Færslur frá 10. október 2009

10. október 2009

Helvítis F* F*

Ég er búin að liggja í rúminu síðan á fimmtudag. Hver tilraun  til að yfirgefa rúmið skilar allt að því grátkasti, a.m.k. myndarlegu skjálftakasti. Sem betur fer hefur mér tekist að sofa allt upp í 15 tíma á sólarhring. Lukkulega reyki ég ennþá og neyðist þar með til að skríða öðru hvoru framúr og fara út á tröppur að reykja.

Áðan tók ég mér tak og reyndi að hjálpa manninum við þrif. Það gekk en ég get svarið að það er skrítið að þurrka af og hafa á tilfinningunni að það sé alls ekki höndin á mér sem ég sé heldur einhver hönd sem er þarna með tuskuna (kannski úr Adams fjölskyldunni?)  Eða misreikna fjarlægðir hér innan húss svo ég er alltaf að reka mig í.  Þessi fíling, firringin, er eiginlega það versta við þunglyndi; Að finnast maður ekki vera raunverulega í raunverulegu umhverfi heldur að umhverfið sé á einhvern hátt framandi, jafnvel leiktjöld. Að sjálfsögðu veit ég að þetta er ekki rétt, ég er ekki asni. Á hinn bóginn er þetta afar truflandi tilfinning. Minnir mig á drykkjubyrjun meðan ég drakk áfengi; þegar ótrúlegustu subbukrár tóku á sig rósrauðan bjarma við aukna inntöku áfengis (nægir að minna á Óðal og Gaukinn og Stúdentakjallarann) og manni fannst þetta allt í einu orðnir voðalega huggulegir og kósí staðir sem þeir voru náttúrlega alls ekki!

Ástandið er slæmt. Vonandi tekst mér að púsla mér saman á morgun og í vinnu á mánudag. Ég sé enga lausn í sjónmáli, labbitúr mundi leggja mig í rúmið næstu vikuna svo hreyfing er algerlega út úr myndinni, læknirinn minn elskulegi mundi stinga upp á Seroqueli en mér líkar það lyf illa og hef ekki höndlað lækningamátt þess heldur lifi við brjálæðslegar martraðir þegar ég tek það. Ég hef engan áhuga á að prófa ný lyf, tel flest lyf nokkurn veginn fullprófuð í mínu tilviki. Best að halda sig á þessum sem ég nota að staðaldri og tuldra æðruleysisbænina …

Mikið djöfull vildi ég óska að ég væri með svínaflensuna í staðinn; hún er engang pest og annað hvort batnar manni eða ekki og fólk gúterar rúmlegu í svoleiðis pestum! Því miður er ég ekki með svínaflensu heldur þunglyndiskast sem er verra en í meðallagi. Vonandi stendur það ekki mikið lengur.

Það léttir mér ekki lund að í dag skuli vera alþjóða geðheilbrigðidagurinn eða eitthvað svoleiðis …

Ummæli (1) | Óflokkað, Geðheilsa