Færslur frá 13. febrúar 2010

13. febrúar 2010

Að koma úr kafi: Plön fyrir daglega lífið

Áætlanir mínar hafa dulítið breyst því ég féll frá því að taka þátt í Marplan-tilrauninni, sem þátttakandinn eini. Svoleiðis að ég þarf ekki að dvelja á þeim góða geðspítala næstu vikur þótt maður viti svo sem aldrei ævina sína lengra en eina viku fram í tímann, eða þannig. Eftir að hafa sett niður fyrir mér helstu punkta í stöðunni, fengið álit hjá heimspekingi heimilisins o.fl., ákvað ég að fresta þessari tilraun fram til haustsins. Ég nenni ekki taka sénsinn á að verða fárveik - ekki núna þegar eru loks að koma einn og einn ásættanlegur dagur (lesist: Bloggynja klædd og á fótum!) Vist á geðdeild er þreytandi og tekur á. Loks hef ég ákveðið að prófa ekki ný lyf, sem detta alltaf öðru hvoru inn á markaðinn, djöst for ðe fönn of itt. “Lyfið eina” er eins og The Holy Grail; kann að virðast innan seilingar en svo verður maður aftur og aftur fyrir vonbrigðum. [Að sjálfsögðu getur verið að ég þurfi að kúvenda  skoðunum og ákvörðunum hvenær sem er, ef ég lendi djúpt niður í Helvítisgjána en í dag er þetta altént lífsviðhorfið.]

Þar sem nú þarf ég bara að slást við veikindin, en ekki meðfylgjandi lyf verður líf mitt auðvitað einfaldara. Mér finnst kominn tími til að snúa sér að markverðari og meira gefandi hlutum.

Fyrsta verkefni er að klára peysuermina á hillunni. Hún er prjónuð eftir uppskrift og of flókin til að ganga með sjónvarpsglápi. Fyrir sjónvarpsgláp (sem í mínu tilviki er næsta mínimalt) ætla ég að fitja upp á öðrum þrengri Möbíusi. Sá sem ég prjónaði er nefnilega of lítill til að nýtast sem herðaskjól og of stór til að ganga sem hálstau. Auk þess gerði ég þau reginmistök að pressa hann. Ég hef hins vegar fattað að ef ég prjóna svona 70 - 80% minni Möbíus, úr garni í stíl, gæti ég gengið með þá tvo saman og þannig fengið flott og hlýtt hálstau. (Þvæ upphaflega möbíusinn aftur og læt krullast og krumpast á ný.) Eina málið með Möbíus er að fitja upp, prjónið sjálft er einfalt og unnið frá mænukylfu. (Hvað er litlasystir búin að prjóna marga Möbíusa? Eða er hún of upptekin við að skoða silfurskottur í smásjá?)

Maðurinn hefur lýst því yfir að sig langi í mjög hefðbundna lopapeysu, úr stingandi plötulopa. Það má íhuga þetta síðar, gæti verið gott til mótvægis við hina flóknu ermina. Ég er að hugsa um að skoða gömlu lopapeysuuppskriftirnar sem liggja frammi á vef (Ístex? Annars finn ég þetta þótt ég muni ekki slóðina í svipinn …). Ekki þó neitt með áttblaðarós því ég hef fengið mig fullsadda af slíkum. Einfaldast væri náttúrlega að kaupa handa honum svona lopapeysu því ég er ekki hrifin af plötulopa sem hefur tendens til að verða jafnsóðalegt fyrirbæri og Fr. Dietrich er á stundum, öllu heldur oft. Þar sem sagnir (feisbúkk) herma að Dietrich, Jósefína sé nú að skrifa þriðja bindi sögulegrar skáldsögu sinnar, Konan sem lék sér við hundinn, og standi í útgáfuviðræðum við Sunnlenska bókakaffið tjái ég mig ekki meir um það. Skáldsagan mikla verður ekki gefin út fyrr en öll þrjú bindin eru tilbúin í handriti / loppuriti.

[Var að finna frábæra fésbókarsíðu um prjón, heitir Prjóna-Jóna. Að vísu fær kona doltla minnimáttarkennd þegar myndasafnið er skoðað en mun hrista hana af sér. ]

Annað sem liggur fyrir er að endurvekja kynni mín við mitt pjanóforte, sem hefur eiginlega ekki verið snert í fjóra mánuði! Ókosturinn er sá að maður fær endalausa vöðvagigt ef maður gleymir sér við spilamennskuna, sama gildir um prjónið. En auðvitað mætti endurvekja kynnin við nuddarann í leiðinni :) Ljósabekkur gerir líka gagn og nú er örugglega meir en hálft ár síðan ég lagðist á svoleiðis græju. Hraðgöngur virka líka ágætlega en ég er ekki alveg tilbúin í svoleiðis … tek ekki sénsinn á líkamlegri áreynslu ennþá.

Samband við ýmist fólk þyrfti að rækja betur eða taka upp á ný … sunnudagsfundur er loksins að verða raunhæfur möguleiki … nokkrar morðsögur myndu yppa sálinni … svona mætti lengi telja!

Nú er að passa að fara ekki framúr sér! Ég fer náttúrlega aldrei í maníu, næ ekki einu sinni upp á jafnvægisstrikið milli dimma-dals-lotanna, og hef ævinlega takmarkað úthald. Þess vegna verð ég alltaf að muna að ég er ekki fullfrísk heldur amlóði að mörgu leyti og haga lífi mínu í samræmi við það. En núna, þegar ég er að komast upp úr djúpu lægðinni sem hófst í október finnst mér að ég sé að koma úr kafi og það er t.d. ákaflega dýrlegt að skynja aftur liti í umhverfinu og tilverunni. Veröldin er ekki lengur svart-hvít. Þess vegna klæðist ég litum.

Ummæli (4) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf