5. janúar 2010

Ó-æ-seif færsla þótt um fjármál sé

Ég ákvað að hafa áfram slökkt á sjónvarpi og útvarpi og Jósefína lætur sig hafa það að sofa á sófanum án sjónvarptuðsins. Við viljum nefnilega ekki láta tjúna okkur tvær upp af einhverju matsjó-kjaftæði um athyglissjúkan matsjó-gæja!

Verandi ekki í neinu svaka stuði samt hef ég þessa færslu frekar stutta; vil einungis vekja athygli á grein í samþykkt Akraneskaupstaðar um kattahald, sem hefur vafist mjög fyrir mér.  Greinin er svona:

“d. Akraneskaupstaður ábyrgðartryggir alla skráða ketti, sem greitt er leyfisgjald af hjá viðurkenndu tryggingafélagi.  Vátrygging skal ná til alls þess tjóns sem kötturinn kann að valda á mönnum og munum.  Lágmarks tryggingarupphæð er kr. 10.000.000 (tíu milljónir).”

(Sjá http://akranes.is/stjornsyslan/reglur-og-samthykktir/grs_id/2890/)

Þýðir þetta að Jósefína verði að a.m.k. að kveikja í húsi eða sprengja upp skóla eða ræna bát (flugvélar eru ekki á lausu hér í bæ) til að skaðinn fáist bættur? Verð ég að setja hryðjuverkalög hér innanhúss og byrja að þjálfa minn ljúfa og góða kött í al-kaídískum brögðum og bardagatækni?

Engin krafa er gerð um lágmarks-skaða sem einn hundur þarf að valda, sjá http://akranes.is/stjornsyslan/reglur-og-samthykktir/grs_id/695/. Því miður eru engar upplýsingar um önnur dýr, t.d. kanínur (sem geta reyndar verið stórskaðleg kvikindi komist þær í snúrur og leiðslur), gullfiska eða páfagauka.

Ætli kattaábyrgðartryggingin sé byggð á fordæmi? Ég vísa þessari spurningu til lögfræðings heimilisins!

5 ummæli við “Ó-æ-seif færsla þótt um fjármál sé”

 1. gua ritar:

  Hehehe þeir eru nú ekki allt í lagi þarna hjá Akraneskaupsstað, ss 80.000.000 kr bókina og þetta með kattatrygginguna.

  Gott hjá þér að útiloka þessa endemis isbjargarþvælu. Sigmar var rétt í þessu að boða til sín alla spekinga landsins sem hafa fótaferð á annað borð :)

 2. Form. ICBS ritar:

  Ég hef rætt þetta við nokkra bæjarketti og þeir segja á að það sé almennt viðtekin túlkun á vátryggingarskilmálum að í 10 milljónir séu lágmarksbætur fyrir tjónaþola . Einn lífsreyndur högni telur að í hvert sinn sem hann pissar í sandkassa fái allir pottormar í nágrenninu 10 milljón króna ávísun.

 3. Gurrí ritar:

  Hahahaha …

 4. Harpa ritar:

  Jósefína er búin að týna límbandsrúllunni sem ég lánaði henni í gær. Á þeirri rúllu voru a.m.k. 10 cm eftir. Best ég skrái köttinn og rukki svo bæinn um tíu milljónirnar!

 5. Máni Atlason ritar:

  Vitandi til þess að Hæstiréttur hefur dæmt eiganda belju bótaskyldan vegna háttsemi beljunnar (sjá hér http://haestirettur.is/domar?nr=5901&leit=t) þá myndi ég ekki þora öðru en að tryggja mig í bak og fyrir vegna tjóns sem kötturinn kann að valda!!

  Íslenskir dómstólar hafa aftur á móti verið tregir til að viðurkenna bótaábyrgð foreldra vegna háttsemi barnungra óvita svo þú þarft ekki að hafa neinar stórar áhyggjur af Vífli. En varðandi ferfætta skaðræðið þá er það annað hvort að kaupa tryggingu eða tjóðra köttinn.