30. janúar 2010

Gæfuleysið féll að síðum

Löng færsla sem skrúfast út og suður! Gersovel:

Ég valdi fyrirsögnina í og með til að sjá hvernig Google Translate myndi þýða hana á ensku. Óforvarendis birtist nefnilega Google Toolbar efst á öllum mínum síðum og býðst til að þýða á önnur tungumál. Prófun á síðustu færslu leiddi m.a. til þessara gullmola:

“Although it is replaced by nothing the matter with’re my man by the name of this scholar so nice that he wants to name after him a little kisu: Josephine Dietrich Meulengracht! With special emphasis on gracht man … I suspect that it features an elegant call cat kvikindið into high Romina full name … “

Sem er þýðing á:

“Þótt það komi málinu ekkert við þykir mínum manni eftirnafn þessa fræðimanns svo flott að hann vill heita kisu litlu eftir honum: Jósefína Dietrich Meulengracht! Með sérstakri áherslu á gracht … hef manninn grunaðan um að honum þætti flott að kalla kattarkvikindið inn háum rómi með fullu nafni … ”

Og “Vendi ég mínu kvæði í kross” kemur dásamlega úr þýðingarvélinni: “Vent I so my poems in a cross …” 

En annars hef ég verið að hugsa um þann vísupart um Sölva Helgason sem fyrirsögnin er sótt í; Auðvitað hef ég ekki munað því ég man aldrei kvæði en fletti upp í manninum (sem er fljótlegra en fletta í vísnabanka Héraðsskjalsafns Skagfirðinga á Vefnum) nú áðan og fór hann umsvifalaust með vísuna fyrir mig. (Vísupartinn má nú sjá í kommenti.)

Ég hef nefnilega fattað að þunglyndi er að mörgu leyti líkt þófastakki sem fellur með síðum og gott betur: Virkar eins og spennitreyja á sjúklinginn og engin efnavopn ná til hans!

Núna er aðeins að brá af mér og ég hef t.d. getað farið svolítið í labbitúra án þess að hrynja grenjandi ofan í rúm á eftir. Í dag fór ég vitandi vits út að labba kl. 13 og trítlaði yfir Nesið, hvar blasti við óendanlega langur og breiður og ósnertur og glampandi Langisandur. Það var dýrlegt að labba sandinn!; Glampandi sól og tugir metra af útfiri sem fraus jafnóðum og speglaði sólarbirtuna enn meir en sjórinn …  Reyndar varð ég vör við 5 manns á Sandinum öllum, á mínum labbitúr, en það voru allt saman gamlir menn með hunda eða smákrakkar. Allt alminlegt fólk var náttúrlega inni að horfa á leikinn!

Nema hvað að í svona skjannabirtu, trítlandi á gullnum sandi í nýju hvítu strigaskónum, komst ég aðeins í samband við allífið og datt annars vegar í hug þessi ágæta skilgreining á þunglyndissjúklingi, hafandi í huga svellþæfða þjóðlega voð og örlög íslenskra heimspekinga áður fyrr sem og þunglynds skagfirsks skálds: “Þunglyndið féll að síðum”.  Hins vegar fann ég svo fast fyrir gjörhygli (mindfullness) að ég sá að árvekni er algerlega vonlaust orð yfir fyrirbærið. Árvekni þýðir nefnilega bókstaflega að vakna eldsnemma (sem skv. Hávamálum var afar mikilvægt ætlaði maður sér í dráp eða rán) en í yfirfærðri merkingu þýðir orðið að hafa varann á sér, vera á tánum o.s.fr. Strákarnir Okkar hefðu betur verið aðeins árvökulli í dag! Í þessum afleiddu zen-búddísku fræðum á maður einmitt að vera soldið í sambandi við allífið, tæma hugann, anda jafnvel niður og uppúr í mjaðmagrind og leyfa svo hugsunum að flæða  …  Svoleiðis líðan fæst sumsé á fólkstómum sólríkum dögum á Langasandi. Og af hugsunum sem flæða áreynslulaust í birtunni er jafnvel ein og ein gáfuleg. Eins og þessi þófastakks-Sölva-Helgasonar-þunglyndis- hugsun.

Ég náði að sofna aðeins í eftirmiddag (sem hefur gengið verr eftir því sem pillum fækkar) og líður afskaplega vel núna. Hef verið dugleg að æxla mér bækur eftir að ég gat farið að lesa - á föstudaginn var ég svo þreytt að þegar ég uppgötvaði að bókin með greininni sem á að lesa fyrir næsta tíma, var sjaldgæf og auk þess í útláni fram í febrúar, þá fríkaði ég út og fór heim af Þjóðarbókhlöðu með Føroysk Bindingarmynstur, Embroidery in Britain from 1200 - 1750 og þykkan hlunk: The Victorian Underworld, sem fjallar um fátækt og fátækrahverfi á þeim tímum.

Hér heima er ég að lesa fantagóðan reyfara eftir Jón Hall Stefánsson (sem ég hef kannski lesið áður en kannast ekki við neitt svo það er í góðu lagi) og bókina hans Böðvars Guðmundssonar, sem Helga Kress samsamaði sig við. Byrjunin lofar góðu.

Það er náttúrlega svo dýrlegt að geta lesið að allar hannyrðir liggja á hillunni (í bókstaflegri merkingu). Ég stíg varlega til jarðar og er ekkert að gera ráð fyrir að þessi líðan endist … yfirleitt hefur hún staðið í svona 3 daga í viku en hinir 4 farið í að stara út í loftið eða liggja í rúminu. Mér kæmi samt ekki á óvart ef nú yrði 4:3 á hinn veginn. En til öryggis tek ég einn dag í einu.

Samt bíður sólgyllt framtíðin: Maðurinn pantaði flug til Krítar í vor og ég sé fram á mánuð á þeirri heitu og sólríku eyju, með fjölda langasanda! Við vorum samt dálítið búin að spá í Leros, á Tylftareyjunum, en íslenskar ferðaskrifstofur sem bjóða far til Bodrum vilja að fólk sé í fæði og klæði í Bodrum (Tyrklandi) og það viljum við ekki. Aðrir möguleikar fólu í sér margar millilendingar, langar ferjusiglingar o.þ.h. og því nenntum við ekki. Svo við ætlum bara að pakka í bakpoka, festa gistingu fyrstu og síðustu nætur í Chania en þvælast annars um eyjuna og að sjálfsögðu eyðum við helftinni í Sougia, þeim indæla túristasnauða bæ, eða öðrum túristasnauðum bæjum sem við eigum eftir að uppgötva.

Á meðan passar Vífill fr. Dietrich - vonandi fitar hann hana ekki of mikið á mjólk til að hún komist ekki lengur út um gluggann sinn. (”Það er ekki hægt að segja nei við hana”, hefur Vífill afsakað sig og er nokkuð til í því!)  

2 ummæli við “Gæfuleysið féll að síðum”

 1. Haukur Kristinsson ritar:

  Ég held þú farir ekki rétt með vísupartinn um Sölva
  eftir Bólu-Hjálmar.

  Heimspekingur hér kom einn í húsgangsklæðum,
  með gleraugu hann gekk á skíðum,
  gæfuleysið féll að síðum.

  Kveðja, Haukur

 2. Harpa ritar:

  OMG Haukur, þetta er alveg rétt hjá þér! Og er bloggynju sjálfri að kenna (minni á athyglisbrestinn) en ekki hinum hundvísa heimspekingi, sem hafði þetta alveg rétt eftir. Nú mun ég leiðrétta en kem því fyrst að að “Auðnuleysið féll að síðum” er Gúgulþýtt “Wilder Leysið fell pages”. Verður spennandi að sjá hvernig Gúgull þýðir gæfuleysið.

  Tek svo fram að ég brúka ekki gleraugu og hef aldrei stigið á skíði. Aftur á móti sé ég verr með hverjum deginum svo e.t.v. bíða mín altént gleraugun, í náinni framtíð ;)