Færslur frá 1. september 2009

1. september 2009

Labbað með Leó

Ég er svo stálheppin að mér tókst að svindla mér inn í áfanga sem kollegi minn kennir og heitir “Skrifað í skrefum” (eða öfugt).

Í dag var fyrsti vettvangstúrinn, frá FVA út í Innstavogsnes. Á leiðinni sagði kennarinn, Leó Jóhannesson, okkur frá fyrri tíð og fyrri búendum, allt aftur til landnáms. Mér þótti þetta mjög gaman því ég er soldið höll undir þjóðlegan fróðleik. En ekki hvað síst var þetta meinhollt fyrir mig og má ætla að minn góði læknir yrði ánægður með mig í dag, hafandi hreyft mig í meir en tvo tíma! 

Þessari færslu fylgja nokkrar myndir; sé smellt á litlu myndirnar koma stærri útgáfur í ljós. Sú sem hér er til vinstri sýnir allan hópinn mínus mig. Til hægri sést kennarinn, Leó, við listaverkið Elínarsæti, sem stendur við hið meinta Elínarsæti (þaðan sem Elín hafði þráðlaus samskipti við systur sína, Straumfjarðar-Höllu … en þær tvær voru einnegin systur Sæmundar fróða og væntanlega fjölkunnugar eins og hann).

Til að lífga upp á labbitúrinn fórum við fjögur (litla myndin sýnir göngufélaga mína) í mikla svaðilför yfir Garðaflóann en af því göngufélagarnir eiga að vinna verkefni úr ferðinni fer ég ekkert að segja frá afrekum okkar í smáatriðum; læt þess einungis getið að við vorum miklar hetjur að komast til byggða! Og nú vitum við af hverju þjóðleiðin lá með ströndinni en ekki yfir Garðaflóann ;) Eini göngugarpurinn sem datt endilangur milli þúfna, í mýri, á leiðinni var ég - félagar mínir voru mun fótvissari. Spennan í þessari ferð var einkum fólgin í því að reyna að finna brú eða velta því fyrir sér hvort væri kannski engin brú …

Ummæli (0) | Óflokkað, Skólamál, Daglegt líf