7. mars 2010

Scheving og Möbíus

Hannyrðalistirnar í þurrabúðinni virkuðu eins og vítamínsprauta á bloggynju og hefur hún nú druslast til að finna fullt af hálfkláraðri handavinnu og hyggst ljúka henni á árinu! Reyndar tefur Möbíus-prjón svolítið því það er svo ansi þægilegt við sjónvarpið og auk þess gengur bölvanlega að finna hinar réttu stærðir, svo sem sést á meðfylgjandi mynd. Þessi tveir Möbíusar eru á leiðinni í þvottavél, á 60°, og viskum sjá hvort þeir láta sér ekki segjast við þá meðferð. (Þeir eru greinilega of stórir fyrir háls og of litlir fyrir herðar … hvað á maður að gera við svona millistykki? Sennilega var líka heldur ósmart að pressa stykkin …)

Montmyndirnar litlu vísa á stærri útgáfur af sömu myndum.

Eitt af því sem ég dró fram var listaverkið Kýrin Meskalína, byggt á mynd Gunnlaugs Schevings. Ég á ekki von á að verða kærð fyrir höfundarréttarbrot en hannyrðin er samt tvímælalaust svoleiðis brot.  Við alþýðan verðum að brúka svona aðferðir til að eignast okkar Scheving - við vorum aldrei í útrásinni eins og Landsbankinn, sem ég reikna með að eigi upprunalega verkið. Sem sjá má eru ský og landslag dálítið færð í stílinn, sem varð til þess að fræðimaður heimilisins gaf útsaumsmyndinni þetta nafn.

Annað óklárað er t.d. ansi fín hörpudiskapeysa sem má klæðast á sumrin, svört peysufatapeysa (eða byggð á slíkri) sem á að vera grunnur undir tilraun til svindl-baldýringa-æfinga, einn einn áttblaðarósarpúðinn í groddalegan risafléttusaum (í smyrna-stramma) o.s.fr.  Svo sé ég í hendi mér að það megi bjarga hinum fínu en draslkenndu eldhússtólum mannsins með útsaumuðum sessum - t.d. með miðaldamyndum af köttum - og gefst þá frábært tækifæri til að prófa refilsaum.

Staðföst sem ég er mun ég ekki blogga um Ice-eitthvað (stefni á að verða eini bloggari landsins sem ekki hefur tekið þetta mál upp á bloggi). Ég læt duga að vitna í feminu docta þessa heimilis, sem segir í enn óútgefinni stjórnmálasögu sinni, De Historia Politica Islandorum, IV. bindi: “Á þessu stigi málsins kemur vel til greina að éta erlendar samninganefndir og verða þær þar með úr sögunni.” (Dietrich, Jósefína. 2010, s. 897. Bloggynja snaraði úr latínu.) 

7 ummæli við “Scheving og Möbíus”

 1. Áslaug Ben. ritar:

  Mikið líst mér vel á þetta hjá þér…Alltsaman!

 2. Harpa ritar:

  Takk, Áslaug :)

 3. Nafnlaust ritar:

  það mætti halda áfram að prjóna doldið á of-litla-Möbíusnum þar til breiddin nær ummáli höfuðs. Lykkja svo saman mótlægar lykkjur eins mikið og hægt er eða þar til orðið er til rörlaga fyrirbæri sem á einum stað er á leið inn í sjálft sig. Kuðla því þar inn í sig sjálft eins mikið og hægt er. Þá er komin Kleinflöskuhúfa sem myndi örugglega fara eiginmanninum vel.

  Ég hef líka lent í þessum vandræðum með stærðirnar, þetta er miklu viðráðanlegra er maður heklar Möbíusarband því þá sér maður betur hvað gerist.

 4. Nafnlaust ritar:

  nafnlaus er ég, þ.e. Freyja systir (sem vanalega kemur átómatískt)

 5. Harpa ritar:

  Hm … hef áður orðið fyrir þessum Kleinflöskuáróðri og aldrei að vita nema ég slái til, þegar hálfkláruðu stykkin verða alkláruð. Málið virðist hins vegar hafa leystst (!) með ljósfjólubláa Möbíusinn, sá var úr færeyskri ull og snarminnkaði á 60°. Hugsanlega er hann orðinn of þröngur til að komast yfir höfuðið? Var ekki eitthvað dularfullt sem gerðist ef maður klippir Möbíusarborða í sundur?

  Svo var ég búin að sjá út að sá dökkfjólublái myndi gera sig prýðilega sem byrjun / neðra lag á húfu, altso yrði sú húfa svona túrbanhúfa, einsog amma átti og sennilega flestar konur af hennar kynslóð. Það þarf hins vegar að impróvísera efri hlutann á þessum Möbíusar-túrban og ég er búin að gleyma hvernig á að hekla (heklið hefur stuðast úr mér) og þarf að læra það upp á nýtt … eða græja þetta með prjóni, sem er sennilega þægilegra.

  Það eina sem ég man úr Stærðfræði AB er Möbíus og Kleinflaska. Sýnir hvað þetta voru hrikalega effektífar bækur, í sinni tíð.

 6. guðrún ritar:

  á einn sem getur hvorki verið húfa né herðaslá er ekki hægt að nota þetta í eitthvað annað.
  hvernig er hugmyndin belti?

 7. Harpa ritar:

  Belti? Hvernig ætlarðu að koma honum yfir herðarnar? Eða mjaðmirnar (minni á ættgengan vöxt, svokallað Bakka-r*)?

  Míns minnkuðu nóg í þvotti til þess að annar passar nú sem hálstau en hinn sem eyrnaband. Prófaðu að sjóða gripinn ;)

  P.s. Bloggynjan er með hálsbólgu dauðans og lítur þess vegna svona rotinpúrulega út, á myndunum …