Færslur frá 20. september 2009

20. september 2009

Er Lísbet Lína?

Í dag kláraði ég Luftkastellet der blev spængt, sumsé þriðju bókina Stieg Larssons og þá síðustu vegna ótímabærs fráfalls höfundarins. (Ansans!!!)

Ég er ósammála því að bókin sé langdregin. Hins vegar er allt í lagi að hraðlesa eitthvað af þessum rúmu 700 síðum - tók mig föstudag til sunnudags að klára hana, inn á milli ýmiss annars.  Ég var duglega að hoppa yfir nákvæma umfjöllun um sænsk stjórnmál frá því um 1970 en kannski hafa einhverjir aðrir lesendur einmitt sérstaklega gaman af þeim köflum.

Ég er sammála því að Lisbeth Salander er sama erkitýpa og Lína langsokkur. (Hún á fullt af peningum, pabba sem er nánast sjóræningi, lítur undarlega út, er svo sterk að hún ræður við alla vonda karla, kerfið reynir að ná yfir hana böndum en tekst ekki því hún er ákaflega asósíal o.s.fr.  Sem sagt afar lík Línu)

Aftur á móti fór ég að hugsa um hver væri þá apinn Níels? Er Mikki Blómkvist Níels?  Að loknum lestri Stúlkunnar sem lék sér að eldinum fannst mér að svo gæti vel verið - Blómkvist eltir tippið á sér en er annars reikull í rásinni og lítill bógur, miðað við Lísbet, situr nánast á öxlinni á henni þegar vondir koma.

Eftir þessa þriðju bók finnst mér aftur á móti systkinin Mikael Blomkvist og Annika Giannini vera dæmigerð Tommi og Anna; þæg, góð og til í að hjálpa óþægu stúlkunni Lisbeth / Línu.  Hver er þá apinn?

Mér finnst allt í lagi að spilla fyrir spenntum tilvonandi lesendum með því að upplýsa að hún Lisbeth Salander heldur upp á apa, a.m.k. apana sem má fóðra á Gíbraltar ;)   En meira segi ég ekki!

Ummæli (3) | Óflokkað, Daglegt líf