27. febrúar 2010

Til hamingju Óli!

Eins og aðrir í mínum litla góða bæ gladdist ég óumræðanlega yfir þeim fréttum að Wernersbræður ættu nú að borga myndarlega sekt fyrir að hafa beitt verulega ósvífnum brögðum svo við lasnir bæjarbúar yrðum tilneyddir til að skipta við þá og einungis þá. Ég er náttúrlega ekkert viss um að téðir Wernersbræður eigi fyrir þessari sekt. Þeir ætla  ekki að greiða hana heldur rekja málið fyrir dómstólum, að sögn. Sennilega ekki ódýrara fyrir þá.

Ég var svo vitlaus (má rökstyðja að það hafi ég verið bókstaflega) að skipta við Lyf og heilsu hér áður fyrr enda nánast  í næsta húsi. En þegar Ólafur Adolfsson óskaði W.bræðrum til hamingju með opnun lágvöruapóteksins síns, í heilsíðuauglýsingu (um áramótin síðustu?), hætti ég umsvifalaust að skipta við það apótek nema rétt kaupa eyrnatappa í neyð eða fótleggjavax þegar bráð nauðsyn bar til. Eftir að hafa skoðað úrskurð Samkeppniseftirlitsins hef ég ákveðið að kaupa ekki einu sinni eyrnatappa framar af Apótekaranum heldur versla eingöngu við Apótek Vesturlands. (Verst að ég skuli orðin þó þetta frísk og pillunum hafi fækkað svo mjög … en maður veit aldrei hvað verður. Það er náttúrlega fúlt að hitta ekki meir þær góðu afgreiðslukonur í Apótekaranum … Á hinn bóginn mun labbitúr upp í sveit gera mér gott og vonandi gefast sem flestar ferðirnar uppeftir.)

Í tilefni þessa paufaðist ég í morgun, í ófærðinni, upp í mýri þar sem Apótek Vesturlands er staðsett og kunni ekki við að kaupa dót undir fimmþúsundkallinum, þess vegna eignaðist Jósefína þennan fína bursta og ég krem o.s.fl., þótt mig vantaði bara eitt snitti af öðru. Ég horfði vorkunnaraugum á vesalings fólkið sem verður að versla í Bónus (í sama húsi) - sem betur fer þarf ég ekki að skipta við þá Bónusfeðga og hef reyndar ekki gert frá því þeir byggðu sér huggulegt útibú í útjaðri míns góða bæjar. Nei, þá er nú betra að halda sig við Einarsbúð, eins og almennilegur Skagamaður!

Mér vitanlega er Ólafur Adolfsson, eigandi Apóteks Vesturlands, úr Ólafsvík. En hann er óneitanlega Skagamaður núna, Vestlendingur ársins 2009, og fyrrum ÍA fótboltastjarna! Þarf að segja meira? Árás á þennan lyfsala er í rauninni árás á fótboltamann í okkar liði … og hér í mínum litla góða bæ hafa menn fótbolta fyrir guðið sitt, hvað sem þeir nú kunna að gera á Snæfellsnesi. Þetta hefðu þeir Steingrímur og Karl átt að fatta.

Annað er sosum ekki títt. Við maðurinn fórum á tónleika í gærkvöldi … mjög huggulegir og reyndar einnig bráðfyndnir tónleikar Kammerkórs Akraness ásamt hliðargrúppum sem “írska” hljómsveitin (The Beginners?  Held hún heiti það.) endaði.

Krakkarnir í götunni eru hamingjusamir í snjónum en kettirnir í götunni eru ekki sama sinnis. Vesalings Jósefínu blöskrar þetta blauta kalda ódó og verður að halda sig meira og minna inni. Annað en hundar sem láta siga sér nánast út í hvaða veður sem er! Maðurinn horfði á Gunnhildi litlu af Hjarðarholtinu steypa sér út um gluggann sinn í morgun … og beint ofan í skafl! Aumingja Gunnhildur.

Ég er búin að lesa Stóru kattabókina og sé nú betur hvernig kötturinn fer að því að temja fólkið sitt. Svo kláraði ég líka Svörtuloft, svona la-la bók en mér finnst Sigurður Óli algerlega óþolandi karakter, minnir mig á Jardine heitinn (í Taggart) sem mér fannst einmitt einnig verulega óþolandi. Sennilega er Sigurður Óli reistur á Jardine, líkindin eru það mikil. Heftir kallar gætu kannski lært eitthvað af því að samsama sig löggunni Sigurði Óla ef glæpasagnir hafa þá yfirleitt freudískt lækningargildi.

Lokað er fyrir ummæli.