Færslur frá 15. mars 2010

15. mars 2010

Dútl um dagana

Vinnufélagi minn spurði mig, áhyggjufullur á svip, hvort ég fyndi mér eitthvað til að gera hér heima. (Kannski er þetta oftúlkun á svip og orðum vinnufélagans … en ég skildi þetta svona.)  Ég skil reyndar manna best að fólk telji vinnu æðsta og hafi áhyggjur af fólki sem ekki stundar slíka og eyðir í hana sinni mestu orku. Enda hefur stór hluti veikindaleyfis farið í að sætta sig við líf án þátttöku á vinnumarkaði (vonandi tímabundna fjarveru).

Málið er samt að mér leiðist alls ekki. Blessunarlega á ég mörg áhugamál og tekst ótrúlega vel að fylla dagana með iðkun þeirra … stundum duga dagarnir ekki í allt það sem mig langar að gera. Hér skal tekið fram að það er einungis rúmur mánuður liðinn frá því mig byrjaði beinlínis að langa eitthvað.

Á hverjum degi þarf ég helst að spila soldið á mitt pjanóforte; sauma í Scheving og hlusta á rás 1; hlusta á tónlist (er núna heit fyrir Vreeswijk-lögum, t.d. þessu); gramsa á Vefnum; lesa (er núna með Þegar kóngur kom í takinu og finnst hún meiriháttar frábær!); prjóna Möbíus (að endanlegri atrennu að herðaslái lokinni taka við tvær peysur sem á að klára) o.fl.. Auk þess þarf ég að fara út að labba einu sinni á dag og hitta eitthvert annað fólk en Atla og köttinn (álitamál hvort þau eru bæði fólk en bæði eru ákaflega skáldmælt).

Þetta vefst svo allt saman svoleiðis að ég hangi á Vefnum finnandi efni sem tengist hinu dótinu. Má nefna að ég fann Sonju-nótur í austurrískri fornbókaverslun og pantaði um helgina, ég datt svo í að skanna allt efnið í Sæmundi fróða Jóns Hjaltalín, til að gá hvort vitnað sé í kanadískan tannlækni um að fótaböð komi í veg fyrir tannpínu. Í Sæmundi fróða er áhugavert efni um Húsapótek og saga hörmunga í tíðarfari, sem ég á eftir að lesa en líst vel á. [Ég fékk svo líka nótur af Sonju sendar frá einum dyggum lesanda og þakka kærlega fyrir þær! Segið svo að borgi sig ekki að blogga! Nú vantar mig varíasjónir Merikantos um Mustalainen, þ.e. Til eru fræ …]

Áhugi á hjálækningum fyrri alda er mikill og má því til sönnunar sýna þetta brot þar sem útlistað er hvernig megi bæta minni. Veit ekki hvort ég prófa uppskriftina einhvern tíma. Líklega er betra að bera þetta undir sinn góða lækni fyrst …

Við minne, Tak salltpetur og mil vel, og meinga við vyn, og dreck þar af, það það mún gióra gott minne.

(Sjá JS 227 8vo, s. 67v á handrit.is.)

Ummæli (8) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf