Færslur desembermánaðar 2009

8. desember 2009

Fyrirboði á ísskáp

Ekki er nóg með að Jósefína fari ferlega vel við nýjar innréttingar og eldri hillur heldur tók ég eftir kattarseglinum á ísskápnum í gær: Örugglega postulínsmynd af Jósefínu!  Fyrir mörgum / nokkrum árum (man þetta ekki svo gjörla) vorum við ég o.fl. í samstarfi við duglegar kennslukonur í Napólí, sem kenndu verðandi glæpaunglingum í slömm-hverfi þar í borg og unnu kraftaverk á hverjum degi!  Þær Luisa og Catarina voru líka alltaf að sinna sinni samstarfskonu með litlum gjöfum, m.a. um jól.  Þannig eignaðist ég t.d. viskastykki með uppskrift af þeim fræga drykk Limoncella, sem ég get því miður ekki drukkið en manninum þótti góður (þær gáfu líka litla flösku). Í önnur skipti fékk ég ísskápsskraut; Miðjarðarhafsbláan krossfisk og bröndóttan kött og eitthvert annað sjávarstykki sem brotnaði. (Þessi samvinna leiddi líka til þess að ég hef tvisvar dvalið í þeirri skítugu borg Napólí, horft áhyggjufull á Vesúvíus gnæfa þar yfir, og tvisvar komið til undurfögru eyjarinnar Caprí!)

Nema hvað: Þær stöllur voru óskeikular í vali á minjagripum sem tengdust Napólí, nema þegar þær gáfu köttinn. Ég man ekki sérstaklega eftir köttum í Napólíborg - aftur á móti man ég eftir “íslenskum hænum” að sporta sig í litlu porti eða bakgarði og dópistum að búa um sig í pappakössum fyrir utan hótelið í miðbænum og sprauta sig fyrir nóttina.

Kötturinn hefði verið frábær minjagripur frá Grikklandi, aftur á móti. En þaðan fékk ég enga minjagripi þrátt fyrir að hafa sótt námskeið í Nafplion, sem mun þýða Napólí og vann sér til frægðar að vera höfuðborg Grikklands í einn dag. Í ferðum okkar mannsins til grískra eyja höfum við heillast af litlu fíngerðu kisunum sem gera út á túrista á matsölustað. Jósefína mín er einmitt svona smábeinótt læða með augu í stærri kantinum og mundi gera það gott á grískum matsölusta, næði hún þokkalega mjóróma “mjá-i” (en enn tjáir kötturinn sig líkt og klón af Marge Simpson og Louis Armstrong!  Vonandi að þetta hormónarugl í henni lagist fljótlega.)

Af ofansögðu má ljóst vera að í áraraðir hafa það verið mín örlög að eignast Jósefínu! Ég hefði gefið henni grískt nafn (hafandi átt þær Helenu og Penelópu fyrir næstum tveimur áratugum) ef hún hefði ekki verið svo snjöll að vitja nafns hjá ólíklegasta draumþega, s.s. heimspekingi heimilisins!

Jósefína er búin að venja mig á að gefa sér mjólk þegar ísskápurinn er opnaður. Frá fyrsta degi hef ég tilkynnt ströng að kötturinn fái bara þurrfóður og vatn og vítamín til að minnka hárlosið. Jósefína var ekki búin að dvelja fimm mínútur á sínu nýja heimili þegar maðurinn dró fram steinbítsroð með fisktutlum og gaf henni - maðurinn fékk þarna tímabundinn forgang á vinsældarlista læðunnar. Til  mótvægis dróst ég út í búð, keypti kattanammi (sem kötturinn lítur ekki við) og vestfirskan bitafisk. Ég er núna vinsælust! ;)

Jósefína er líka búin að venja mig á að klóra sér og klappa, á mjúku teppi inni í stofu. Við stundum stöðvaflangs og aðrar lystisemdir í sófanum á kvöldin.

Bloggynja unir annars við prjónadútl en verður yfirleitt að rekja upp það sem er prjónað að kvöldi því þá fokkast meira að segja prjónainstinktið upp! Ég læt mig ekki dreyma um að lesa bækur því athyglisbresturinn er alger. Nóg að lesa mogga mannsins og gleyma honum strax aftur. Við prófuðum Ritalín til að slá á athyglisbrestinn sem fylgir þunglyndiskasti af verra tæinu, meðan ég lá inni á geðdeild, en það hafði engin áhrif, nema kannski að gera mig grátgjarnari?  Ég fann heldur engin fíknaráhrif af Ritalíninu og snögghætti á því á einum degi án fráhvarfa. Samt reikna ég með að hjúkkur læri í skólanum að Ritalín skuli ekki gefið fyrrum fíklum / ölkum …

Sem sagt: Get ekki lesið, man ekki neitt, ruglast í töluðum orðum og (það versta!) ruglast í hannyrðum. Svo líður mér hryllilega illa þegar líður á daginn - eiginlega óútskýranlega illa. Tek daginn í bútum. Og fögur fyrirheit í gær, um að klæða sig og fara á fætur og niðrí hannyrðabúð urðu að engu; skjálfandi á Joe Boxer tældi ég manninn til að fara í búðina fyrir mig, með skýr fyrirmæli í farteskinu.

Ég þarf þá ekkert að fatta upp á neinu nýju í dag, hef bara sama markmið, þ.e. klæða sig og fara út í búðina sem er svona 50 m í burtu frá heimili mínu.

Svo hugsa ég hlýlega til minna góðu fyrrum nemenda sem eiga að þreyta ÍSL 103 prófið í núna á eftir, án mín …

Ummæli (9) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf

7. desember 2009

Jósefína II

Til hliðar sést agnarsmá mynd af kisunni Jósefínu, en bloggynja er einmitt pappírslegur eigandi hennar. Smella má á myndina til að sjá stærri mynd af fyrirsætunni, einnig fara á http://this.is/atli/album/2009_12_05_jolahladbord_a_Hotel_Borg/myndir.html ef dyggir lesendur vilja skoða synina og tengdadótturina líka. Bloggynja var engan veginn ferðafær eða sósíal-fær og passaði húsið og köttinn á meðan.

Auðvitað er þetta enginn venjulegur köttur! Hvaða köttur myndi fyrirfram vitja nafns? Svo er Jósefína mín einstaklega gæf og kelin og þæg (og þannig séð kannski ekkert óskaplega lík Jósefínu I, sem ég var svo lánsöm að kynnast fyrir löngu - sú kisa var afar lagin við að láta þjóna sér og kannski ekkert óskaplega þæg?)

Við tókum ekki eftir því fyrr en eftir nokkurra klukkustunda eign að Jósefína er ekki bara fallega bröndótt heldur tónar fullkomlega við nýju hurðirnar, gereftin og eldhúsinnréttinguna!  Tilviljun? Ég held ekki …

Þessi litla blíða kisa mjálmar eins og Marge Simpson! Saklaus tengdadóttir mín hélt að hún væri kannski með hálsbólgu. En maðurinn, alinn upp með dýrum eins og Tarsan apabróðir, áttaði sig umsvifalaust á að dýrið væri að framleiða estrógen og það skýrði líka mikinn áhuga þess á að komast út. Við pössum vandlega upp á að hún komist ekki út því hér í hverfinu er allt fullt af fress-flögurum sem gætu fallerað hana á svipstundu. (Hún er reyndar árs gömul og hefur eignast fimm kettlinga en eftir ófrjósemisaðgerðina lítum við á hana sem afturbatapíku - auk þess má hún ekki fara út fyrstu vikurnar því þá er viss hætta á að hún rati ekki heim aftur.)

Af eiganda Jósefínu eru engar góðar fréttir. Mestur partur sólarhringsins fer í algeran sljóleika; næ ekki að fylgjast með sjónvarpi eða lesa (las t.d. moggann í morgun og hef ekki hugmynd um hvað stóð í honum) og ferlega pirrandi málglöp þegar kvöldar, sem ýmist felast í hroðalegu mismæli eða að ég man ekki einföldustu orð. Meðvirkir fjölskyldumeðlimir eru duglegir að sparsla inn í setningarnar sem ég er að reyna að segja. Almennt og yfirleitt líður mér eins og einhver hafi dáið og að ég sé ekki partur af þessum heimi.

Planið í dag er að komast í labbitúr niður í bæ til að kaupa prjóna. Einnig að klæða mig í föt en sjúskast ekki allan daginn í Joe Boxer og náttbol.

Ummæli (5) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf

4. desember 2009

Í Helju

Þessi færsla er til að tilkynna að einkageðdeildin á Vallholtinu hefur opnað á ný. Í gær sló mér svo rækilega niður að ég man ekki til svo mikilla átaka, áður en botninum var náð. Ég er búin að grenja í meir en  sólarhring, get ekkert og ekki einu sinni tjáð mig almennilega munnlega, við heimspekinginn minn. Núna er dofinn að færast yfir … og kuldinn. Ef ég skríð upp í rúm og slaka aðeins á byrja ég að grenja. Ef ég reyni að hanga á löppum líður mér eins og ég sé áhorfandi að heiminum - ég er einhvers staðar í skuggaríki þar sem er kuldi og frost. Þetta ágæta sjúkdómseinkenni þunglyndis, að líða eins og maður sé frosinn og algerlega heillum horfinn, er að sumi leyti skárra en kvíða- og grátköstin. Svo er gott að vera verseruð í heljufræðum ásatrúarmanna.

Ég hef ekki hugsað mér að fara út í frekari smáatriði en tilkynni vinum, ættingjum og nemendum mínum að ég get ekki haft samskipti við fólk hvorki læf né í síma fyrr en einhvern tíma eftir helgi. Nemendur mínir fá forfallakennara til að fara yfir prófin en kannski gleðjast mín góðu börn eitthvað yfir því að ég var búin að búa prófin til áður en mér var varpað út í ystu myrkur nánast óforvarendis.  Þið verðið að spyrja aðra en mig hvernig þetta verður græjað.

Ummæli (1) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf

Beigurinn og geigurinn …

     

     

   

   

   

   

   

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa

2. desember 2009

Hugleiðing um sokk, kött og hamingjuna

Í fyrradag uppgötvaði ég að ég kann ekki að prjóna hæl á sokk. Í gær prentaði ég út alls konar imbaleiðbeiningar um sokkaprjón, af netinu. Spurning hvort ég nenni að rekja upp og reyni að fara eftir þeim leiðbeiningum undir fréttum RÚV í kvöld? Ég er búin að steinsofa í 3 klukkutíma svo það er alveg möguleiki á að ég skilji ritað mál og jafnvel leiðbeiningar. Á hinn bóginn vantar mig ekki beinlínis sokk …

Við maðurinn brugðum okkur til þurrabúðarinnar-handan-Flóans í dag. Ég hitti minn góða lækni og hitti svo góða stéttarfélagsforkólfa sem höfðu fundið út næs niðurstöður um veikindaréttinn minn.  Púff!  Í alvöru hafði ég nefnilega sotlar áhyggjur af því að verða að sjá fyrir mér næstu árin með lopapeysuprjóni (sem er ömurlegt fyrir manneskju sem ekki höndlar vel uppskriftir en er fín í eigin uppfinningum með prjóna og garn, svo ég hrósi sjálfri mér oggolítið). Svo var enn eitt erindi en það tengist jólagjöfum svo yfir því skal þagað.  Aftur á móti var eins gott að við sluppum snemma af stað heim, veðravítið Kjalarnes var með verra móti og er víst orðið nánast kolófært núna.

Á leiðinni til þurrabúðarinnar heyrði ég að bókin Enn meiri hamingja (eða einhver svoleiðis titill) hefði selst upp á fyrsta útgáfudegi (eða eitthvað). Ég hafði hlustað á Ásdísi Ólsen lýsa þessari bók á sunnudaginn og fræðum bakvið hana og Karl Ágúst þýðandi skaut inn einni og einni jákvæðri athugasemd (svona er að vakna kl. 6 á sunnudagsmorgni og prjóna við útvarpsniðinn …). Auðvitað óska ég þeim hjónum alls hins besta og vona að seljist sem flest eintök. En ég vil bara taka það skýrt fram við alla sem gefa mér jólagjafir að ég vil ekki sjá þessa bók (þótt ég sé oft pínu ekki-hamingjusöm)!  Handbækur í hamingju eru ekki alveg að gera sig í mínum huga, ekki frekar en verkleg sporavinna eða ofurást á meðvirknifræðum (þetta þrennt tengist síðan alveg ótrúlega mikið). Í prjónabókinni sem ég hef að láni eru meira að segja 7 prjónaspor (hamingjuspor með prjónaívafi) og svo lagt mikið upp úr árvekni og hugleiðslu við “ljúfan klið prjónanna” (ég lýg þessu ekki, ljósritaði meira að segja hluta af hugleiðslu- og öndunarprjónaæfingunum handa sálfræðingnum á deildinni góðu á Lans og fékk lagt í pósthólfið hans í dag).

Nei, ég hef ákveðið að prófa enn nýja leið í batafræðum (e.t.v. ekki að fullu uppfundna ennþá) sem er að leyfa að mér sé gefinn köttur í jólagjöf. Reyndar fæ ég kisuna fyrir jól og finn fyrir tilhlökkun; Tilfinningu sem ég var næstum búin að gleyma hvernig er! Ýmsar umræður hafa verið um nafn á dýrinu (nafngiftir Kattholtsfólks voru ekki fýsilegar) en þótt ég hafi verið komin á þá skoðun að nefna dýrið Freyju, einungis með kattagyðjuna í huga (!), eða Elísu því Elísa er soldið bröndótt nafn finnst mér … þá breyttist það allt í morgun því hinn jarðbundna heimspeking heimilisins dreymdi í nótt að köttur vitjaði nafns!  (Þetta gerðist í hvorugt skiptið með strákana okkar … enda maðurinn óhugnalega óberdreyminn og man oftast enga drauma. Stundum hefur mér dottið í hug að hann dreymi ekki - heldur sé í svefninum að “sanna” eitthvað, t.d. að tvær línur séu samsíða eða álíka “QED” sannanir. Tuldrið úr honum upp úr svefni bendir til þess.)  Nema nú er ljóst hvað kisan heitir. Henni er það að vísu ekki ljóst sjálfri enda önnum kafin í ormahreinsun, ófrjósemisaðgerð, sprautu gegn kattafári og guð-má-vita hvaða hremmingum öðrum. Auðvitað er nafnið leyndarmál þar til ég hef hvíslað því í eyra nafnberans!

Ég verð víst að nýta þennan geðhressa tíma minn núna til fleiri verka en málæðis á bloggi - þarf að ganga frá prófi og fara yfir próf og vinna svoleiðis hundleiðinleg verk sem vissulega eru best unnin milli 7 og 9 á morgnana.  En 3 klukkutímar af fastasvefni hafa greinilega skilað hellings bata! Ofursvefn er vanmetinn í þessum geðveikigeira, finnst mér.

Ummæli (12) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf