29. mars 2010

Kvíði

Þeir dyggu lesendanna sem ekki hafa áhuga á geðrænum kvillum sleppi því bara að lesa þessa færslu … mér dettur því miður ekki í hug neitt umfjöllunarefni annað og hef ekki orku í að bögga neinn einstakan (þótt maðurinn hafi bent á að blogg er bögg, í gærkvöldi).

Í lægðinni undanfarið hefur kvíði verið svakalega áberandi. Þetta ástand á lítið skylt við það sem almenningur kallar kvíða, sem er oft nettur neikvæður spenningur fyrir einhverju, fólk kvíðir fyrir, sem kallað er. Nei, kvíðaröskun og ofsakvíði er miklu líkamlegri kvilli og andstyggilegri en “kvíða fyrir”-dæmið. Má t.d. nefna að ég hef verið undarlega dofin vinstra megin, frá höfði og einhvern veginn niðureftir skrokki, í nokkrar vikur. Dofinn er að gefa sig, a.m.k. hef ég öðlast nokkurn veginn tilfinningu í húð. Sé maður koldofinn öðrum megin í andlitinu, finni t.d. illa klip, er það ávísun á hugleiðingar um heilaæxli eða heilablóðfall. Þá verður maður enn kvíðnari og einkennið eykst. Stundum hugsa ég reyndar til þess að ég gæti svo sem vel fengið einhvern alvarlegan sjúkdóm án þess að fatta það því það er tiltölulega einfalt að skrifa allt á helv. kvíðareikninginn ;(   Úr því að dofa-einkenni er að ganga til baka er ábyggilega rétt mat geðsjúklings að þetta var kvíði.

Á föstudagskvöldið síðasta fékk ég svo myndarlegt kvíðakast af nánast fullum styrkleika. Ég náði ekki að sofna heldur birtist sería af æ ógeðslegri myndum fyrir lokuðum sjónunum, hjartslátturinn jókst og herpingur utan um brjóstkassann, með sannfærandi hjartaáfallsverk, og svita sló um mig alla. Ég var skelfing hrædd við allt, frá draugum úr þjóðsögum uppí að nú væri ég að fá hjartaáfall. (Þeir sem reynt hafa skilja þessa klausu mætavel, ég er ekki viss um að aðrir geri það.) Á endanum fór ég á fætur og tók pillu, með miklum semingi því ég er mjög hreykin af því að vera lyfjalaus. Má samt spyrja sig hvort það sé eitthvað til að vera hreykin af? Þegar pillan (tiltölulega saklaus sort, tek ég fram) fór að virka og járnbeislin um brjóstkassann að gefa eftir var það dásamlegur léttir! En ég náði samt ekki að sofna fyrr en um miðja nótt.

Dagarnir síðan hafa verið brogaðir; Annað hvort algert framtaksleysi, sem ég skrifa á þunglyndisreikninginn eða skjálfti, sviti, ógleði og yfirliðakennd, sem passar undurvel við kvíða. Af því ég hef slegist við þessa sjúkdóma, þunglyndi og kvíðaröskun, í meir en áratug afþakka ég pent ódýrar skýringar á borð við gang himintungla eða hugsanlegt breytingarskeið. Sömuleiðis afþakka ég ráð á borð við Bowen meðferð, TFT-meðferð eða lestur bóka sem eiga að gera mig enn hamingjusamari. (Var að skanna nokkrar síður um þessi efni … að mínu viti er þarna verið að auglýsa peningaplokkun sem gefur dítox ekkert eftir.)

Hvað gerir svo geðveik bloggynjan í þessu? Ja, ég gæti náttúrlega skipt út hveiti í spelt; hakkað í mig garðabrúðu, drukkið grænt te, látið fitla smávegis við mig utanklæða, farið með nokkur geðorð eða 100 x æðruleysisbæn o.s.fr.  Í besta falli mundi það draga athyglina frá sjúkdómnum og þar með sjálfkrafa gera hann bærilegri. Svo gæti ég líka prófað sosum eins og eitt nýtt geðlyf … sem myndi væntanlega fara hroðalega í mig út af neikvæðum placebó-áhrifum (nocebo-áhrifum) og ég gæti þá skellt allri skuldinni á lyfjatökuna. Ekki að það myndi samt breyta neinu um líðan, gæti jafnvel gert hana verri.

Sennilega er skást að gera ekki neitt annað en bíða eftir að þetta helvíti líði frá. Ég nota náttúrlega nokkur trix sem ég hef tínt upp á lífsleiðinni, eins og að gera mér vel grein fyrir hvað þetta er og reyna að ná stjórn á öndun eða slaka á með hverjum þeim hugrænum ráðum sem gefast. Ég veit að fólk deyr ekki úr kvíðakasti, sem er auðvitað nokkur huggun. (Á hinn bóginn gætu menn lent í þeirri stöðu að sjá enga færa leið út úr líðaninni svo auðvitað eru þunglyndi og kvíðaröskun lífshættulegir sjúkdómar - ég er ekki að gera lítið úr því þótt ég telji sjálfa mig ekki í mikilli hættu í augnablikinu enda hef ég gott stuðningsnet.) Það er náttúrlega andstyggilegt hve þessi sjúkdómur breiðist yfir sístækkandi hluta ársins en á hinn bóginn hafa alltaf komið góðir tímar á milli. Má hafa í bakhöndinni að byrja einhvern tíma aftur á lyfjum og ég hef þá trú að sé ég lyfjalaus um tíma muni gömul lyf reynast mér vel þegar á þarf að halda.

Það sem virkar sérdeilis illa er heilbrigð skynsemi; Það er ekki nokkur skynsemi fólgin í því að boðefnarugl fokki upp líkamanum svo manni finnist maður vera að deyja! Viljastyrkur virkar jafnilla á kvíðakast og á niðurgang. (Hvet efasemdarmenn til að prófa næst þegar þeir fá magakveisu.) Uppgjöf virkar heldur skár. Sennilega virkar pillubox í skúffu einna best eða pillur í buxnavasa; manni léttir ofurlítið við þá tilhugsun að geta stoppað kastið ef í harðbakkann slær. Sá tilbúni léttir dregur oft það langt að ekki þarf að taka þessi lyf.

Eins og lesendur vita er ég fyrir löngu búin að fá mig fullsadda af (ó)dýrum allsherjarráðum og kvakksalverí. Sömuleiðis fæ ég upp í kok þegar velmeinandi viðmælendur fabúlera um að guð hafi falið mér sérstakt verkefni af því ég sé einmitt manneskjan sem er fær um að höndla það eða að ég eigi ógreidda skuld úr fyrra lífi (það er nú sjaldan sem menn þora að skella þessu síðarnefnda framan í mig en þess fleiri eru á línunni “guð splæsir verkefnum eins og neikvæðu sælgæti”). Svo ekki sé talað um þá staðhæfingu að þessa líðan hafi ég valið sjálf og sé þar með ábyrg fyrir henni. (Yfirleitt eru rökin á þá leið að sérhver geti valið að “lifa í kærleika eða ótta” og ég hafi þá sumsé valið óttann!  Hvílíkt bull - en fólk sem er veikt á geði er skiljanlega útsett fyrir slíkan neikvæðan kærleiksboðskap og ekki ólíklegt að svona áróður ýti verulega veiku fólki fram á ystu brún því fólki er talin trú um að það sjálft hafi valið rangt og nánast útskúfað sjálfu sér, kannski af því það er svo illa innrætt?)

Nei, ég álít að ég hafi erft þetta boðefnarugl í heila alveg eins og ég erfði útstæð eyru og vísitær sem eru lengri en stórutær. (Er doldið ósátt við hvort tveggja ;) )  Við erfðum er ekkert að gera. Aftur á móti get ég reynt að beita skynsemi í því hvernig ég tekst á við þunglyndi og kvíða eða þeirri erfiðu ákvörðun að stundum sé best að gefast upp fyrir þessu og reyna einna helst að sýna langlundargeð.

P.s. Mér til upplyftingar segir yngri sonurinn reglulega, þegar ég er veik: “Hefurðu prófað að fara út að labba?” Þessu fylgir glott. Drengurinn veit vel að labbitúrar gera stundum illt verra, a.m.k. þegar maður er í alvöru veikur (prófið einnig labbitúr gegn niðurgangi!) og æfir því móðurina í pirrandi misskildum ráðum ;)

8 ummæli við “Kvíði”

 1. gua ritar:

  Þeir sem hafa “bestu lausnirnar” fyrir annað fólk eru einmitt fólk sem hefur ekki við stærri vandamál að glíma en hvaða lit það á að velja á sófasettið, það er mín reynsla.

  Og allt þetta sjálfshjálparstöff er einmitt mjög pyngjuléttandi dæmi.

  Kveðjur yfir Flóann með von um skjótann bata gua

 2. Harpa ritar:

  Takk gua :)

 3. Agla ritar:

  Kvíði er andstyggilegur viðureignar!
  Ég fór einhverju sinni í sund í þeirri viðleitni að lækna mig af kvíða. Minnist þess að hafa synt fram og til baka í fullkominni angist og fylgst með sundlaugarverðinum allan tímann, hvort hann væri ekki örugglega tilbúinn að veiða mig upp þegar hjartað gæfi sig! Mikil afslöppun í því….
  Seinna fann ég þó smá hjálp í jógaiðkun.
  Gangi þér vel!

 4. Auður ritar:

  Þakka þér fyrir þetta blogg. Það er stundum gott að vita að maður sé ekki einn í heiminum, þó ljótt sé frá að segja :)
  Bestu batakveðjur.

 5. Jenný Anna ritar:

  Takk fyrir gott blogg um hluti sem fáir geta talað um af skynsemi og reynslu.
  Þekki þetta alltof vel.
  Er þó sloppin í blili.
  Baráttukveðjur.
  Reyndar langar mig að fremja eitthvað þegar fólk segir mér að gera eitthvað af því ég muni hafa svo gott að því.
  Fara í sund, út að labba, taka lýsi.
  Garg.

 6. Sigrún Gunnarsdóttir ritar:

  Sæl Harpa,
  Ég heiti Sigrún Gunnarsdóttir og er náskyld þínum ekta manni, þannig er að Rósa amma hans Atla og Inga mamma mín voru systur. Voruð þið ekki á síðasta ættarmótinu rétt utan við Vík í Mýrdal? En að öðru að þá hef ég öðru hvoru fylgst með bloggi þínu, mér finnst þú svo kjörkuð að tala svona um þína líðan. Maðurinn minn er með geðhvarfasýki þannig að ég kannast vel við þessi einkenni hjá þér. Takk fyrir að gefa okkur innsýn í líðan þína. Gleðilega páska.

  kv. Sigrún og Óskar, Reykjavík.

 7. Arnheiður Tryggvadót ritar:

  Æi, takk fyrir þennan pistil, alltaf svo gott að lesa svona eftir fólk sem talar sama tungumál. Ég hef verið að glíma flest mín fullorðinsár við kvíða og þunglyndi og hef einangrast mjög vegna þessa. Reyni að hugsa um börnin mín og halda áfram en það er stundum erfitt. Stórfjölskyldan hefur snúið baki við mér - það eru svo miklir fordómar og mér finnst ég sífellt vera að biðja afökunar á sjálfri mér.
  Takk fyrir þetta :) Kær kveðja

 8. Arnheiður Tryggvadót ritar:

  Takk fyrir bréfið þitt Harpa, mér þótti mjög vænt um það. Er að spá í að freista þess að adda þér á Facebook :=) Ég ligg yfir blogginu þínu núna og finnst ég hafa verið mjög heppin að rekast inná það.
  Kkv. Heiða