Færslur frá 5. janúar 2010

5. janúar 2010

Ó-æ-seif færsla þótt um fjármál sé

Ég ákvað að hafa áfram slökkt á sjónvarpi og útvarpi og Jósefína lætur sig hafa það að sofa á sófanum án sjónvarptuðsins. Við viljum nefnilega ekki láta tjúna okkur tvær upp af einhverju matsjó-kjaftæði um athyglissjúkan matsjó-gæja!

Verandi ekki í neinu svaka stuði samt hef ég þessa færslu frekar stutta; vil einungis vekja athygli á grein í samþykkt Akraneskaupstaðar um kattahald, sem hefur vafist mjög fyrir mér.  Greinin er svona:

“d. Akraneskaupstaður ábyrgðartryggir alla skráða ketti, sem greitt er leyfisgjald af hjá viðurkenndu tryggingafélagi.  Vátrygging skal ná til alls þess tjóns sem kötturinn kann að valda á mönnum og munum.  Lágmarks tryggingarupphæð er kr. 10.000.000 (tíu milljónir).”

(Sjá http://akranes.is/stjornsyslan/reglur-og-samthykktir/grs_id/2890/)

Þýðir þetta að Jósefína verði að a.m.k. að kveikja í húsi eða sprengja upp skóla eða ræna bát (flugvélar eru ekki á lausu hér í bæ) til að skaðinn fáist bættur? Verð ég að setja hryðjuverkalög hér innanhúss og byrja að þjálfa minn ljúfa og góða kött í al-kaídískum brögðum og bardagatækni?

Engin krafa er gerð um lágmarks-skaða sem einn hundur þarf að valda, sjá http://akranes.is/stjornsyslan/reglur-og-samthykktir/grs_id/695/. Því miður eru engar upplýsingar um önnur dýr, t.d. kanínur (sem geta reyndar verið stórskaðleg kvikindi komist þær í snúrur og leiðslur), gullfiska eða páfagauka.

Ætli kattaábyrgðartryggingin sé byggð á fordæmi? Ég vísa þessari spurningu til lögfræðings heimilisins!

Ummæli (5) | Óflokkað, Daglegt líf