Færslur frá 26. október 2009

26. október 2009

Tíðindalaust af vígstöðvunum

Hin ágæta geðdeild 32A býr svo vel að hafa internettengda tölvu!  Svo ég ákvað að gera aðeins vart við mig.

Hér er gott að vera, mikið skjól frá áreiti umhverfissins og maður þarf ekki eins mikið að vera að þykjast, t.d. vera grímubúin sem kennari og ganga fyrir “feik itt till jú meik itt”! Ekki svo að skilja að hér gangi fólk almennt grenjandi um ganga en mér finnst gott að vera innanum fólk sem er ekki jafn hroðalega frískt og mínir samverkamenn; kennarar og nemendur.

Mínum góða lækni hefur dottið í hug heldur óhefðbundið ráð og að sjálfsögðu hoppaði ég á það; hefði samþykkt allt nema sjósund!  Það er sosum ekkert komið í ljós hvað út úr þessu kemur, eftir nokkra daga, en vonandi skila þessar óhefðbundnu lyfjatilraunir árangri, svo ég komist aftur í vinnuna áður en önninni lýkur.

Ég er annars heppilega dofin, set stundum um grímu hressileikans en finnst svona almennt og yfirleitt ekki neitt … Hef ekki einu sinni áhyggjur af því að íslensk tunga leggist af í FVA og allir verði farnir að tala dönsku þegar ég kem aftur!

 Bið að heilsa öllum!

Ummæli (2) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf