Færslur septembermánaðar 2009

8. september 2009

Úps! Hann hreyfist!

Það sem símtölin og bloggfærslan í gær hafa áorkað er sko ekkert smáræði; Þetta hefur fengið hana Maríu smápakkavörð til að fallast á að pakkinn færi áfram (til mín) þegar hún heiðraði Byggingu 10 með viðveru sinni í morgun!  (Sjá sönnunargagn.)

Úps-stúlkurnar hafa kannski eitthvað hreyfst og eiga sinn þátt í lausn málsins. E.t.v. hefur runnið upp fyrir þeim að hafi maður símanúmer er auðvelt að finna skráðan eiganda þess sem og heimilisfang (sennilega höfðu þær nú aðgang að hvoru tveggja). Og þá má senda tilkynningu í sniglapósti, sem ekki er nema rétt sólarhring á leiðinni þótt Akranes sé svona “remote area” (afdalabyggð) sem stendur á trakking-síðu þeirra góða fyrirtækis. Svoleiðis að það þarf ekki að einblína vonlaus á símtólið þegar ekki er svarað í þessi tvö-þrjú skipti sem “stúlkan sem er í mat” reynir að hringja.

Í gær reyndi ég að fylla út kvörtunarform á tollur.is. Það gekk ekki, að því er virtist vegna þess að ég sendi ekki viðhengi með. Ég var, á þeirri stundu, of syfjuð til að fatta að auðvitað gæti ég sent þeim mynd af hemúl sem viðhengi. Þá hefði kvörtunin kannski komist til skila?  Ég reyndi líka að finna netfangaskrá starfsfólks, til að senda honum Andrési Ara Ottóssyni, deildarstjóra í tollinum í Keflavík, póst. Að sjálfsögðu liggur slíkt ekki frammi enda má ætla, miðað við reynslu margra, að staffið þyrfti þá að fara að taka tillit til óska viðskiptavina. Þannig að í gær gúgglaði ég netfangið hans Andrésar á simnet og sendi honum stutt kvörtunarbréf, hvar ég vísaði í fyrri bloggfærslu til nánari skýringar.

Áðan poppaði inn í pósthólfið bréf frá honum Andrési @simnet og er hann heldur óhress með að ég hafi sent kvörtunarbréf á ”einkapóstfang … þar sem öll mín fjölskylda les þetta”.  Ég bað manninn náttúrlega afsökunar en ég get svarið að ég hélt að svona fjölskyldunetföng heyrðu sögunni til og hefðu í raunni einungis verið brúkuð á síðustu öld. Mér finnst “fjölskyldupóstfang” hljóma svipað og “fjölskyldutannburstinn” …  Að sjálfsögðu svaraði ég honum Andrési á tollarapóstfangið hans sem hann var svo elskulegur að gefa upp og sem er einmitt hannað þannig að fólk muni ekki geta giskað á það (enda þyrfti hann þá að fara að taka tillit til allskonar uppástöndugheita viðskiptavina tollsins, jafnvel kvenna í afdölum.)

Svo nú býst ég við Ættarsögunni smærri á hverri stundu, a.m.k. á tímakvarða hraðsendingarþjónustu og tollafgreiðslu. Gæti jafnvel komið á morgun!

Aftur á móti rifjaðist upp fyrir mér að ég er með nótnahefti í pöntun; Er búin að borga nóturnar og þær voru sendar af stað um miðjan ágúst, sbr. bréfsnuddu sem segir: “Your order #5688889 shipped today” og er send þann 14. ágúst. Ég er ekki með tracking fídus á þessum pakka en dettur í hug að kannski finnist Maríu eða sálufélögum hennar þessi pakki eitthvað grunsamlegur, miðað við verð og þyngd, jafnvel lykt?  En ég fullvissa alla mína dyggu lesendur að í pakkanum þeim er einungis bók með jólasálmum og jólalögum. Við skulum vona að hann skili sér fyrir jól (soldið ankannalegt að æfa jólalögin í febrúar 2010, finnst mér …)

P.s. Ég finn það á mér að hann Andrés hefur verið í Þróttó fyrir margt löngu. Er þessi tilfinning rétt? Finn því miður hvergi mynd af íþróttahemúlnum sem kemur fyrir í Vetrarundri í Múmíndal en vel lesnir lesendur mínir þurfa ekki mynd heldur muna týpuna.

  

Ummæli (0) | Óflokkað, Daglegt líf

7. september 2009

Ótrúleg líkindi tollafgreiðslufólks og kvenlegra símadama við persónur Tove Janson

Nú halda kannski dyggu lesendurnir að ég ætli að skrifa um sörpræsið sem beið okkar aðfararnótt 8. ágúst í haust, þegar íslenskum hópi varð ljóst að tollvarslan á Keflavíkurflugvelli, sem og lögreglan á sama flugvelli, hafði gleymt vélinni og farið heim og lagt sig … Þótt maður væri þreyttur eftir að vaka í 21 tíma og kannski ekki fjöðrum fenginn yfir að þurfa að bíða í einar 40 mínútur meðan hið áhyggjulausa og gleymna lið var vakið og sótt í vinnuna … þá nennti ég ekkert að gera mál yfir því, svo fegin varð ég að komast í rúmið mitt og fannst uppákoman heldur ómerkileg miðað við skemmtun frísins.

Nei, ég ætla ekki að tala um þá litlu lögguhattífattana eða tollarana sem auðvitað stoppuðu síðan syfjaða en saklausa MR-nemendur í útskriftarferð af því þau voru eina fólkið undir þrítugu og greinilega kennt í tollaraskólum að svoleiðis fólk geti smyglað, jafnvel eiturlyfjum (komandi frá Tyrklandi)! Auðvitað fannst ekki gramm á blessuðum börnunum.

Nei; ég ætla að blogga aðeins um símaævintýri mitt í dag sem hleypti púlsinum upp í háaloft og því segi ég yður: Það er ekki nema fyrir fullfrískt fólk, nýkomið af AA-fundi, að eiga símtöl við Tollafgreiðsluna á Keflavíkurflugvelli, sérstaklega að tala við hana Maríu smápakkavörð í síma!

Ég pantaði pakka frá USA sem var settur í hraðpóst þann 20. ágúst. Hafandi fengið alveg nákvæmlega eins pakka fyrir um tíu dögum síðan var ég farin að undra mig á seinagangingum í þessum pakka (sem geymir Ættarsöguna smærri) og datt helst í hug að flugvélin hefði hrapað. Á pakkanum var svokallað “tracking” svo ég gat séð afdrif hans í tölvunni og sá, í gær, að pakkinn kom til Keflavíkur þann 28. ágúst (eftir að hafa verið gegnumlýstur bæði í Hollandi og Köln) en hefur setið þar fastur síðan. Mér telst svo til að komnir séu 11 dagar sem hraðsendi pakkinn minn er í pakkahrúgu, væntanlega í Byggingu 10 á Keflavíkurflugvelli. Á eftirlitslistanum (tracking details) var þessi ástæða gefin upp fyrir stöðvun pakkans: “SHIPMENT IS HELD DUE TO UNREALIST VALUE/WEIGHT RATIO. UPS WILL VERIFY VALUE WITH RECEIVER BEFORE CUSTOMS CLEARANCE”. Á ástkæra ylhýra: “Það er óraunsætt hlutfall milli verðmætis og vigtar pakkans. UPS mun tékka á verðmæti pakkans áður en tollurinn lætur hann lausan.”

Ég hringdi í Tollinn í Rv. (tollur.is), var sagt að þetta væri ekki þeirra mál, fékk símanúmer sem átti að vera hjá tollgæslunni í Keflavík en reyndist vera hjá löggunni á sama stað, löggan gaf mér símanúmer hjá tollgæslunni, maðurinn í því númeri sagði að engin nema hún María, sem “ynni í smápökkunum” gæti svarað þessu og María væri í mat, gaf mér svo upp beina símann Maríu, hvað mér fannst sætt uns ég komst að því að María er ekkert að hanga við sitt skrifborð heldur er ferlega móbíl “í byggingunni”.

Tókst loks að hafa upp á Maríu. Um leið og hún fattaði að ég var ekki himinhrópandi ánægð yfir að hraðsendi pakkinn minn væri að mygla í pakkageymslunni hennar, gerðist hún fúl og valdagírug o.s.fr.: Nákvæmlega eins og hemúll!* Meðal þess sem María sagði var:

“Ég get ekki afgreitt pakkann nema ég sjái reikninginn fyrir innihaldinu.” “Ég þarf ekkert leyfi til að opna svona smápakka” (þegar ég bauðst til að senda henni slíkt leyfi í tölvupósti svo hún gæti séð reikninginn). “Ég man ekkert eftir þessum pakka.” “Þetta er ekki mitt mál, þær hjá UPS eiga að sjá um þetta”.

Af stakri greiðasemi gaf María tollvörður (skyldi hún eiga afa sem heitir Einar?) mér samband við UPS, sem reynist vera umboðsaðili fyrir hraðsendingar (!!!!).  Sjá Express ehf. Þar náði ég sambandi við stúlku (?) með ungmeyjartón, átt er við þann tón sem amrískir unglingar brúka í þriðja flokks sápuóperum - kaldhæðnislega kvenlegan. Hún minnti mig að mörgu leyti á snorkstelpuna. Stúlkan heitir Hildur Kjartansdóttir. Hún sagði að í rauninni hefði hún ekkert með þetta að gera heldur stúlkan á neðri hæðinni, sem væri í mat. Auk þess væri þetta ekki þeim að kenna heldur Blurb (fyrirtækinu sem sendi mér pakkann) sem hefði ábyggilega ekki sent reikning. Stúlkan í matnum væri örugglega búin að reyna að hringja í mig útaf þessu. (Seinna í samtalinu kom í ljós að stúlkan hringir í viðskiptavini UPS á morgnana og fram yfir hádegi og nær yfirleitt bara að hringja í fólk fyrstu dagana sem pakkinn er fastur af því það er svo mikið að gera.)

Ég stakk upp á möguleikanum að senda viðskiptavinum tölvupóst í stað þess að reyna að ná í þá í heimasíma á miðjum vinnutíma á rúmhelgum dögum. Jú … Hildur kannaðist við tölvupóst en vissi ekki hvernig maður fyndi svoleiðis ef það stendur ekki á pakkanum. Ég fjarkenndi henni, algerlega ókeypis, á Google, í tölvupósti núna áðan. (Maður getur t.d. gefið upp leitarstrenginn Harpa Hreinsdóttir netfang)

Hildur hélt að kannski gæti stúlkan sem var í mat reynt að tala við Maríu þegar María kemur út í þessa byggingu (nr. 10) í fyrramálið ef ég sendi henni afrit af reikningnum sem ég fékk í tölvupósti frá fyrirtækinu sem sendir pakkann.

Ég var náttúrlega orðin fjúkandi reið og spurði hvort hún gæti ekki bara skokkað yfir, náð í Maríu, fylgt henni í pakkageymslu í byggingu 10, fundið helvítis pakkann og afgreitt og komið honum á Íslandspóst ásamt afsökunarbeiðni til mín fyrir helvítis sleifarlagið, strax í dag! (Reyndar notaði ég ekki þetta orðalag því mér var til efs að Hildur myndi skilja svo fornt orðtak.)

Á endanum framsendi ég frk. Hildi fælu af tölvupóstum, bæði varðandi þennan pakka og nákvæmlega eins pakka sem ég fékk sendan hratt og vel um Íslandspóst en eins og Hildur sagði: “Hann hefur kannski rétt sloppið - það er verið að herða þetta núna.”

Ég er rosalega fegin að þurfa ekki að kenna Hildi meira. Sömuleiðis er ég þakklát fyrir að vinna ekki með hemúlum en skilgreiningin á þeim er glettilega lík framkomu frk. Maríu og hvað kona sér fyrir sér í símtali við slíka:

*  “En hemul har hemskt stora fötter och ingen humor, förklarade jag [muminpappan]. Näsan är lite tillplattad och håret växer i obestämda tottar. En hemul gör ingenting därför att det är roligt, utan bara för att det borde göras, och berättar hela tiden för en vad man själv borde ha gjort och … (Muminpapappans Bravader [1950] 1961: 16)”

 

Einu kynnin sem ég hef áður haft af tollverði voru af öldruðum Lystigarðshemúl í Reykjavík. Það sem þó gleður mig í þessari uppákomu  er að  nú veit ég að fólk sem e.t.v. (ath. að hér slæ ég engu föstu) er haldið greindarörorku (lærði orðið í dag og fæ að nota það, courtesy of Freyja) á von um vinnu ef það vill búa suður með sjó! 

Það er ótrúlega lokkandi að panta Camenbert og mygluost frá USA með hraðpóst og biðja sérstaklega um að reikningnum sé stungið innan í pakkann og UPS sé kirfilega nefnt sem þjónustuaðili hraðsendinga utan á pakkanum ;)

Ummæli (14) | Óflokkað, Daglegt líf

5. september 2009

Strokleður svefnsins

eyðir vondum tilfinningum!  Ekkert nýtist þunglyndum eins vel og þykk sæng og góðir koddar!

Ég hef sofið meira og minna síðan í gærmorgun. Er eitthvað rugluð (spyr manninn aftur og aftur að hinu sama) en líður mikið betur og reikna með að sunnudagslúrar klári dæmið, sem og mín góðu lyf. Það er frústrerandi að vera á byrjunarreit með lyfin en gengur bara betur næst … skulum við vona. Kannski spilar inn í að ég hef minnkað inntöku nikótíns um 50% með þeirri ákvörðun að hætta að reykja inni. (Á þriðja degi höfðu heimilismenn ekkert tekið eftir þessu svo útireykingar eru mest hafðar við sjálfrar mín vegna.)

Sem sagt: Ég skreiðist hægt og rólega upp úr þessari dýfu og lendi vonandi sem seinast í annarri slíkri.

Ummæli (1) | Óflokkað, Geðheilsa

4. september 2009

Dagur í dimmu

(Ég sé mér hættir orðið til að stuðla bloggfærslutitlana … kannski er ég orðin nógu svartsýn til að verða nýrómantískt skáld?)

Í morgun vaknaði ég kl. 5.13. Það er í sjálfu sér ekki slæmt og hefur oft komið fyrir áður. Í morgun skalf ég hins vegar eins og hundur (af sundi dreginn) og lagaðist ekkert við þær góðu morguntöflur sem mér er gert að eta.

Um sjöleytið sat ég við tölvuna og reyndi að tala sjálfa mig til: “Geturðu ekki bara tekið eina extra töflu og mætt soldið sljó í skólann? Eða gáð hvort þú kemst ekki alla vega í föt og sjá svo til? Eða koma sér í föt og labba yfir götuna og kenna a.m.k. fyrri tímann?” (Þessari hugmynd var strax kastað því hafi maður tvíhóp er hryllingur þegar kennslan lendir á skjön og annar hópurinn er á undan / á eftir hinum.)  “Yrðirðu ekki ánægðari með sjálfa þig ef þú næðir að kenna þessa tvo tíma og svo máttu bara fara undir sæng og vera þar?” Og svo úrslitaráðið sem er eggjun: “Ertu virkilega það mikill aumingi að þú getir ekki kennt ef þú aðeins sígur niður í geðslagi???”

Því miður höfðu góðar ráðleggingar mínar ekkert að segja við sjálfa mig - og eggjuninni svaraði ég innan í mér: “Það er ekki til bóta að skamma mann ef manni líður virkilega illa!” (Ég tek skýrt fram að ég er ekki klofinn persónuleiki eða neitt þvíumlíkt þótt ég rísonneri við sjálfa mig stöku sinnum. Einu sinni setti ég það mál þannig upp: Hvaða ráð myndi ég gefa öðrum í sömu stöðu? og vandi mig svo á að gefa sjálfri mér þau sömu ráð.  Stundum virkar þetta trix prýðilega.)

Tilhugsunin um að labba yfir götuna í vinnuna var svipuð og það sem blasir við Lísu, á myndinni sem ég þjófstal af vefnum.

Niðurstaðan var sú að best væri fyrir mig að skríða uppí rúm og breiða sæng yfir höfuð og fara í kanínuleikinn (= ég lítil kanína í hlýrri og öruggri holu). Mér óx um of í augum að komast í föt og setja upp andlit og leika skörulegan og æðrulausan kennara í tvær kennslustundir; performans dagsins var Melkorka við lækinn í brekkunni á Höskuldsstöðum … 

Svo ég sendi nemendum tilkynningu og skrifstofu skólans og meldaði mig veik. Fór svo og tók aukapillu og fór að sofa. Síðan er ég búin að sofa nánast í allan dag.  Inn á milli hef ég verið svívirðilega góð við mig í sætindaáti og kruðeríisáti. Ofsvefn í dýfu virkar eins og strokleður og nær stundum að stroka út allar slæmu tilfinningarnar og skjálftann.

Spurningin er náttúrlega “Af hverju?” Af hverju hrundi ég allt í einu í dag, hafandi verið á mjög góðu róli frá skólabyrjun? Mér dettur í hug að eilítil minnkun á því lyfinu sem ákveðinn læknanemi taldi mig misnota mjög hafi kannski skekkt hið góða jafnvægi örlítið, sem hafi verið nóg til að kasta mér út í myrkur, þó ekki ystu. Eða að ég hafi kannski ofreynt mig í gær, við að reita arfa úr garðinum í einhverja klukkutíma? Svo virðist að yfirleitt megi ég ekki breyta útaf klausturlifnaðarháttum eða stundaskrá án þess að súpa af því seyðið eftir á.

Það er æskilegt að ná að minnka lyfið a tarna af því það getur valdið minnistruflunum. Og af minnistruflunum hef ég fengið nóg. Aftur á móti nota ég ekki það mikið af lyfinu núna að það sé ekki í himnalagi per se. (Og læknaneminn eflaust enn útí hafsauga.)

Það er líka æskilegt að ég hreyfi mig á hverjum degi en óæskilegt að gera um of af því.

Þetta eilífa “passa sig vel”-dæmi getur gert konu brjálaða!

Markmið helgarinnar er að læra að vaka fram undir miðnætti og reyna að sofa lengur á morgnana. Sem og byrja lyfjatröppun aftur frá byrjunarreit.

Ég reikna svo með að þeir sem ekki hafa reynt svipað á eigin skinni skilji lítið í þessari færslu.

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf

1. september 2009

Labbað með Leó

Ég er svo stálheppin að mér tókst að svindla mér inn í áfanga sem kollegi minn kennir og heitir “Skrifað í skrefum” (eða öfugt).

Í dag var fyrsti vettvangstúrinn, frá FVA út í Innstavogsnes. Á leiðinni sagði kennarinn, Leó Jóhannesson, okkur frá fyrri tíð og fyrri búendum, allt aftur til landnáms. Mér þótti þetta mjög gaman því ég er soldið höll undir þjóðlegan fróðleik. En ekki hvað síst var þetta meinhollt fyrir mig og má ætla að minn góði læknir yrði ánægður með mig í dag, hafandi hreyft mig í meir en tvo tíma! 

Þessari færslu fylgja nokkrar myndir; sé smellt á litlu myndirnar koma stærri útgáfur í ljós. Sú sem hér er til vinstri sýnir allan hópinn mínus mig. Til hægri sést kennarinn, Leó, við listaverkið Elínarsæti, sem stendur við hið meinta Elínarsæti (þaðan sem Elín hafði þráðlaus samskipti við systur sína, Straumfjarðar-Höllu … en þær tvær voru einnegin systur Sæmundar fróða og væntanlega fjölkunnugar eins og hann).

Til að lífga upp á labbitúrinn fórum við fjögur (litla myndin sýnir göngufélaga mína) í mikla svaðilför yfir Garðaflóann en af því göngufélagarnir eiga að vinna verkefni úr ferðinni fer ég ekkert að segja frá afrekum okkar í smáatriðum; læt þess einungis getið að við vorum miklar hetjur að komast til byggða! Og nú vitum við af hverju þjóðleiðin lá með ströndinni en ekki yfir Garðaflóann ;) Eini göngugarpurinn sem datt endilangur milli þúfna, í mýri, á leiðinni var ég - félagar mínir voru mun fótvissari. Spennan í þessari ferð var einkum fólgin í því að reyna að finna brú eða velta því fyrir sér hvort væri kannski engin brú …

Ummæli (0) | Óflokkað, Skólamál, Daglegt líf