Færslur frá 7. september 2009

7. september 2009

Ótrúleg líkindi tollafgreiðslufólks og kvenlegra símadama við persónur Tove Janson

Nú halda kannski dyggu lesendurnir að ég ætli að skrifa um sörpræsið sem beið okkar aðfararnótt 8. ágúst í haust, þegar íslenskum hópi varð ljóst að tollvarslan á Keflavíkurflugvelli, sem og lögreglan á sama flugvelli, hafði gleymt vélinni og farið heim og lagt sig … Þótt maður væri þreyttur eftir að vaka í 21 tíma og kannski ekki fjöðrum fenginn yfir að þurfa að bíða í einar 40 mínútur meðan hið áhyggjulausa og gleymna lið var vakið og sótt í vinnuna … þá nennti ég ekkert að gera mál yfir því, svo fegin varð ég að komast í rúmið mitt og fannst uppákoman heldur ómerkileg miðað við skemmtun frísins.

Nei, ég ætla ekki að tala um þá litlu lögguhattífattana eða tollarana sem auðvitað stoppuðu síðan syfjaða en saklausa MR-nemendur í útskriftarferð af því þau voru eina fólkið undir þrítugu og greinilega kennt í tollaraskólum að svoleiðis fólk geti smyglað, jafnvel eiturlyfjum (komandi frá Tyrklandi)! Auðvitað fannst ekki gramm á blessuðum börnunum.

Nei; ég ætla að blogga aðeins um símaævintýri mitt í dag sem hleypti púlsinum upp í háaloft og því segi ég yður: Það er ekki nema fyrir fullfrískt fólk, nýkomið af AA-fundi, að eiga símtöl við Tollafgreiðsluna á Keflavíkurflugvelli, sérstaklega að tala við hana Maríu smápakkavörð í síma!

Ég pantaði pakka frá USA sem var settur í hraðpóst þann 20. ágúst. Hafandi fengið alveg nákvæmlega eins pakka fyrir um tíu dögum síðan var ég farin að undra mig á seinagangingum í þessum pakka (sem geymir Ættarsöguna smærri) og datt helst í hug að flugvélin hefði hrapað. Á pakkanum var svokallað “tracking” svo ég gat séð afdrif hans í tölvunni og sá, í gær, að pakkinn kom til Keflavíkur þann 28. ágúst (eftir að hafa verið gegnumlýstur bæði í Hollandi og Köln) en hefur setið þar fastur síðan. Mér telst svo til að komnir séu 11 dagar sem hraðsendi pakkinn minn er í pakkahrúgu, væntanlega í Byggingu 10 á Keflavíkurflugvelli. Á eftirlitslistanum (tracking details) var þessi ástæða gefin upp fyrir stöðvun pakkans: “SHIPMENT IS HELD DUE TO UNREALIST VALUE/WEIGHT RATIO. UPS WILL VERIFY VALUE WITH RECEIVER BEFORE CUSTOMS CLEARANCE”. Á ástkæra ylhýra: “Það er óraunsætt hlutfall milli verðmætis og vigtar pakkans. UPS mun tékka á verðmæti pakkans áður en tollurinn lætur hann lausan.”

Ég hringdi í Tollinn í Rv. (tollur.is), var sagt að þetta væri ekki þeirra mál, fékk símanúmer sem átti að vera hjá tollgæslunni í Keflavík en reyndist vera hjá löggunni á sama stað, löggan gaf mér símanúmer hjá tollgæslunni, maðurinn í því númeri sagði að engin nema hún María, sem “ynni í smápökkunum” gæti svarað þessu og María væri í mat, gaf mér svo upp beina símann Maríu, hvað mér fannst sætt uns ég komst að því að María er ekkert að hanga við sitt skrifborð heldur er ferlega móbíl “í byggingunni”.

Tókst loks að hafa upp á Maríu. Um leið og hún fattaði að ég var ekki himinhrópandi ánægð yfir að hraðsendi pakkinn minn væri að mygla í pakkageymslunni hennar, gerðist hún fúl og valdagírug o.s.fr.: Nákvæmlega eins og hemúll!* Meðal þess sem María sagði var:

“Ég get ekki afgreitt pakkann nema ég sjái reikninginn fyrir innihaldinu.” “Ég þarf ekkert leyfi til að opna svona smápakka” (þegar ég bauðst til að senda henni slíkt leyfi í tölvupósti svo hún gæti séð reikninginn). “Ég man ekkert eftir þessum pakka.” “Þetta er ekki mitt mál, þær hjá UPS eiga að sjá um þetta”.

Af stakri greiðasemi gaf María tollvörður (skyldi hún eiga afa sem heitir Einar?) mér samband við UPS, sem reynist vera umboðsaðili fyrir hraðsendingar (!!!!).  Sjá Express ehf. Þar náði ég sambandi við stúlku (?) með ungmeyjartón, átt er við þann tón sem amrískir unglingar brúka í þriðja flokks sápuóperum - kaldhæðnislega kvenlegan. Hún minnti mig að mörgu leyti á snorkstelpuna. Stúlkan heitir Hildur Kjartansdóttir. Hún sagði að í rauninni hefði hún ekkert með þetta að gera heldur stúlkan á neðri hæðinni, sem væri í mat. Auk þess væri þetta ekki þeim að kenna heldur Blurb (fyrirtækinu sem sendi mér pakkann) sem hefði ábyggilega ekki sent reikning. Stúlkan í matnum væri örugglega búin að reyna að hringja í mig útaf þessu. (Seinna í samtalinu kom í ljós að stúlkan hringir í viðskiptavini UPS á morgnana og fram yfir hádegi og nær yfirleitt bara að hringja í fólk fyrstu dagana sem pakkinn er fastur af því það er svo mikið að gera.)

Ég stakk upp á möguleikanum að senda viðskiptavinum tölvupóst í stað þess að reyna að ná í þá í heimasíma á miðjum vinnutíma á rúmhelgum dögum. Jú … Hildur kannaðist við tölvupóst en vissi ekki hvernig maður fyndi svoleiðis ef það stendur ekki á pakkanum. Ég fjarkenndi henni, algerlega ókeypis, á Google, í tölvupósti núna áðan. (Maður getur t.d. gefið upp leitarstrenginn Harpa Hreinsdóttir netfang)

Hildur hélt að kannski gæti stúlkan sem var í mat reynt að tala við Maríu þegar María kemur út í þessa byggingu (nr. 10) í fyrramálið ef ég sendi henni afrit af reikningnum sem ég fékk í tölvupósti frá fyrirtækinu sem sendir pakkann.

Ég var náttúrlega orðin fjúkandi reið og spurði hvort hún gæti ekki bara skokkað yfir, náð í Maríu, fylgt henni í pakkageymslu í byggingu 10, fundið helvítis pakkann og afgreitt og komið honum á Íslandspóst ásamt afsökunarbeiðni til mín fyrir helvítis sleifarlagið, strax í dag! (Reyndar notaði ég ekki þetta orðalag því mér var til efs að Hildur myndi skilja svo fornt orðtak.)

Á endanum framsendi ég frk. Hildi fælu af tölvupóstum, bæði varðandi þennan pakka og nákvæmlega eins pakka sem ég fékk sendan hratt og vel um Íslandspóst en eins og Hildur sagði: “Hann hefur kannski rétt sloppið - það er verið að herða þetta núna.”

Ég er rosalega fegin að þurfa ekki að kenna Hildi meira. Sömuleiðis er ég þakklát fyrir að vinna ekki með hemúlum en skilgreiningin á þeim er glettilega lík framkomu frk. Maríu og hvað kona sér fyrir sér í símtali við slíka:

*  “En hemul har hemskt stora fötter och ingen humor, förklarade jag [muminpappan]. Näsan är lite tillplattad och håret växer i obestämda tottar. En hemul gör ingenting därför att det är roligt, utan bara för att det borde göras, och berättar hela tiden för en vad man själv borde ha gjort och … (Muminpapappans Bravader [1950] 1961: 16)”

 

Einu kynnin sem ég hef áður haft af tollverði voru af öldruðum Lystigarðshemúl í Reykjavík. Það sem þó gleður mig í þessari uppákomu  er að  nú veit ég að fólk sem e.t.v. (ath. að hér slæ ég engu föstu) er haldið greindarörorku (lærði orðið í dag og fæ að nota það, courtesy of Freyja) á von um vinnu ef það vill búa suður með sjó! 

Það er ótrúlega lokkandi að panta Camenbert og mygluost frá USA með hraðpóst og biðja sérstaklega um að reikningnum sé stungið innan í pakkann og UPS sé kirfilega nefnt sem þjónustuaðili hraðsendinga utan á pakkanum ;)

Ummæli (14) | Óflokkað, Daglegt líf