2. apríl 2010

Lááángur föstudagur

Eins og mig grunaði gat ég ekki farið af bæ þrjá daga í röð og sit því heima, með sofandi unglingi og ketti, meðan maðurinn og frumburðurinn frílysta sig í Tungunum (annar hleypur píslarhlaup og hinn sér um myndatöku og heitt te) og svo í Hveragerði. Mér leist engan veginn á að fara með, í morgun.

Laugarvatnsferð (stórfamilíuhittingur) í gær var fín og lukkaðist ljómandi vel. Eins og mig grunaði var ég ekki tæk í spurningakeppnislið en hjálpaði hinum þess meir … við misjafnar undirtektir. Liðið sem ég hjálpaði minnst vann keppnina. Undarlegt!

Á Lv. fletti ég aðeins hamingjubókinni þeirri sem Karl Ágúst og Ásdís Olsen þýddu. Hún virtist ekki nærri eins vitlaus og ég hélt (ákveðin neikvæðni er fylgifiskur kvíða og þunglyndis). Kannski les ég hana einhvern tíma. Akkúrat núna er ég í miðri Hafmeyjunni sem svíkur engan! Kannski er betra að halda sig við morðin og láta hamingjuna eiga sig, svona í miðri dýfu.

Mér líður ósköp svipað og undanfarið. Ógleði og skjálfti er orðinn daglegur fylgifiskur. Sem og hjartsláttur í takt við kattarhjartað, á stundum. Fjölskyldan er sammála um að það sé ótvírætt sjúkdómseinkenni að geta bara borðað fimm konfektmola í röð og svo ekki meir! Enda hrynja af mér kílóin … kvíði er afar grennandi.

Einn dagur í einu er góð lífspeki. Það er aftur á móti hroðalega leiðinlegt að lifa slíku lífi. Ég myndi gjarna vilja skipta yfir í eitthvað annað, væri það í boði. Mér finnst ömurleg tilhugsun að vera kúplað út af vinnumarkaði og úr venjulegu daglegu lífi út þetta árið. Auðvitað veit ég að það er út í hött að spegla sig í vinnu og afköstum; að fólk á að meta líf sitt út frá öðru. Hins vegar er miklu einfaldara að segja þetta heldur en prófa á eigin skrokki og sál. Það tekur mig ábyggilega einhverja mánuði í viðbót að sættast við að lifa einn dag í einu með fáeinum saumsporum, prjóni eða lestri. Ég stend mig ekki á neinu sviði, ekki einu sinni í húsverkum því þau eru mér oft um megn. Það að kúvenda lífskoðun og samþykkja að lífshamingjan er ekki fólgin í að standa sig er helvíti töff! (Þeir dyggu lesendanna sem hafa þurft að gjörbreyta skoðun sinni á lífinu kannast eflaust við þetta en aðrir sennilega ekki.) Það að þurfa að lifa endurskoðuðu lífi vegna sjúkdóms sem ekki sést og er helv. óskiljanlegur er líka ansi töff. Sjálfsagt næ ég þessu á endanum en ferlið er langt.

Ein breyting á lífspeki sem ég þurfti að gera fyrir löngu var að varpa “ekki bera sorgir sínar á torg” fyrir róða. Nú er svo komið að ég ber þær ekki á torg heldur á blogg. Sjálfsagt þykir einhverjum þessi bloggburður ekki við hæfi. Það verður að hafa það.

Planið í dag? Ja, mér líður væntanlega skár eftir þessa bloggfærslu. Hafmeyjan bíður og svo setti ég heimsókn á seinniparts-planið. Um að gera að skríða ekki upp í rúm af því ég sef djöfull illa á nóttunni og uppgjöf á daginn gerir næturnar verri.

6 ummæli við “Lááángur föstudagur”

 1. ásta ritar:

  sæl kæra vinkona ég kom og bankaði upp hjá í dag um 6 leitið og enginn kom til dyra, knús ásta

 2. Harpa ritar:

  Ég fór í heimsókn …

 3. Ragna Sóley Nanna ritar:

  Hæ Harpa mín. Mikið var gaman að hitta þig síðasta fimmtudag og líka alla hina í fjölskyldunni. Nú eru allir að hverfa til síns heima, Einar, Hrefna, Sölvi og Freyja fóru í morgun til Rvk og við förum svo í dag. Eskifjarðarfjölskyldan flýgur svo heim fyrir hádegi á morgun. Í gær fóru Einar og co og Frissi og Sóley inni í Þórsmörk í algjöra ævintýraferð en við hin reyndum að skóla Kristínu í briddsinu á meðan. Við höfum verið dugleg að fara í göngutúra og í sund enda hefur veðrið verið mjög gott.
  Bestu kveðjur til þín og fjölskyldunnar - hittumst fljótt aftur.
  Ragna, Sóley og Nanna Katrín

 4. Harpa ritar:

  Mér þótti líka gaman að hitta ykkur :) Sá á fésbókinni að Kristín telur sig þurfa mikið til að vinna upp ellismellahegðunina (briddsið) …

 5. Þórunn Blöndal ritar:

  Harpa mín. Einhvern veginn datt ég inn á bloggið þitt - gúglaði mig inn á það þegar ég var að leita að einhverjum umsögnum um Þegar kóngur kom - og datt auðvitað oní það líka þegar ég áttaði mig á hvar ég var stödd. Ég sá fljótlega að þú ert í veikindaleyfi og ekki alhress. Þótt ég sé á sama vinnustað og Freyja systir þín þá hitti ég hana ekki mjög oft svo ég hafði ekki hugmynd um þetta. Nú á ég á bara eina ósk þér til handa - sem sé þá að þú öðlist aftur fyrra afl og orku og getir aftur tekið til við það sem þér finnst skemmtilegast að gera. Skrifin þín eru mjög hressileg og skemmtileg og vonandi veit það á gott. Góðan bata - ég hugsa til þín.

 6. Harpa ritar:

  Hæ Þórunn

  Takk fyrir góðar bataóskir! Viskum vona að ég komist einhvern tíma upp úr þessari fokkings djúpu helvítisgjá. Orka og afl eru handan sjóndeildarhringsins og málið er einfaldlega að lifa af einn dag í einu. (Ég er orðin gasalega æfð í því.) Ég kemst ekki til vinnu á þessu ári en e.t.v. eitthvað á því næsta, ef guð lofar.