9. mars 2010

Jósefína horfir á heiminn

Fyrst vill bloggynja taka fram að Möbíusinn úr færeyska ullargarninu smellpassar eftir að hafa farið á 60° straufrítt í vélinni og látið pressa sig. Sjá litlu montmyndirnar sem linka í stærri montmyndir.

Ég innvígði tvær konur í merkisheim Möbíusarprjóns í dag og gekk það ótrúlega vel, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að sjálf þarf ég að hugsa mig um til að vita hvor höndin (á mér) er sú hægri (veit að hin höndin er þá vinstri hönd) og á þess vegna erfitt með að leiðbeina öðrum nema máta allt við mig jafnóðum.

Þótt bloggynja hefði það huggulegt í dag verður ekki það sama sagt um aumingja kattarrófuna! Laust eftir hádegi heyrðist kall mikillar kveinunnar, óps og ýlfrunar; Hafði þá litla ljósið lent í slagsmálum við ótótlegt ógelt fresskvikindi hér úti! Þessi flagari rispaði aumingja Jósefínu í eyrað og stóð kló upp úr hausnum á henni þegar hún kom inn (delinn missti klóslíður!) sem og var feldurinn hennar fagri tættur á einstaka stað. Eftir að hafa gráið hást yfir óréttlætinu og jafnað sig svolítið á teppinu sínu dreif Jósefína sig í vakt-stöðu og hefur af og til kíkt út í rigninguna og slabbið. Heimilisfólk hér telur að litla stýrið hafi hugsað sér að rífa eyrun af helv. fressinu, við fyrsta tækifæri. Bloggynju finnst að mætti rífa af því fleira …

Myndin sýnir Jósefínu horfa á sinn heim og sína baklóð.

Eins og þetta sér ekki nóg upplifelsi fyrir heilan dag í kattarævi … þá vildi svo ömurlega til að eigandi Jósefínu kom heim áðan, útbíuð í hundahárum og lyktandi eins og smalahundur! Auðvitað þarf þessi eigandi að koma sér í sturtu hið bráðasta en sá þó sóma sinn í því að þvo sér umsvifalaust um hendur og skipta út nokkrum fatalufsum; annars væri ólíft í húsinu.

Sem betur fer veit Jósefína ekki ennþá að snoðklippti hundurinn Kubbur er á leiðinni í heimsókn á næstunni. Dýrið er svo mjúkt og snyrtilegt núna að má nota hann sem parkettmoppu. Líklega verður að loka Jósefínu inni í svefnherbergi meðan Kubbur er í heimsókn (svo hún fái ekki taugaáfall) … en svo er auðvitað hætta á að hér verði óíbúðarhæft fyrir eina silkimjúka ráma kisu, heitandi keisaraynjunafni m.m.  …

Myndin sýnir, svo ekki verður um villst, hve kötturinn tónar vel við eldhúsinnréttinguna og einnig hvussu erfitt er fyrir einn kött að nálgast flugurnar skríðandi á eldhúsloftinu!

6 ummæli við “Jósefína horfir á heiminn”

 1. Gurrí ritar:

  Jósefína er æðisleg kisa, hugumstór og gullfalleg!
  Hún gæti jafnvel komið þér á óvart varðandi hundinn. Mínar kisur (Tommi og Kubbur) þola illa aðra ketti og það er ekkert grín að reyna að passa Gunnhildi. En … þegar ég gætti smáhundar í heila viku í fyrra þá voru hlutirnir allt öðruvísi, ekkert hvæst, bara smá fyrirlitning og afskiptaleysi. Hundspottið hreifst mjög af Tomma og reyndi oft að leggjast hjá honum. Tommi færði sig fljótlega, enda lætur sómakær köttur sig ekki hafa það að kúra hjá smáhundi. Hver veit samt hvað hefði gerst ef hundurinn hefði verið lengur í pössun?
  Flottar myndir. Ég dáist að hannyrðasnilld þinni, get svo sem heklað gardínur og slíkt, eða gat, og læt mér núna nægja aðdáun á myndarskap annarra.

 2. hildigunnur ritar:

  ekki smá flottur Möbius - þá veit maður hvað það er…

  Grey kisulóra, andstyggilegt að lenda í svona slagsmálum!

 3. Harpa ritar:

  Mér skilst að hundurinn Kubbur lúti ægivaldi Ása, 6 mánaða fresskettlings, á sínu heimili. Ætla má að hann verði passlega undirgefinn þá hann kemur í heimsókn. Vonandi klórar Jósefína hann ekki umsvifalaust.

  Jósefína virðist haldin almennri kvíðaröskun (tell me about it!) eftir fundinn við fressið illa. Bloggynju líður eins og hún hafi eignast ungabarn á ný … miðað við vælið í nótt! Spurning um að gefa kettinum bensó-lyf á kvöldin? (Þetta ber ekki að taka sem alvöru-uppástungu.)

  Takk fyrir hrósið - vér hannyrðakonur verðum einmitt að hafa slatta af aðdáendum og æskilegt að þeir séu ekki mjög innviklaðir í handavinnu sjálfir ;) Hef ákveðið að bíða með stafrænu hannyrðirnar þangað til ég hef skrifað undir samning við litla góða ráðuneytið … Hver þarf stafræna handavinnu þegar maður hefur Möbíus?

 4. guðrún ritar:

  á einn Möbíus sem passar hvorki á herðar eða háls, er úr færeysku bandi.
  Finnst þér að ég eigi að setja hann í vél?

 5. Harpa ritar:

  Fer eftir því hvort hann er úr tiltölulega hreinu ullargarni eða einhverju Superwash dæmi … Ullarblanda sem má þvo á 40° þæfist ekki í vél. Ég mundi prófa - þú tapar hvort sem er ekkert á því ef hann passar ekki fyrir. En ég ráðlegg að þvo hann ekki með handklæðum … hef þurft að tína hvíta handklæðaló úr mínum.

 6. Harpa ritar:

  Ah … sorrí … ég las ekki kommentið nógu vel … minn var úr Navia bandi en rosalega laust prjónaður og þæfðist þess vegna vel. (Fastprjónað minnkar ekki eins mikið.)