11. mars 2010

Samtíningur

érna áðan (málsgreinin byrjar svona svo ég geti notað upphafsstafinn!) settist bloggynja við tölvu sína og gramsaði hér og þar. Afraksturinn var annars vegar sá að ég fann Stjórn á stafrænu formi; reyndar er upplausnin á myndunum alveg hroðalega lág og kostar mikla vinnu að sansa þær svo hægt sé að lesa eða sjá lýsingu (skreytingu) almennilega. Hannyrðakonur og aðrir áhugamenn geta sumsé farið á Stafrænt handritasafn Árnastofnunar, fundið þar AM 227 fol og smellt á Skoða. Leit á handrit.is og Sagnaneti skilaði aftur á móti engum niðurstöðum. Þrátt fyrir þessa annmarka gleðst ég yfir þó þessum möguleika.

Öllu merkilegra þótti mér að hafa upp á laginu um hana Sonju! Ég hef bara heyrt það með norskum / dönskum texta; “Sonja, Sonja / Stjerneøjne har du / som i mørket brenner i mit sind / alle mine drømmes dronning var du / ? ” … síðar í kvæðinu, eftir að mælandi hefur rekið vin sinn í gegn, endar viðlagið á “Sonja, Sonja, jeg forbanner dig”. Þetta er eldgamalt dægurlag sem amma spilaði flott á sitt Hornung & Møller pjanóforte og söng með. Fyrir mörgum árum komst ég að því að Ólafur frá Mosfelli hafði sungið þennan sniftara, í íslenskri þýðingu, inn á plötu. E.t.v. er það platan sem talað er um hér. Ég þarf að skoða þetta betur.

En sem sagt fann ég lagið um hinu svikulu Sonju, á serbó-króatísku (!). Reikna þar með að þetta blessaða lag sé austur-evrópskt þjóðlag sem á tímabili hafi verið álíka mikill slagari og “Eitt sinn einn ég gekk / yfir Rauða torg” eða “Svörtu augun” eða einhver rússnesk / austur-evrópsk þjóðlög önnur. Soldið undarlegt að læra textann á norsku (dönsku). Héðan má hlaða þessum sorgarsöng niður. Hér má hlusta á útgáfu á You Tube. (Afskaplega róandi að hlusta á þetta meðan maður bloggar.)  Hér er textinn á serbó-króatísku.

Þetta hefur náttúrlega tekið tímann sinn … en guði sé lof fyrir Vefinn!

Annað er svo sem ekki títt nema í áætlun er að kaupa næturljós fyrir köttinn. Já, ég veit að í fornum ritum segir að köttur hafi sjón svo skarpa að hún kljúfi myrkur … þetta hefur Jósefína sagt mér … en þótt Fr. Dietrich kljúfi myrkur með augnaráðinu breytir það ekki því að hún er skíthrædd við sama myrkur. Þess vegna sefur hún jafnan í gluggakistunni í svefnherberginu því handan götunnar skína bæði götuljós og öryggisljós á FVA og er þetta líklega bjartasti gluggi hússins að næturlagi. Maðurinn og ég teljum að annað hvort sé Jósefína myrkfælin að eðlisfari eða hér í íbúðinni sé slæðingur sem aðeins hún verði vör við - af því hún er svo næm, þessi elska. Til að losna við að kötturinn vekji okkur á nóttunni, skelfingu lostinn, er líklegast rétt að nota sama ráð og á myrkfælna krakka.

Ég veit að Jósefínu dreymir um að líta út eins og kattarrófan á myndinni til hægri.

3 ummæli við “Samtíningur”

 1. Trausti Jónsson ritar:

  Ég held að lagið um Sonju sé ekki á plötu Ólafs frá Mosfelli, en mig minnir að hann hafi sungið það og nokkur önnur ámóta lög (e.t.v. Svörtu augun og Við bálið) með mandólínhjómsveit Sigurðar Briem. Sú upptaka hefur þá heyrst öðru hvoru í Útvarpinu. Því miður á ég aðeins Við bálið úr þeirri setu. Sigurður Skagfield söng lagið hins vegar á plötu árið 1930 við undirleik hljómsveitar í Berlín. Lagið var í uppsveiflu um þær mundir. Freysteinn Gunnarsson þýddi textann. Á plötunni er lagið allt, með forsöng, en forsöng vantar gjarnan í nýrri prentuðum útgáfum dægurlaga. Ég á þessa plötu en hef ekki komið henni í stafrænt form. Mig minnir (já, ég hef mjög gott misminni - en minnið er síðra) að Comedian Harmonists hafi einnig sungið lagið, en þeir sungu reyndar annað Sonjulag (mig minnir að það sé ekki það sama). Á plötu Sigurðar er lagið sagt eftir Eugen Párloz (eða öfugt - ungverjar eru með sérvisku í nafnaröð eins og við). Hraðleit á netinu skilar engu fyrir þennan mann - ekki er einusinni víst að hann sé ungverskur eða rétt stafsettur. Maður sem er líklegur til að vita allt um þetta (ekki bara misminna) heitir Ásgeir Guðmundsson og er sagnfræðingur. Hann hefur sérhæft sig í þýskum vinsældalistum millistríðsáranna og tók íslensku nasistana í leiðinni.
  Svo er það með Stjórn, textinn var gefinn út fyrir fjölmörgum árum. Hafir þú ekki lesið hann gef ég honum mín bestu meðmæli, þetta er ekki venjuleg biblíuþýðing, minnir frekar á þá frægu Alexanderssögu sem Karl Guðmundsson las í útvarp fyrir 10 til 15 árum og var endurútgefin skömmu síðar, öllum til ánægju sem lesa vilja. Stjórn er nú ófáanleg - því miður.

 2. Harpa ritar:

  Ástarþakkir fyrir allar upplýsingarnar, Trausti! Ég skoðaði Gegnisfærslu á plötu Ólafs frá Mosfelli og sá ekki að Sonja væri á meðal laganna … nema lagið heiti eitthvað allt annað og mér datt aðeins í hug að Merikanto hefði kannski útsett það … en líklega er rétt að söngur Ólafs sé eingöngu varðveittur í upptöku RÚV. Það væri óneitanlega gaman að eignast söng Sigurðar Skagfield á þessu lagi :)

  Best að lúsarkemba Vefinn í leit að Eugen Párloz ef finnast skyldu nótur einhvers staðar … og e.t.v. hafa samband við Ágúst Guðmundsson. (Þetta gerist samt auðvitað ekki fyrr en ég hef þrifið húsið!)

  Ég hef í rauninni lítinn áhuga á texta Stjórnar en úr því þú hampar honum svo mjög er aldrei að vita nema ég lesi hann. Ég var svona meira að sverma fyrir skreytingunum. Það má hugga sig við að íslenska ríkið á væntanlega höfundarétt á þessu verki og maður er þá bara að snuða ljósmyndarann ef ég nota skreytingar í hannyrðir (stafrænar eða á höndum), Mér finnst höfundaréttur á einfaldri ljósmyndun ríkisstarfsmanns reyndar orka mjög tvímælis, svo ekki sé á það minnst að handritin eru eign þjóðarinnar en ekki þeirra sem hafa lykil að geymslunni í Árnastofnun. Mér finnst einnig til háborinnar skammar að ekki liggi frammi sæmilega vandaðar ljósmyndir af frægustu handritunum okkar, á Sagnaneti eða handrit.is. Sjálf hef ég auðvitað látið höfundarétt sem vind um eyru þjóta þegar ég mynda styttur og steina og birti á Vefnum og leyft frjáls afnot af þeim myndum ef ég hef verið spurð (sem gerist einstaka sinnum en er alger óþarfi að mínu mati).

  Enn og aftur: Kærar þakkir, Trausti. Það er virkilega gaman að fá þennan óvænta fróðleik um Sonju. Ég reyndi aðeins í gær að pikka lagið upp, á pjanófortið, en gekk illa enda gengur mér frámunalega illa að spila án nótna.

 3. Sigurbjörn Helgason ritar:

  Ég á Sonju með Sigurði Skagfield á tölvutæku formi.Get sent það til þín ef þú vilt