20. janúar 2010

Sloppadagur II

Er enn í sömu Joe Boxer en komst nú í sturtu í gær svo ástandið er ekki alslæmt. Mér líður eins og einhver hafi dáið. Mér líður líka eins og ég sé ekki alveg í takti við heiminn (gamla góða óraunveruleikatilfinningin / firringartilfinningin dúkkar upp). Þá er nú gott að eiga þykka sæng (vonandi ekki úr handreyttum gæsadúni af lifandi gæsum!).

Maðurinn er í þurrabúðarmenntunarferð, unglingurinn er sofandi (hann hefur viðurkennt vanmátt sinn gegn svefni og að honum er orðið um megn að stjórna eigin svefntíma … og fékk svo að vita að nú eru bara 11 spor eftir, sem ég á reyndar eftir að semja). En þar sem maðurinn er af bæ og fer svo á Rotarí-fund verðum við unglingurinn að hanga vakandi kringum 7 til að geta pantað og sótt pizzu, sem er fastur liður þá maðurinn er af bæ.

Ég stefni á að semja fljótlega spor fyrir prinspóló-ofneytendur; Át sex í röð um hádegisbilið!  Það fokkast einhvern veginn allt upp á svona sloppadögum.

8 ummæli við “Sloppadagur II”

 1. Nafnlaust ritar:

  Nú er ég búin að lesa mig aftur að áramótum en án árangurs: hvaða námi ertu byrjuð í, er það BA eða MA í sagnfræði eða íslensku eða miðaldafræði eða fer ég kannski að sjá þig í þjóðfræðinni, hvar yðar einlæg er nú orðin hæstvirt aðstoðarkennslukona? Þú ert reyndar ekki skráð sem ein af 20 fjarnemum í kúrsinum um Munnlega hefð og Íslendingasögur og eddukvæði né heldur meðal 55 staðnema í sama (les: mont yfir því hvað ég hef margar nem-endur… að vísu kenni ég ekkert, læt þau bara tala saman um það sem alvörukennarinn fræðir þau á.) Ég á líka svona Únglíng sem ætti að viðurkenna vanmátt sinn gegn svefni og að honum er orðið um megn að stjórna eigin svefntíma - og skapsmunum, draslmagni á gólfi, kókdrykkju, tölvunotkun og lestri á The Economist. Svona fer stjórnin á öllu úr böndunum þegar fíknin nær yfirhöndinni. Ég geri sosum ekki miklar athugasemdir aðrar en stöku háðsglósur sem ekki er hægt að láta ósagðar þegar færin leggjast upp í hendurnar á mér. ,,Aldrei að sleppa færi” er haft að orðtæki á kærleiksheimilinu okkar. Hallveig mín biður að heilsa Jósefínu. Og farðu að gera aðra atlögu að Auði, ég er farin að naga neglurnar.

 2. Vilborg Davíðsdóttir ritar:

  Hér vantaði að ofan e-r upplýsingar um skrifara. Úr því hér með bætt.

 3. Harpa ritar:

  Ég byrjaði einmitt aftur á Auði í dag! Og eftir svona 2 daga kemur RITDÓMUR!!!

  Annars er ég í Karlmennsku í blíðu og stríðu, kúrsi sem er kenndur á MA-stigi í íslensku. Þar eru heilir 18 nemendur skráðir en ekki mættu svo margir í fyrsta tímann. Ég þekki 2 kennara í námsleyfi og einn fyrrum kennara sem er einnegin fyrrum nemandi og býr á Skaganum. Svo kannast ég við einhverja fleiri. Þetta nám er einungis hugsað sem líflína fyrir mig svo ég haldi einhverju sambandi við samfélag lifenda og grotni ekki niður eins og hvur annar geðsjúklingur hér heima. Mér líst líka vel á kúrsinn sem kúrs og kennarann líka.

  Hefði ég vitað af svona góðum aðstoðarkennara í þjóðfræði hefði ég náttúrlega skoðað mjög hug minn með að skrá mig í þann kúrsinn :) Er það Gísli Sigurðsson sem er aðalkennari? (Hann er faktískt skólabróðir minn frá því í gamla daga, í BA). Og ég hef nú einmitt soldinn áhuga á munnlegri hefð - skilst að þar geti menn endurnýjað kynnin af þeim Perry og Lord - sjálf held ég að Íslendingasögurnar eins og við þekkjum þær séu heimasíður en hafi ávallt verið sagðar með linkum út um allar trissur! Áður en ég gerðist fatlafól flutti ég einhverja fyrirlestra um þetta, hist og her.

  Það er ýldulykt af herbergi míns unglings. Hann lofaði að skúra innan 5 daga. (Benti honum á þá yfirvofandi hættu að faðir hans missi þolinmæðina og ræsti herbergið og þá verði allt hans dót meira og minna týnt á eftir!)

  Gaman að heyra frá þér Vilborg :)

 4. Atli Harðarson ritar:

  Ég las Auði rétt eftir áramót og fannst þetta ansi góð saga. (Sjá http://atlih.blogg.is/2010-01-16/baekur-sidasta-ars/)

 5. Einar litli bróðir H ritar:

  Ég sat við hliðina á Gísla Sig á bekkjarkvöldi í gær! Toppaðu það! Og svo þekki ég Henrik Bagerius sem er á leslistanum!

 6. Harpa ritar:

  Hm … maður svona reiknar með að familían skrifi eitthvert aumingjadót, eins og aumingja þú o.sol. en sé ekki með mont eða einhvern “kynusla” (orð sem ég lærði af námsefninu en er búin að gleyma hvað þýðir) á harmagráts-færslu (man enn að það er “gráts”) stóru systur!

  Bekkjarkvöld? Hvernig getur þessi náungi verið á bekkjarkvöldi með þér? Var kannski sagnfræðin að halda upp á afmæli Árnagarðs? Jag vet að þú kennir Bagerius og ég skal gera mitt besta til að hallmæla Stefánungum og Ottesenum í minni ritgerð í kúrsinum, hvert sem ritgerðarefnið nú verður …

  Annars er gaman að sjá þig Einsi minn utan fésbókar :)

 7. Einar ritar:

  Við Gísli eigum börn í sama bekk og neyðumst báðir til að sitja af okkur bekkjarkvöld

 8. Harpa ritar:

  Ah … ég skil! Og náttúrlega alltaf jafngaman á bekkjarkvöldum?