Færslur frá 24. ágúst 2009

24. ágúst 2009

Ánægjuleg starfsskilyrði

Við í framhaldsskólunum brúkum blessunarlega ekki stimpilklukku. Hins vegar erum við kennararnir nokkurs konar gangandi lifandi stimpilklukkur því við stimplum viðveru (eða fjarveru) nemenda í rafrænan kladda sem heitir Inna. Nú blasti við okkur kennurum ný Inna í gær, áreiðanlega eigum við einhverjum góðum ködlum í Mrn. að þakka þessa uppfærslu, og það sem mest hefur glatt mig, persónulega, er að svo virðist sem nú þurfi ég bara að vinna þriggja daga vinnuviku! Viðverulistinn, sem stimpilklukkan ég stimpla inn í, er nefnilega aðeins fyrir seinni hluta vikunnar, sjá mynd. Ég er ákaflega hlynnt þriggja daga vinnuviku og held ég geti jafnvel giskað á hvur var svona hupplegur að breyta þessu svona fyrir okkur kennarana … þúsund kossar til … X (góði maðurinn í ráðuneytinu á konu og gæti misskilist ef ég færi að nafngreina hann svona á opinberu bloggi)!

Svo ætlaði ég að blogga helling í viðbót en mér er svo illt í maganum að ég held ég leggist aftur útaf. Þessi magaveiki hefur versnað hægt og bítandi í nokkur ár og ég hafði mig loks í fyrsta skrefið, að panta tíma hjá heimilislækni, í dag. Vonandi finnst einföld ástæða sem er ekkert mál að lækna.

Næ þó að nefna frumburðurinn hefur linkað í myndir af sér hlaupandi, ljómandi huggulegar myndir og strákurinn ansi stæltur í svona spandex-brókum … sjá þessa og þessa (bloggið mitt á fleiri lesendur en fésbókin hans svo hann verður sjálfsagt þakklátur móður sinni fyrir auglýsinguna ;)

Enn eitt: Hef ástæðu til að ætla að ÆM (stóra útgáfan) sé komin til landsins! En ég á eftir að svara klassíska bréfinu frá tollinum um hvort megi opna pakkann til að leita að reikningi o.s.fr. … má kallast gott ef ég næ sendingunni út klónum tollsins fyrir helgi. Áskrifendur (sem ég ákvað reyndar sjálf hverjir væru) geta nú bráðum farið að kafa djúpt í buddur sínar!

Ummæli (4) | Óflokkað, Skólamál, Daglegt líf, Ættin