Færslur frá 7. október 2009

7. október 2009

Svona líður mér

Frumburðurinn sendi þessa mynd í pósti og á hún að sýna hvurnig ESB mun staðla brosin í framtíðinni. (Ég hef ekki grænan grun um hver á höfundarétt á myndinni og vona að ég sé ekki mjög að ritstela með að birta hana á blogginu mínu.)

Þessi mynd hitti í mark að því leytinu að ég geng með svona ímynduð broshengi þessa dagana til að dylja hversu hryllilega pirruð og geðvond ég er! Það eina sem mér finnst sæmilega skemmtilegt er að kenna, þ.e. njóta samvista við mína góðu nemendur og reyna að troða einhverju gáfulegu inn í þá. Mér finnast frímínúturnar líka svo sem í lagi en ég sakna Ludmilu óendanlega mikið; hún hafði alltaf svo hressandi sjónarhorn á skólastarf, námsmat og annað sem tilheyrir okkar djobbi svo maður sá spaugilegu hliðarnar svo framarlega sem þær fundust. Fyrir svo utan það er hún með skemmtilegra fólki og sorglega tómur vinnubásinn við hliðina á mér af því Ludmila er í leyfi þessa önnina og eflaust komin hálfa leið til Síberíu …

Allt annað sem “viðkemur skólastarfi” á mínum vinnustað fer óendanlega mikið í taugarnar á mér og þótt ég reyni eins og ég get að leiða það hjá mér þá er ég því miður ekki heyrnarlaus múmía, eins og æskilegt væri stundum.

Öll umræða sem “viðkemur skólastarfi” á mínu heimili pirrar mig upp úr skónum og er af sem áður var þegar sumt fólk talaði af léttúð um kennslu-og uppeldisfræði og leyfði sér jafnvel að netta kaldhæðni í umfjöllun um slík “fræði”. Svona er allt fallvalt í þessum heimi! Hér heima kæmi sér einnig vel að vera heyrnarlaus múmía.

Ég sé ekki að ég geti annað gert en að föndra svona græju til að ná upp evrópsku grunnskólabrosi dag hvurn, auk þess sem ég er að spá í að láta skoða oggolítið í mér blóðið (sem átti nú víst að gerast í ágúst en ég hef verið að fresta … mér leiðast læknisheimsóknir einnig!) Kannski má kenna skjaldkirtilskvikindinu um geðillskuna? 

Fyrsta skref í að nálgast brosið var að láta klippa mig eins og Audrey Hepurn, sleppa litun og taka statusinn á hversu gráhærð ég er sennilega orðin (um það hef ég ekki hugmynd því ég læt alltaf lita hárið um leið og það er klippt). Svo ætla ég að hugsa um nýjan lit, hvað með fjólublátt?

Líklega mun ég taka kennarafund á morgun sem gullvæga æfingu í æðruleysi eða sem refsingu Guðs fyrir að hafa skrópað í Æðruleysismessuna á sunnudagskvöldið …

Bíó með manninum? Það verður náttúrlega að bíða því allt annað raðast framar í forgangi …

Ein geðvond!

Ummæli (3) | Óflokkað, Geðheilsa, Skólamál, Daglegt líf