Færslur frá 3. janúar 2010

3. janúar 2010

Almennar fréttir af bloggynju og möbíus II

Bestu þakkir fyrir hlý orð og bataóskir!   Það yljar.

Ég er enn í heimi lifenda - svo snemma að morgni dags. Fór reyndar á fætur um sex leytið og “banhungruð”, að eigin sögn, tók Jósefína Dietrich á móti mér. Við nánari skoðun sást að yngra drengbarnið hafði gefið henni lítra af mjólk, einhvern tíma í nótt,  og stóra sneið af Camenbert sem er hennar uppáhald og kötturinn auðvitað alls ekki náð að torga þessu!  Aftur á móti notaði frk. Dietrich tækifærið til að fara á sitt fína prívat (hún svo myrkfælin greyið litla að hún þarf að hafa manneskju hjá sér eða heyra í manneskju til að líða vel), meðan ég fékk mér kaffibolla, og leyfði mér síðan að þrífa prívatið. Ég hugsa að þessi köttur þoli illa mjólk og mjólkurafurðir … ojsen pojsen (orð sem Jósefína skilur mætavel en tengir aðallega við hægri hönd eigandans þá eigandinn kemur inn eftir að hafa verið að reykja úti á stétt).

Mér tókst að klára bók í gær, Sporaslóð, sem eru frásagnarkaflar eftir Braga Þórðarson, Skagamann.  Bragi hefur skrifað fullt af svona bókum með sögum; sögur af skrítnum körlum og kerlingum á Skaganum eða mannskæð slys eða annað sem minnir á frásagnabækur þeirra Tómasar og Sverris í denn. Að vísu hef ég lesið helling um sumt efnið áður en samt er þetta nú visst afrek að klára bók! Spurning um að taka aðra atrennu að Auði?

Ég labbaði líka einn hring úti, ætli hann hafi ekki verið upp á eina 50 - 60 metra. Þetta er afrek fyrir manneskju sem aðeins hefur komist út á stétt til að reykja eina og eina sígarettu, frá því fyrir jól! Með því að hafa útiveru og hreyfingu svona útspekúleraða litla gat ég haldið áfram að fúnkera þegar inn var komið og hrundi ekki saman á eftir.

Svo horfði ég á Áramótaskaupið endurtekið því ég gat ekki vakað eftir því á gamlárskvöld! Það er náttúrlega hámark aumingjaskaparins, ég viðurkenni það. En hálftíma áður en Skaupið átti að byrja var ég búin með alla orku og hrundi í rúmið, steinsvaf svo af mér allar sprengingar og annað áramóta-vesen. Mér þótti endurtekna Skaupið gott og var gaman að sjá hve ættingjar stóðu sig vel; bæði minn ættingi og svo unglingurinn úr hinn ættinni. Náði líka að sjá þá nanósekúndu sem lögfræðingur heimilisins sést.

Möbíusarprjónið varð algert fíaskó. Ég horfði aftur á kennslumyndbandið og sá hvaða vitleysu ég hef sennilega gert. Miðað við uppskriftina eins og hún er í prjónabókinni er skiljanlegt að misskilja. Nú ætla ég að fitja aftur upp, í þetta sinn fyrir framan tölvuna, horfandi á myndbandið.

Duglegir geðsjúklingar myndu fara úr náttfötunum og klæða sig í dagföt og fara á fund klukkan 11. Það er spurning hvernig ástandið verður á þessari bloggynju kl. 11 … af reynslu tel ég að hún fari frekar aftur upp í rúm og skjálfi soldið af tilhugsuninni um að hafa enn einn ganginn ekki meikað það á fund … en þetta skýrist væntanlega þegar líður á morguninn.

Ummæli (0) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf