Færslur októbermánaðar 2009

30. október 2009

Home again …

Ég er komin í helgarleyfi heima hjá mér. Það gengur vonandi að óskum.  Allt í fínu sem komið er og ég hlakka til að fá almennilegan mat (Atli gefur systur sinni lítið eftir í eldhús-meistara-töktum).  Svo náði ég að knúsa Vífilinn minn milli Morfísæfinga og vinnu.

Vikan hefur verið mér afskaplega erfið. Að miklu leyti er það sjálfri mér að kenna; ég hef þurft að horfast í augu við ýmislegt sem er mér ekki að skapi, breyta kannski svolítið áherslum í lífi og starfi og láta af stjórn. Þetta veittist mér erfitt og ég var bæði með beibí-blús skap og missti mig í jarðálfa-takta.

Nú, undir vikulokin, lítur allt mun betur út. Skapið er að vísu eins og ég liggi á fæðingardeild en það má díla við það. Ég hef beðist afsökunar á því sem ég gerði á hlut annarra og á nú bara eftir að fyrirgefa sjálfri mér (sem er einmitt oft erfiðara). Það góða fólk í geðbatteríinu hefur vísað mér á nýja vegu og nýja möguleika og ég ætla að reyna eins og ég get að fara að hollráðum þess.

Ég fer aftur inn á deild 32 A á sunnudagseftirmiddaginn einhvern tíma, reikna ég með. Einhvern tíma í næstu viku verður ljóst hvort ný lyf og ný nálgun að helvítis þunglyndinu skili árangri. Útskriftin mín ræðst náttúrlega dálítið af því … ekki mikið gagn í að senda mig til vinnu ólæsa, óskrifandi og eiginlega doldið mikið grænmeti. (Ég held ég sé með AHCD, öðru nafni “hálfan SKALA”.  Þetta er enn óuppgötvaður geðsjúkdómur …) 

Nemendur mínir eru væntanlega í góðum höndum og ef einhverjir þeirra lesa bloggið mitt þá upplýsi ég hér með að ég er ekki enn hæf til að fara yfir ritgerðirnar ykkar ;)   Svo tók ég þá ákvörðun að vera ekki fésbókarvinur nemenda (það gætu orðið alls konar hagsmunaárekstrar út af því) svo ég neyðist til að ignórera og sparka út yndislegum úllígum (sorrí strákar!).

This.is svæðið mitt er allt í hakki svo allar myndir og myndasöfn eru óaðgengileg í augnablikinu. Þessu get ég ekki kippt í liðinn fyrr en ég er komin á rétt ról. Vefsíðurnar mínar ættu að virka, þökk sé mínum góða kerfisstjóra og eldra afriti. Aftur á móti þarf nauðsynlega að kemba vefina mína og uppfæra og það er svo sem ekkert áhlaupsverk.

Úr eldhúsinu leggur dýrlega gríska matarangan … svo ég hætti núna.

Ummæli (2) | Óflokkað, Geðheilsa

29. október 2009

Geðillska dauðans

Ég er í einhverjum tilfinningarússíbana og er stundum svo geðvond að ég gæti barið mann (mundi þá náttúrlega velja einhvern mjög lítinn og ekki með vöðva ;)

Staffið er afar þolinmótt og erfir ekki við mann alls konar tiktúrur og vitleysu, sem betur fer. 

Fer í helgarleyfi seinni partinn á morgun og vona að ég káli ekki fjölskyldunni ;)   Annars gæti þetta verið batamerki því ég er þá ekki eins gaddfreðin og áður.

Hafið það gott!

Ummæli (3) | Óflokkað, Geðheilsa

28. október 2009

Mestlítið að frétta af 32A

Ég tala og tala um hvernig mér líður o.s.fr., þegar ég veit hvernig mér líður … svo ég er eiginlega ekki í stuði til að skrifa neitt fyrir ykkur fólkið þarna úti.  Í gær leið mér betur í fyrsta sinn síðan ég kom inn. Verður spennandi að sjá hvort þetta er bati eða óskhyggja og lyfleysuáhrif.

Vona að allir mínir dyggu lesendur hafi það gott :)   Ég er ekki enn vel heimsóknarhæf, þreytist alveg nóg á því að leika hinn fullkomna sjúkling. Mér gengur illa að taka ofan grímurnar.

Ummæli (3) | Óflokkað, Geðheilsa

27. október 2009

Niðurtúrinn stöðvast ekki

Mér líður verr með hverjum deginum. Lyfjatilraun virðist ekki skila árangri en er sosum ekki fullreynd. Eiginlega er ég ekki í standi til að taka við heimsóknum nema allra nánustu ættingja.

Í svona ástandi hefur maður fátt að segja.

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf

26. október 2009

Tíðindalaust af vígstöðvunum

Hin ágæta geðdeild 32A býr svo vel að hafa internettengda tölvu!  Svo ég ákvað að gera aðeins vart við mig.

Hér er gott að vera, mikið skjól frá áreiti umhverfissins og maður þarf ekki eins mikið að vera að þykjast, t.d. vera grímubúin sem kennari og ganga fyrir “feik itt till jú meik itt”! Ekki svo að skilja að hér gangi fólk almennt grenjandi um ganga en mér finnst gott að vera innanum fólk sem er ekki jafn hroðalega frískt og mínir samverkamenn; kennarar og nemendur.

Mínum góða lækni hefur dottið í hug heldur óhefðbundið ráð og að sjálfsögðu hoppaði ég á það; hefði samþykkt allt nema sjósund!  Það er sosum ekkert komið í ljós hvað út úr þessu kemur, eftir nokkra daga, en vonandi skila þessar óhefðbundnu lyfjatilraunir árangri, svo ég komist aftur í vinnuna áður en önninni lýkur.

Ég er annars heppilega dofin, set stundum um grímu hressileikans en finnst svona almennt og yfirleitt ekki neitt … Hef ekki einu sinni áhyggjur af því að íslensk tunga leggist af í FVA og allir verði farnir að tala dönsku þegar ég kem aftur!

 Bið að heilsa öllum!

Ummæli (2) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf

20. október 2009

Blogghlé vegna spítalavistar bloggynju

Á morgun leggst ég inn á geðdeild.  Vonandi tekst læknismenntaða liðinu að púsla mér saman aftur á sem skemmstum tíma.

Því er ólíklegt að bloggað verði hér í bráð. Vona að dyggir lesendur geti leitað á önnur mið á meðan.

Ummæli (7) | Óflokkað, Geðheilsa

18. október 2009

Allt í fokki! Og tillögur um Skólavörðuna.

1. Mér er hugsanlega eitthvað að batna en sá bati er lúshægur og nánast ósýnilegur. Í þessu svokallaða annarfríi tókst mér að fara í bíó til borgar óttans, tókst í þriðju atrennu, en komin aftur heim rúmlega sex um eftirmiddaginn var ég örmagna og hékk meir af vilja en mætti uppi til 8.30 og fór þá að sofa. Vildi gjarna liggja áfram í rúminu. Vildi helst alltaf liggja í rúminu um ókomna tíð!

2. Vefurinn minn er að fokkast algerlega upp útaf einhverjum vírus. Ég horfi á tæplega 15 ára vinnu étast í sundur fyrir augunum á mér. (Minnir mig á flugvélabókina Stefáns Kings þar sem litlir vondir hnoðrar átu heiminn og umhverfið og skildu eftir ekkertið.) Sé ekki betur en það verði mega-mál að kúpla þessu í lag, ef það er þá hægt … Blessunarlega er ég svo stónd (koldofin) af þunglyndinu að ég syndi í gegnum vandamálið eins og gullfiskur.

3. Ritgerðir nemenda eru svo lélegar að mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds!  Til hvers í andskotanum var ég að eyða þessum tíma í að kenna þeim að skrifa ritgerð þegar þau fara flest ekkert eftir því heldur eru föst í sissý endursögn grunnskólans eða jafnvel sínum gömlu grunnskólaverkefnum! Það verður ýl og víl í lok vikunnar ef mér tekst að komast í gegnum bunkann fyrir þann tíma. (Ég er með athyglisbrest andskotans, sem fylgir venjulega slæmu þunglyndiskasti!  Þess vegna vinnast öll verk hægt. En kosturinn er sá að ritgerðirnar fara ekki eins mikið í taugarnar á mér og frískri.)

4. Ætlaði að blogga um Skólavörðuna en er of veik til þess. Legg þó til að í næsta tölublaði verði skrefið stigið til fulls og efnisflokkar verði:

  • Hvernig á að sauma margnota bleiju?;
  • Hvaða snuð eru hættuleg og hver eru í lagi? - Viðtal við Herdísi Storgaard;
  • Kenningar atferlissinna um hvernig best verði vanið af koppi versus póstmódernískar kenningar um sama efni;
  • Ævi og ástir ritstjórans með sérstakri áherslu á barneignir;
  • Hvernig ætti að undirbúa sig sem best fyrir fæðingu með markmiðssetningu í anda Bruners?;
  • Hvort er dýrara, í ársreikningi KÍ, fúavörn eða útgáfa Skólavörðunnar?

Ég gæti meira að segja tekið að mér að skrifa sumar þessara greina sjálf! En auðvitað er kennaraskólamenntað fólk hæfara, um það skal ég ekki deila.

Muna svo að leggja til fljótlega að við kennararnir höldum Skólavörðubrennu á lóðinni og bjóðum kollegum okkar úr framhaldsskólum í nágrenninu (Borgarnesi og Mosó) að vera með! Mætti bjóða Aðalheiði FF-stýru í léttar veitingar og huggulega brennu (vonandi mengar rándýr glanspappír ekki mikið meðan hann brennur …). Kannski færi betur á að hafa brennuna utan við einhvern af vel fúavörðum bústöðum stéttarfélagsins? Ude på landet?

Muna að leggja til að fulltrúar okkar á næsta stéttarfélagsfundi beri upp þá tillögu að útgáfu Skólavörðunnar verði hætt, nema sem leikskólablaðs, og félagsgjöldin okkar verði bara brennd beint í seðlum strax í stað þess að fara fyrst í gegnum prentsmiðju og ruslafötur víða um land.

5. Til að nefna eitt jákvætt: Helv. ritgerðirnar eru þó skárri lesning en helv. Skólavarðan!  Þannig séð er ég heppin …

Guð gefi að ég komist í vinnuna á morgun …

Ummæli (4) | Óflokkað, Geðheilsa, Skólamál

13. október 2009

Að standa í lappirnar

Mér tókst að draga mig yfir götuna og í vinnuna í morgun. Komst að því að Æðruleysisbænin endist þrisvar á þeirri leið og upp stigana að kennarastofu.

Ég skil ekki enn hvernig ég fór að því að kenna 2 kennslustundir en það hafðist. Sleppti kennarastofunni í frímínútum og finnst ég skynsöm svona eftir á. Nemendur voru yndislegir að venju. Þótt ég vandaði mig eins og ég gat ruglaðist ég svolítið; sagði t.d. “áskilið var að þegar Ósvífur og Guðrún kæmu í sömu sæng mundi hún ráða yfir fé þeirra öllu” og var það einungis vakandi geðfrískum nemendum að þakka að ekki varð til öfug-Ödipusarsaga úr þessum kafla Laxdælu!  Ég bað þau að vakta mismæli (mín) og láta mig vita ef ég væri farin að rugla eitthvað. Þau urðu öll mjög áreiðanleg á svipinn og pössuðu sinn kennara út tímann …

Svo heim beint í bælið - hef náð svona 1 klst. nokkurn veginn í lagi en nú er rúmið farið að toga í mig á ný og heimili mitt almennt að verða kalt og klakafullt eins og umhverfi þunglyndra er gjarnan.

Morgundagurinn er erfiðari en viskum vona að allt gangi vel.

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa

12. október 2009

Það bjargast ekki neitt

það ferst, það ferst!  Þetta er uppáhaldsharmljóð eins kollega míns. Í augnablikinu er ég meira upptekin af lokahendingunum: “Það andlit sem þú berð, er gagnsæ gríma / og bak við hana sér í auðn og tóm.”

Ég SKAL komast í vinnuna á morgun og vona að gríman sem ég set upp verði ekki of gagnsæ fyrir elskulega nemendur mína.

Mér líður ömurlega ömurlega og sé enga bót í náinni framtíð … ef einhver byði mér raflost  á þessari stundu mundi ég sennilega segja já (sem er þó út í hött miðað við fórnirnar sem sú læknisaðgerð hefur fyrir mig).

Ummæli (3) | Óflokkað, Geðheilsa

10. október 2009

Helvítis F* F*

Ég er búin að liggja í rúminu síðan á fimmtudag. Hver tilraun  til að yfirgefa rúmið skilar allt að því grátkasti, a.m.k. myndarlegu skjálftakasti. Sem betur fer hefur mér tekist að sofa allt upp í 15 tíma á sólarhring. Lukkulega reyki ég ennþá og neyðist þar með til að skríða öðru hvoru framúr og fara út á tröppur að reykja.

Áðan tók ég mér tak og reyndi að hjálpa manninum við þrif. Það gekk en ég get svarið að það er skrítið að þurrka af og hafa á tilfinningunni að það sé alls ekki höndin á mér sem ég sé heldur einhver hönd sem er þarna með tuskuna (kannski úr Adams fjölskyldunni?)  Eða misreikna fjarlægðir hér innan húss svo ég er alltaf að reka mig í.  Þessi fíling, firringin, er eiginlega það versta við þunglyndi; Að finnast maður ekki vera raunverulega í raunverulegu umhverfi heldur að umhverfið sé á einhvern hátt framandi, jafnvel leiktjöld. Að sjálfsögðu veit ég að þetta er ekki rétt, ég er ekki asni. Á hinn bóginn er þetta afar truflandi tilfinning. Minnir mig á drykkjubyrjun meðan ég drakk áfengi; þegar ótrúlegustu subbukrár tóku á sig rósrauðan bjarma við aukna inntöku áfengis (nægir að minna á Óðal og Gaukinn og Stúdentakjallarann) og manni fannst þetta allt í einu orðnir voðalega huggulegir og kósí staðir sem þeir voru náttúrlega alls ekki!

Ástandið er slæmt. Vonandi tekst mér að púsla mér saman á morgun og í vinnu á mánudag. Ég sé enga lausn í sjónmáli, labbitúr mundi leggja mig í rúmið næstu vikuna svo hreyfing er algerlega út úr myndinni, læknirinn minn elskulegi mundi stinga upp á Seroqueli en mér líkar það lyf illa og hef ekki höndlað lækningamátt þess heldur lifi við brjálæðslegar martraðir þegar ég tek það. Ég hef engan áhuga á að prófa ný lyf, tel flest lyf nokkurn veginn fullprófuð í mínu tilviki. Best að halda sig á þessum sem ég nota að staðaldri og tuldra æðruleysisbænina …

Mikið djöfull vildi ég óska að ég væri með svínaflensuna í staðinn; hún er engang pest og annað hvort batnar manni eða ekki og fólk gúterar rúmlegu í svoleiðis pestum! Því miður er ég ekki með svínaflensu heldur þunglyndiskast sem er verra en í meðallagi. Vonandi stendur það ekki mikið lengur.

Það léttir mér ekki lund að í dag skuli vera alþjóða geðheilbrigðidagurinn eða eitthvað svoleiðis …

Ummæli (1) | Óflokkað, Geðheilsa