13. apríl 2010

Skýrslan og heilsan

Nú þverbrýt ég eigin bloggreglur og blogga um “ástandið í þjóðfélaginu”, þ.e. skýrsluna frægu. Ég las slatta í þessari skýrslu í gær, á Vefnum því ég held að það sé miklu þægilegra en lesa hana á pappír. Þetta er svoleiðis plagg.

Þótt blá-pólitískir karlmenn heimilisins hefðu fyrirfram tuðað gegn skýrslunni, annars vegar með þeim rökum að málfar og framsetning yrði örugglega hörmung, hins vegar voru rökin að þetta hefði hvort sem er allt komið fram áður, tók ég ekki mark á þeim og skoðaði sjálf. Mér finnst framsetning, mál og stíll alveg til fyrirmyndar! Því fer fjarri að reynt sé að kasta ryki í augu lesenda með moðreyk og fimbulfambi.  Og þótt jafnvel tiltölulega sljóu fólki eins og mér hafi verið fullljóst að ýmsir, aðallega belgdir karlar í jakkafötum, væru ódó kom það á óvart hversu ótrúlega ósvífnir og siðblindir þessir gaurar voru, þegar grannt var skoðað.

Auðvitað vona ég að sem flestum “útrásarvíkingum” (þetta eru náttúrlega frekar “útrásarliðleskjur” enda litlir karlar sem fannst gaman að berast sem mest á, sjálfsagt út af innbyggðri minnimáttarkennd, nokkurs konar Bör Börssonar - gott ef þeir klíndu ekki vellyktandi sápu í hárið á sér) fái kost og logí á ríkisins kostnað, sem lengst. Sennilega verður dýrt að passa þá, svona álíka dýrt og að gæta barnaperra í fangelsum landsins.

Svo finnst mér að froðusnakkurinn forsetinn ætti að sjá sóma sinn í að segja af sér. Þótt Vigdís hafi gefið tóninn með endalausri þjóðrembu og alls kyns misskildum málfarsáróðri þá gekk Ólafur Ragnar svo miklu miklu lengra. Mætti halda að Ísland hefði verið land hinna einu sönnu Aría, a.m.k. hinna genetískt fullkomnu víkinga [!]*,  á útrásartímunum. Vonandi verður helv. erfitt fyrir karlinn að sitja áfram á Bessastöðum, nema hann bregði yfir sig búrku og þegi á mannamótum. Nema vanti efni í fleiri grínleikrit …

Eftir að hafa lesið athugasemdir Davíðs, sem voru eitthvað hátt í  10 síður af skítkasti út í mann og annan og síðan 1-2 síður af máttlausum athugasemdum og eftir að hafa hlustað (með kettinum) á umfjöllun RÚV um skýrsluna í gær hef ég tilkynnt manninum að nú eigi hann að segja upp mogganum sínum. Þótt mér finnist sunnudagskrossgátan skemmtileg er hún ekki þess virði að bera inn á heimilið snepil sem Bör stjórnar. Þótt ég hafi samúð með fólki sem glímir við geðræn vandamál er ekki þar með sagt að ég vilji kóa með slíku liði, nema það leiti sér hjálpar. Og þótt ég elski auðvitað manninn eru takmörk fyrir hvers konar drasli honum leyfist að spreða út um mitt heimili!

Af heilsu er það að frétta að ég hef ákveðið að byrja að eta pillur við kvíða. Er fullkomlega sátt við það enda ástandið óbærilegt og eitthvað verður að gera. Í tannlæknaheimsókn kom í ljós að verkir og helaumt tannhold hefur ekkert að gera með ástand tanna og tannholds. (Mig grunaði það en vildi síður fá slæma tannrótarbólgu bara af því ég hefði skrifað allt á kvíðareikninginn.) Skv. blóðprufu er ég stálhraust. En rúm 10 kg hafa hrunið af mér síðan í janúar og kílóarýrnun er enn í fullum gangi … reikna með að ég brenni eins og maraþonhlaupari þótt ég sitji meira eða minn kjur. Kvíði er afar grennandi kvilli. Og ég vil gjarna vera doldið kynþokkafull fyrir manninn og ekki hafa það að hann stingi sig á beinum.

Kvíðanámskeiðið er bókað og fastsett, byrjar í næstu viku. Við skulum vona að það gagnist sem mest. (Ég veit að sumt af þessu verður helv. vont og erfitt en með illu skal illt úr reka.) Ómetanleg ofsakvíðaæfing verðar tónleikar sem ég ætla að sækja á föstudagskvöldið. Svo ekki sé minnst á hve sálumessa er einmitt holl fyrir mig núna … allar þessar bænir um eilífan frið hljóta að draga langt.

* Hér tók ég út tilvísun í nasista af því ég get fallist á það að of langt sé gengið með að tengja þjóðrembu Íslendinga við þá illu menn. Aftur á móti er hluti hugmyndafræðinnar alls ekki ólíkur, hafi menn áhuga á því má benda á bók Arthúrs Björgvins Bollasonar, Ljóshærða villidýrið. Má einnig benda á forsíðumynd sérrits Mbl. frá 2006 þar sem Björgólfur Thor sést með firmamerki sitt í baksýn, sem er einmitt stílfærður Þórshamar, sjá http://this.is/nei/?p=72  En þetta kann náttúrlega allt að vera tóm tilviljun …

11 ummæli við “Skýrslan og heilsan”

 1. gua ritar:

  Mogginn fór út af mínu heimili um leið og DO fór þar inn, var reyndar að lesa bók eftir hann í gær og verð að segja að hann er skárri rithöfundur en pólitíkus.

  Ertu að fara á HAM námskeið, ég fór á svoleiðis námskeið fyrir 4 árum og líkaði vel, þetta er svona eins og verkfæri en hvursu fær maður er að beita þeim er annað mál.

  Sammála þér með kvíðalyfin alger björgunarhringur þegar verst lætur.

  Bestu kveðjur gua

 2. Máni Atlason ritar:

  Andmælin hans Davíðs eru það besta sem ég hef lesið í skýrslunni hingað til. Og það geta varla talist “máttlausar athugasemdir” að benda á það að samkvæmt lögum og reglum var bankastjórn Seðlabankans beinlínis bannað að gera flest það sem rannsóknarnefndin vildi að hún hefði gert, svona eftir á að hyggja!

  Annars skil ég ekki alveg hvernig hægt er að draga þá ályktun af skýrslunni miklu að hinn stóri sökudólgur í málinu sé Davíð Oddsson, mér sýndist niðurstaðan einmitt vera að hann hefði ekki gert nein stór mistök og að hann hafi ítrekað varað við ástandinu en ekki hafi verið hlustað. Svekkelsi fjölmiðlamanna yfir þessu leyndi sér ekki í gær og þeir hafa reynt að blása smávægilegar athugasemdir við störf Davíðs upp eins og þeir geta.

  Eflaust gerði hann mistök eins og allir aðrir hafa samkvæmt niðurstöðu nefndarinnar gert, og menn geta þá velt því fyrir sér - ef allir leikendur í kerfinu gera mistök, hvort er ástæðan hverjir leikendurnir eru eða vegna þess hvernig kerfið er? Trúir því í alvörunni einhver að ef Seðlabankastjóri hefði verið Hallgerður Efemusardóttir MA í hagfræði og sérstakur áhugamaður um náttúruvernd og femínista, þá hefði atburðarrásin hér verið eitthvað öðruvísi? Að skrifa þetta hrun á að Jón og Gunna hafi verið við stjórnina en ekki Steini og Olli er bara flótti frá raunveruleikanum.

  Aðalatriðið er að bankarnir fóru á hausinn vegna þess að eigendur þeirra tóku of mikla áhættu og lánuðu megnið af fé bankanna til sinna eigin fyrirtækja sem gátu ekki borgað til baka. Meðan bankar eru þannig reknir geta allir heimsins seðlabankar, fjármálaeftirlit og hvaða önnur stjórnvöld sem mönnum dettur í hug ekkert gert til að þessir sömu bankar séu lífvænleg fyrirtæki. Alveg sama hvort stjórnendur þeirra heita Ben Bernanke, Davíð Oddsson eða Jean-Claude Trichet…

  Og á meðan bankar njóta ríkisábyrgðar og eftirlitsaðilar stjórnvalda gefa þeim gæðastimpilinn “Hér er allt í lagi” munu þeir alltaf geta gírað sig upp úr öllu valdi reglulega.

 3. Máni Atlason ritar:

  Vel að merkja hafði Morgunblaðið í dag algjöra yfirburði yfir fréttablaðið hvað varðar umfjöllun um hrunskýrsluna. Myndskreyting, framsetning og textinn sjálfur var margfalt betri hjá Morgunblaðinu. Maður fær heilmikið fyrir peninginn.

 4. Harpa ritar:

  Gua: Já, námskeiðið sem ég fer á er nokkurs konar HAM. Hef áður reynt HAM hjá sálfræðingi en var of veik og þurfti að hætta. Maðurinn minn hvatti mig mjög til að taka bara helv. Rivotrilið og rökstuddi með tilvitnun í Hávamál: Ósvinnur maður / hyggst munu ey lifa / ef hann við Rivotril varast … eða þannig. Ég geri þetta náttúrlega í samráði við minn góða og klára lækni. Árangurinn kom strax í ljós og nú hef ég aftur öðlast líf.

 5. Harpa ritar:

  Máni minn: Davíð var ekki “stóri sökudólgurinn”, til þess er hann einfaldlega of mikið peð. En þáttur hans er töluverður. Og auðvitað er erfitt að standa frammi fyrir því að helstu átrúnaðargoðin eru skíthælar eins og ég reikna með að ungir sjálfstæðismenn fái að upplifa á eigin kroppi þessa dagana. Ópólitískri kvenmannsdruslu finnst næstum Árni Johnsen vera heiðarleikinn holdi klæddur miðað við ungu (eða not svo ungu) jakkafatagaurana!

  Sem málamiðlun á heimilinu hef ég fallist á að lesa moggann mannsins áfram og henda honum ekki beint í ruslið þegar hann berst. Ég reikna líka með að téður Davíð dvelji í leyfi í útlöndum næsta árið a.m.k., svo hann þurfi ekki að tala við fjölmiðlafólk. Svoleiðis að hann stýrir varla sneplinum mikið á meðan (ef hann hefur þá einhvern tíma unnið eitthvað við það … var staðan ekki bara leið til að koma manninum einhvers staðar fyrir til að lágmarka skaðann af honum?).

  Kannski geta Davíð, Þorgerður Katrín, Bjarni Benediktsson o.fl. stofnað sjálfshjálparsamtök með Björgólfi Thor, Jóni Ásgeiri o.fl. í London? Og unað sér við 12 spora vinnu næstu árin?

 6. Máni Atlason ritar:

  Skil ekki þetta skíthælatal og mér finnst það barnalegt og vitlaust. Ef fólk ætlar að trúa því að hér hafi skollið á kreppa vegna þess að í einhverjum störfum voru svona menn en ekki hinsegin þá er viðbúið að hér komi kreppa með reglulegu millibili næstu áratugina. Gagnrýni sem ég hef séð á Davíð hefur verið sú að hann sé frekur, hann sé lítill, hann sé í jakkafötum, hann hafi ekki skrifað nógu mörg minnisblöð, hann hafi ekki beitt “úrræðum Seðlabankans” (sem eru ekki til) og að hann hafi einkavætt bankana svona en ekki hinsegin - svona eins og hann hafi stjórnað því starfi. Já og svo var frasinn “Seðlabankastjóri er ekki með masterspróf í hagfræði” vinsæll um tíma meðan Davíð gengdi því starfi, þegar í bankastjórn seðlabanka sátu tveir hagfræðingar og einn lögfræðingur. Enginn virðist þó sjá neitt athugavert við að rannsóknarnefnd þingsins, sem er skipuð einum hagfræðingi og tveimur lögfræðingum, úttali sig um bankastjórn Seðlabankans, ríkisfjármál og peningastefnu.

  Nú galar fólk hvert upp í annað að hann standi sig svona og hinsegin á Mogganum en segir í hinu orðinu að það lesi sko alls ekki Moggann - en veit þó allt um það hvernig Davíð stendur sig þar!

  Það getur vel verið að Davíð sé pirrandi og fari í taugarnar á fólki og ég veit ekki hvað og hvað. Það verður þá bara að hafa það, það er samt miklu frekar vandamál þess pirraða en þess sem pirrar held ég…

 7. Harpa ritar:

  Er Davíð lítill? Pólitískur mótherji minn sem ég er gift hefur árum saman reynt að sannfæra mig um að Dagur sé lítill … en af því ég hef hvorki séð Davíð né Dag með jarðfræðihamri á mynd get ég ómögulega dæmt um þetta. Mér finnst samt ljótt (hvort sem hann er lítill eða ekki) að hafa ekki aðalhagfræðing Seðlabankans, Arnór Sighvatsson, með í stórákvörðunum og láta þann síðarnefnda frétta tímamótaákvarðanir 5 mínútum áður en þær birtast sem frétt á vef Seðlabankans. Eftir því sem skönnun á skýrslunni skilur eftir er að svona virðast vinnubrögð Davíðs. Enda er hann svo mikill snillingur að hann þarf ekki að ráðfæra sig við aðra, þrátt fyrir prófleysi í hagfræði. Ég er voða fegin að hafa ekki þurft að vinna með svona köllum um ævina.

  Aftur á móti er ástæðulaust að pexa um Davíð, hann er ekki það stórt númer (reyndar smápeð, eins og ég hef áður nefnt, en doldið útbelgt peð, vissulega). Ætli hann endi ekki með einkablogg eins og Jónas Kristjánsson, starfsbróðir hans, eða þessi geðveika bloggynja? Bloggið er grundvöllur okkar hrjáðu og smáðu ;)

 8. Harpa ritar:

  Menn hafa áður þurft að skipta um skoðun á útrásarvíkingum sinna tíma; Sjáðu bara alla nasistana sem dýrkuðu austurríska útrásarvíkinginn (sem var einmitt frekar stuttur í annan endann) eða vesalings stalínistana. Svo ég vorkenni stuttbuxnadrengjum nútímans ekki neitt. Það er hollt að skipta um skoðun.

 9. Máni Atlason ritar:

  Það er alltaf ósmekklegt að líkja andstæðingum í pólitík við nasista.

 10. Harpa ritar:

  Hugmyndafræði útrásarvíkinganna og þjóðernissósíalíska verkamannaflokksins er ekkert voðalega ósvipuð þótt blessunarlega hafi framkvæmdin verið ólík. Lá við að menn syngju “Ísland Ísland über alles” á tímabili. Yfirburðum íslenskra bankakalla var hampað, t.d. í málflutningi forsetans, og þessir “ungu” vösku menn voru eins kona elíta sem byggði á fornum arískum arfi, þ.e.a.s. víkingastöffinu öllu saman. Í Þýskalandi nasismans héldu menn einmitt á lofti sömu gildum og eignuðu sér óspart íslenskan menningararf máli sínu til framdráttar.

  Eftir að hafa horft á vesalings stjórnmálamennina í sjónvarpinu í gær, sérstaklega hinn háa karlmannlega þykkkjálka flokksbróður þinn, og séð þá engjast eins og orma á öngli og koma sér undan því að hafa vitað, getað gert eitthvað eða yfirleitt verið í einhverjum takti við atburðarásina legg ég til að þessu liði verði kastað út hið fyrsta og nýir menn settir í staðinn. En augljóslega ætla stubbarnir að hanga á sínum djobbum til frambúðar.

  Hef ekki orð um forsetann … málflutningur hans skýrir sig sjálfur.

  Fer Dabbi ekki að koma heim - eða komast í farsímasamband?

 11. Máni Atlason ritar:

  http://eyjan.is/blog/2010/04/15/utrasarvikingum-gerdir-utlaegir-af-almennum-borgurum/ þessir minna meira á gyðinga en á nasista á tímum nasismans…

  Það er líka alltaf jafn mikið í anda réttlætisins og virðingar fyrir skoðunum náungans þegar er talað um að “nýir menn verði settir” í staðinn fyrir þá sem hafa verið kjörnir!

  Davíð kemst ekki heim, það liggur allt flug niðri.