Færslur frá 18. september 2009

18. september 2009

Ein dugleg í ammælisgjöfunum!

Af því ég hafði bannað fólki að gefa mér stóra pakka (sem næstum allir fóru eftir) og afþakkað alla skartgripi (er þó mjög ánægð með þennan eina sem ég fékk því hann er verulega spes og mun gera sig vel í kennslu!) … af þessum sökum fékk ég aðallega umslög í afmælisgjöf. Í dag tók ég svo á mig rögg og fór að versla fyrir eitthvað af innihaldi umslaganna. Hér er afraksturinn:

1. Keypti nýjan gemsa; bað manninn í búðinni um þann einfaldasta og ódýrasta því á þessu heimili hefur sýnt sig að dýrustu gemsarnir endast styst. Því miður tók ég óvart gjafakortið í Kringluna með mér og maðurinn í Omnis-búðinni á Skaganum hefði ekki þegið það svo ég lánaði sjálfri mér, af mínu debetkorti, upp í meinta eyðslu afmæliskorts.

2. Keypti diskinn með Sigríði Thorlacius og hef spilað einu sinni í gegn með “singalong” töktum. Lofar góðu.

Svo lagði ég mig …

Í eftirmiddaginn fór ég aftur af stað í innkaupaleiðangur og keypti nokkrar spjarir (aðallega á Vífil) á svokölluð “Outlet” (Útlátum eða Afrennsli) sem búðir á Skaga eru duglegar að halda í kreppunni. Það er ekki mér að kenna að þetta var svívirðilega ódýrt og hjó aðeins ogguskarð í gjafakortið frá kennurunum. Heldur ekki mér að kenna að einu sætu kjólarnir til sölu létu mig líta út eins og rúllupilsu og voru þar með úr sögunni! (Loðband í næstu búð tekur vart að nefna, það var nánast gefins.)

En kennararnir hafa þó splæst sæmilega duglega í snyrtivörur sem eru þyngdar sinnar virði; grammið af meiki miklu dýrara en grammið af eiturlyfjum á borð við Winston. Ég sé nefnilega fram á það að verandi orðin fimmtug þarf ég að fara að nota eitthvað haldbetra á andlitið en kalt vatn! Svo ég keypti sparsl fyrir konur til að gera andlit slétt og samlitt. (Sé núna að mig vantar þá væntanlega kinnalit eða eitthvað til að gera fésið mislitt á ný, ofaní sparslið …). Og nýjan ælæner af því sá sem ég keypti fyrir um áratug var einfaldlega að klárast! 

Reyndar eyddi ég líka af gjafakorti kennaranna í magalyf sem eiga að virka á svona sætan og huggulegan maga (innanverðan) sem magadoktorinn sagði mér. Orðrétt sagði hann (og ég fékk í hnén!): “Þú ert jafn falleg að innan sem utan”. VÁ!!!  Við ræddum þetta aðeins á kennarastofunni, konurnar, og öllum fannst þetta sætt og læknirinn mikill kavalér. Allar voru líka á því að þær myndu kýla þann kvensjúkdómalækni kaldan sem léti svonalagað út úr sér. Þannig að svona gullhamrar geta verið beggja handa járn …

Maskara er ég tiltölulega nýbúin að kaupa en hef hins vegar voða lítið notað hann því gallinn við allt svona sparsl og lit er að þessu þarf að ná aftur af sér áður en maður fer að sofa. Og það er vesen! Meira segja þótt maður eigi einhvers konar hreinsikrem.

Nú hefur allt í einu dottið í manninn (háskólanemann sem lærir 18 tíma á sólarhring) að fara að þrífa! Ég á að mæta í nudd eftir hálftíma og kemur ekki til greina að ég taki upp tusku núna!

Ummæli (0) | Óflokkað, Daglegt líf