Færslur frá 24. febrúar 2010

24. febrúar 2010

Ævispor enn á ný!

Ég brá mér með vinkonu minni til þurrabúðarinnar í dag enda veðurútlit hérna megin Flóans gott. Í þurrabúðinn reyndist hins vegar þetta venjulega þurrabúðarrok og skítakuldi!  Þrátt fyrir slakar umhverfisaðstæður má samt þorpið handan við eiga að ýmislegt má skoða innanhúss.

Þar á meðal er auðvitað sýningin Ævispor í Þjóðminjasafninu, sem ég skoðaði aftur af stakri ánægju en varð enn og aftur nánast klökk við - þetta er svo fallegt alltsaman! Ég fell gjörsamlega í stafi yfir litunum og vinnunni að baki verkunum. Svo skemmtilega vildi til að listakonan sjálf birtist þarna og við vinkona mín tróðum okkur að henni til að segja hvursu fögur verkin væru. Sömuleiðis gat ég náttúrlega ekki stillt mig um að tengja okkur saman gegnum skyldfólk og tengdir. Maður má monta sig þegar svo glæsileg er listin.

Næst lá leiðin á bókamarkað hvar ég var staðráðin í að kaupa ekki snitti enda bókaeign fjölskyldunnar orðin meiri en Lestrarfélags N-Þingeyinga, sem ég las í bernsku. Það gefur ótrúlega góðan grunn að lesa heilt bókasafn en vera ekki að spá í þessa nýmóðins skiptingu hvað teljist fyrir börn og hvað fullorðna. Það eina sem mér var beinlínis bannað að lesa voru Gleðisögur Balzacs sem varð auðvitað til þess að ég paufaðist vandlega í gegnum þá bók og geymdi hana undir rúmi ef einhver sá til mín. Þarf varla að taka fram hvílíkt uppistand varð þegar móðir mín hugðist skúra undir þessu sama rúmi … enda var það einmitt hún sem taldi þetta klámsögu og  ekki fyrir börn! (Myndin sýnir Honore de Balzac, f. 1799, d. 1850.) Mig minnir að bókin hafi verið hrútleiðinleg …

Því miður var ég ekki nógu staðföst á bókamarkaðnum og keypti smáræði, þar merkilegast náttúrlega Stóra kattabókin og Blái Engillinn, úr lífssögu Marlene Dietrich. Þetta flokkast þægilega undir nauðsynleg uppsláttarrit vegna Fr. Jósefínu.  Þegar ég skoðaði myndir af Marlene D. á Vefnum rann upp fyrir mér hvers vegna Fr. Jósefína Dietrich er svona svakalega meðvirk reykingamönnum … hún rífur sig meira að segja á allar fjórar lappirnar til að fara út á stétt með reykjandi eigandanum.

Ég er reyndar doldið spennt að lesa ævisöguna Goodbye to Bacchus, útgefna 1953, en er annars að drukkna í allrahanda ólesnum bókum og var að sækja Svörtuloft Arnalds af bókasafni míns góða o.s.fr. þannig að kvöldinu er bjargað.

Þriðja seværdigheden var svo sokkabuxnabúð í Kringlunni, hvar ég leitaði að alminlegum gammosíum og náði að kaupa eitthvað sem líktist því. Nú má fara að ganga í kvenlegra dressi en gallabuxum þrátt fyrir helv. kuldann! A.m.k. hér á mínum góða Skaga.

Á morgun er ég að hugsa um að verða samferða mínum manni til sömu þurrabúðar á ný en nota tímann til að sörfa á Þjóðarbókhlöðu og ljósrita einhverjar greinar ef í þeim finnst bitastætt efni fyrir mig.

Ummæli (3) | Óflokkað, Daglegt líf