Færslur frá 10. september 2009

10. september 2009

Mín elskanlegu

Titillinn vísar að sjálfsögðu til nemenda minna! Þeir eru eins og hugur manns; hlýtur að vera einstakur árgangur í nýnemauppskeru haustsins!  Þessir krakkar mæta vel, sýna áhuga, vinna eftir getu og eru með á nótunum í kennslustundum, sem er einmitt risakostur í augum kennara. (Átt er við að ekki þurfi að svara spurningunni: “Í hvaða kafla erum við?” oftar en kannski tvisvar í kennslustund.)

Af því blessaðir unglingarnir haga sér svona vel þá hefur mér tekist að mæta til vinnu, hef mætt alla daga vikunnar og stóla á morgundaginn líka. Af því ég er svo þunglynd og langt niðri núna úða ég í mig pillum við skjálftanum og leik síðan glaðbeittan kennara í performans dagsins; hegg mann og annan eins og fullkomlega geðfrísk manneskja.

Í frímínútum leik ég glaðbeittan kennara í frímínútum.  Guði sé lof fyrir leikarahæfileika í genunum, ég segi ekki annað!

Helstu trixin sem ég brúka annars eru “einn dagur í einu”, “með hægðinni hefst það” og “feik itt till jú meik itt”.  Þetta síðasttalda útheimtir að taka til dress á kvöldin og reyna að líta vel út í vinnunni - útlitið eitt dregur langt ef sálin er lítil og smá. Á morgun ætla ég að vera á hælum!

Svo eru það litlu hlutirnir: Ég raða samviskusamlega niður plúsum og mínusum og passa að hafa mínusana ekki of marga. Í dag get ég plúsað við að hafa straujað (enda þarf ekki heilabú í það); hafa prjónað 3 umferðir; hafa spilað Söng Sólveigar tvisvar í gegn og hafa reykt sæmilega vel. Ég hef nefnilega áhyggjur af því að nú reyki ég of lítið, eftir að ég tók upp á að reykja úti, og heilinn sakni síns rúss og niktótínþéttni í blóði sé fulllág.

Helsta áhyggjuefnið framundan er hvernig mér tekst að komast gegnum afmælið mitt, sem ég held upp á á laugardaginn. Hugsanlega verður mér eitthvað farið að batna, mér finnst einhver smábati í dag, hugsanlega verð ég að poppa pillunum eins og óhamingjusöm amrísk húsmóðir í úthverfi … Ég hef haft samband við minn góða lækni og er ekki frá því að það eitt hafi aðeins lyft þokunni svörtu - aftur á móti kunni hann engin töfraráð (ég bjóst hvort sem er ekki við því) og mælti einungis með hærri pilluskömmum. Sem ég er lítið upprifin yfir og vil forðast. En … pillur, massi af winston (sem allir vita að er ógislega óhollt - þessu bæti ég við til að pota ekki í hann Þorgrím og hina postulana) og þokkalegt dress ætti að koma mér gegnum daginn.

Þótt velmeinandi alþýðukonur veifi framan í mann gagnslausum ráðum, frá jurtaseyðum og hvannarót upp í miðlaheimsóknir og heilunaryfirlagningar þá veit ég ósköp vel að heilinn er ekkert spes heldur gengur fyrir efnaskiptum og það eina sem virkar á hann er að fá helv. efnaskiptin í lag, með pillum eða stuði.  

Svo ég ljúki færslunni í hring: Bestu tímar dagsins eru á morgnana, frá svona kl. 6, þegar ég vakna, og framundir hádegi, meðan ég er að kenna. Það er ofboðsleg hvíld fólgin í því að þurfa að hafa auga á hverjum fingri og sinna hressum og jákvæðum unglingum!  Það eina sem ég hef undan þeim að kvarta er að enn og aftur kemur upp sami vandinn við að fá þessi börn til að trúa á drauga! Nútíma hryllingssaga gengur ágætlega í einum áfanganum en Laxdælunemendur eru hroðalega raunsætt fólk sem sættir sig ekki við smávegis andsetningu og almennan íslenskan draugagang!  Hugsanlega get ég kennt draugakafla með slökkt ljós og blaktandi kertaloga, þegar lengra líður á önnina. Það ætti að hjálpa ef maður hefur hljóðeffekta með.

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa, Skólamál, Daglegt líf