sólarhring … get ég alls ekki nefnt konkret dæmi um skinkur í skólastofum. En ég fullvissa dygga lesendur mína að þær eru til, ekki ein eða tvær heldur stundum heilu skinkuhóparnir í sumum áföngum. Sem betur fer er sjaldgæft að pabbarnir grípi inn í þyki skinku kennari óvæginn í dómum (= vondur við sig) en er þó til í dæminu. Lukkulega eru feður á Skaga ekkert í líkingu við Liam Neeson!
Ég er spennt að komast að því hvernig Skinka haustsins 2009 verður klædd og hvernig hollingin er á týpunni þetta árið. Verður mittið upp við brjóst? Verður brjóstaskora? Hve síðar (eða stuttar) skulu leggings vera? O.s.fr.
Að lokum vil ég benda á öllu alvarlegri gerð af skinku, sem er smitaður einstaklingur af svínaflensu. Var einmitt að lesa í einhverju blaði um vesalings flugfarþega frá Majorku sem máttu sitja undir því þessa löngu leið að hóstandi útskriftahópar voru um alla vél! Sem sagt “svínaflenskuskinkur”. Ef maður þekkir óvininn má betur verjast og því birti ég hér til vinstri mynd af svoleiðis skinku, sem getur verið af hvoru kyninu sem er og leynst hvarvetna í umhverfi manns, t.d. á vinnustöðum. Skilaboðin sem fylgja myndinni í aðvörunartölvupósti nútímans eru að ef einhver samstarfsmaðurinn lítur svona út skal senda hann heim áður en hann nær að smita! Ég var að hugsa um að festa myndina upp á sérstaka svínaflensuauglýsingatöflu sem sett hefur verið upp við hlið kennarastofunnar en þar sem ég geri ráð fyrir að vera ekki í sérstöku uppáhaldi stjórnenda þessa dagana læt ég það eiga sig …