Færslur frá 13. október 2009

13. október 2009

Að standa í lappirnar

Mér tókst að draga mig yfir götuna og í vinnuna í morgun. Komst að því að Æðruleysisbænin endist þrisvar á þeirri leið og upp stigana að kennarastofu.

Ég skil ekki enn hvernig ég fór að því að kenna 2 kennslustundir en það hafðist. Sleppti kennarastofunni í frímínútum og finnst ég skynsöm svona eftir á. Nemendur voru yndislegir að venju. Þótt ég vandaði mig eins og ég gat ruglaðist ég svolítið; sagði t.d. “áskilið var að þegar Ósvífur og Guðrún kæmu í sömu sæng mundi hún ráða yfir fé þeirra öllu” og var það einungis vakandi geðfrískum nemendum að þakka að ekki varð til öfug-Ödipusarsaga úr þessum kafla Laxdælu!  Ég bað þau að vakta mismæli (mín) og láta mig vita ef ég væri farin að rugla eitthvað. Þau urðu öll mjög áreiðanleg á svipinn og pössuðu sinn kennara út tímann …

Svo heim beint í bælið - hef náð svona 1 klst. nokkurn veginn í lagi en nú er rúmið farið að toga í mig á ný og heimili mitt almennt að verða kalt og klakafullt eins og umhverfi þunglyndra er gjarnan.

Morgundagurinn er erfiðari en viskum vona að allt gangi vel.

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa