Færslur frá 2. desember 2009

2. desember 2009

Hugleiðing um sokk, kött og hamingjuna

Í fyrradag uppgötvaði ég að ég kann ekki að prjóna hæl á sokk. Í gær prentaði ég út alls konar imbaleiðbeiningar um sokkaprjón, af netinu. Spurning hvort ég nenni að rekja upp og reyni að fara eftir þeim leiðbeiningum undir fréttum RÚV í kvöld? Ég er búin að steinsofa í 3 klukkutíma svo það er alveg möguleiki á að ég skilji ritað mál og jafnvel leiðbeiningar. Á hinn bóginn vantar mig ekki beinlínis sokk …

Við maðurinn brugðum okkur til þurrabúðarinnar-handan-Flóans í dag. Ég hitti minn góða lækni og hitti svo góða stéttarfélagsforkólfa sem höfðu fundið út næs niðurstöður um veikindaréttinn minn.  Púff!  Í alvöru hafði ég nefnilega sotlar áhyggjur af því að verða að sjá fyrir mér næstu árin með lopapeysuprjóni (sem er ömurlegt fyrir manneskju sem ekki höndlar vel uppskriftir en er fín í eigin uppfinningum með prjóna og garn, svo ég hrósi sjálfri mér oggolítið). Svo var enn eitt erindi en það tengist jólagjöfum svo yfir því skal þagað.  Aftur á móti var eins gott að við sluppum snemma af stað heim, veðravítið Kjalarnes var með verra móti og er víst orðið nánast kolófært núna.

Á leiðinni til þurrabúðarinnar heyrði ég að bókin Enn meiri hamingja (eða einhver svoleiðis titill) hefði selst upp á fyrsta útgáfudegi (eða eitthvað). Ég hafði hlustað á Ásdísi Ólsen lýsa þessari bók á sunnudaginn og fræðum bakvið hana og Karl Ágúst þýðandi skaut inn einni og einni jákvæðri athugasemd (svona er að vakna kl. 6 á sunnudagsmorgni og prjóna við útvarpsniðinn …). Auðvitað óska ég þeim hjónum alls hins besta og vona að seljist sem flest eintök. En ég vil bara taka það skýrt fram við alla sem gefa mér jólagjafir að ég vil ekki sjá þessa bók (þótt ég sé oft pínu ekki-hamingjusöm)!  Handbækur í hamingju eru ekki alveg að gera sig í mínum huga, ekki frekar en verkleg sporavinna eða ofurást á meðvirknifræðum (þetta þrennt tengist síðan alveg ótrúlega mikið). Í prjónabókinni sem ég hef að láni eru meira að segja 7 prjónaspor (hamingjuspor með prjónaívafi) og svo lagt mikið upp úr árvekni og hugleiðslu við “ljúfan klið prjónanna” (ég lýg þessu ekki, ljósritaði meira að segja hluta af hugleiðslu- og öndunarprjónaæfingunum handa sálfræðingnum á deildinni góðu á Lans og fékk lagt í pósthólfið hans í dag).

Nei, ég hef ákveðið að prófa enn nýja leið í batafræðum (e.t.v. ekki að fullu uppfundna ennþá) sem er að leyfa að mér sé gefinn köttur í jólagjöf. Reyndar fæ ég kisuna fyrir jól og finn fyrir tilhlökkun; Tilfinningu sem ég var næstum búin að gleyma hvernig er! Ýmsar umræður hafa verið um nafn á dýrinu (nafngiftir Kattholtsfólks voru ekki fýsilegar) en þótt ég hafi verið komin á þá skoðun að nefna dýrið Freyju, einungis með kattagyðjuna í huga (!), eða Elísu því Elísa er soldið bröndótt nafn finnst mér … þá breyttist það allt í morgun því hinn jarðbundna heimspeking heimilisins dreymdi í nótt að köttur vitjaði nafns!  (Þetta gerðist í hvorugt skiptið með strákana okkar … enda maðurinn óhugnalega óberdreyminn og man oftast enga drauma. Stundum hefur mér dottið í hug að hann dreymi ekki - heldur sé í svefninum að “sanna” eitthvað, t.d. að tvær línur séu samsíða eða álíka “QED” sannanir. Tuldrið úr honum upp úr svefni bendir til þess.)  Nema nú er ljóst hvað kisan heitir. Henni er það að vísu ekki ljóst sjálfri enda önnum kafin í ormahreinsun, ófrjósemisaðgerð, sprautu gegn kattafári og guð-má-vita hvaða hremmingum öðrum. Auðvitað er nafnið leyndarmál þar til ég hef hvíslað því í eyra nafnberans!

Ég verð víst að nýta þennan geðhressa tíma minn núna til fleiri verka en málæðis á bloggi - þarf að ganga frá prófi og fara yfir próf og vinna svoleiðis hundleiðinleg verk sem vissulega eru best unnin milli 7 og 9 á morgnana.  En 3 klukkutímar af fastasvefni hafa greinilega skilað hellings bata! Ofursvefn er vanmetinn í þessum geðveikigeira, finnst mér.

Ummæli (12) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf