10. maí 2010

Geðdeildir og fordómar í tilefni glæsilegs viðtals

Aldrei þessu vant horfði ég á Ísland í dag (hef annars fyrir reglu að forðast umgengni við fyrirtæki sem Jón Ásgeir og familía eiga) - tilefnið var viðtal við Láru K Brynjólfsdóttur, sem ég frétti af af einskærri tilviljun. Í stuttu máli sagt fannst mér Láru (sem ég þekki ekki neitt) mælast einstaklega vel en það setti að mér hroll við sumar lýsingarnar, eins og að sjálfsvígskandidötum sé fleygt í fangaklefa hafi þeir ekki tímasett sjálfsvígið á skrifstofutíma! Á hvaða öld lifum við?

Ég hef enga reynslu af B-gangi 33 C en rengi hennar frásagnir alls ekki - kannast auk þess við sumt annað sem hún lýsti eins og t.d. afskiptaleysi hjúkrunarfólks og áhugaleysi þótt ég hafi einstaka sinnum dvalið á annarri deild. Auðvitað á þetta alls ekki við um alla en því miður suma. Mín reynsla er líka hreint ekki eins krassandi og reynsla Láru … var meira sem áhorfandi að gutli í vinnunni, sem á þeim tíma snerti mig ekki sérlega mikið. Eftir á séð er samt undarlegt að aðalsamskiptin og aðalþerapían á geðdeild skuli hafa verið sjúklinganna á milli og jafnvel sjúklinganna sjálfra að leiðrétta ranghugmyndir starfsfólks.  Mætti bera þetta saman við kennslu:  Einstaka kennara er skítsama um nemendur en langflestir reyna sitt besta til að skila hverjum og einum nemanda aðeins áleiðis, sumir kennarar leggja á sig ómælda vinnu til þess. Sama finnst mér að ætti að gilda um hjúkkur á geðdeild, jafnvel aðra starfsmenn einnig. Í kennslu er návígið það mikið að þeir kennarar sem nenna ekki vinnunni sinni hrökklast nú oftast úr starfi. Veit ekki með geðdeild.

Mjög lýsandi dæmi, að mínu mati, er þetta sem Lára skrifar á bloggið sitt:

Hérna er ein gullinn settning sem starfsmaður spítalans sagði við mig daginn eftir sjálfsvígtilraun mína   : þegar fávitum fer að fjölga í kringum þig er þá ekki komin tími til að líta í eigin barm:  Þetta er ástæðan fyrir því að mér finnst að fagaðilar eigi að vinna á spítala, þessi einstaklingur sem lét þessi orð frá sér hefur ekkert lært um geðræn vandamál en vinnur samt hvað nánast með okkur sjúklingunum….. þarna er hann að gera lítið úr mér og mínum sjúkdóm.” (Sjá “Það sem betur má fara”, 09. maí 2010 klukkan 14:17, http://girlinterrupted.bloggar.is/gagnasafn/2010/05/)

Frasinn “Þegar fíflunum fjölgar í kringum mann er kominn tími til að líta í eigin barm” er einmitt einn af þeim vinsælli í nafnleyndu alka-samtökunum. Einhvern tíma heyrði ég (kann að vera rangt) að starfsmenn á geðdeild mættu ekki hafa legið á geðdeild áður. En það er kannski kominn tími til að setja einnig þau skilyrði að starfsmenn hafi ekki farið í áfengismeðferð til að tryggja að ófaglærðir (og faglærðir) séu ekki að sinna geðsjúku fólki út frá eigin talibanatrúboðshugsjón eða þeirri einu lífsleikniaðferð sem þeir hafa lært (góð aðferð við alkóhólisma, meðvirkni meðtalin, en gagnast náttúrlega ekki á alla aðra sjúkdóma!). Ég hef það nefnilega á tilfinningunni (er kannski svona paranojuð og þá búin að vera lengi) að sumt staffið á geðdeild sé óhóflega hallt undir alkafrasa og að AA-hugmyndafræðin leysi allan vanda.

Til samanburðar: Finnst einhverjum eðlilegt að starfsmaður kvensjúkdómadeildar segði eitthvað álíka við konu sem hefur misst fóstur, er vart mönnum sinnandi og segir ýmislegt vanhugsað í þeirri hugaræsingu? Af samanburði (enda hef ég talsverða reynslu af hvoru tveggja) er líðanin enn verri í þunglyndi og kvíða og auðvitað ætti maður að gera ráð fyrir að starfsmaður á geðdeild stæði sig eins og manneskja en ekki eins og frík, undir slíkum kringumstæðum. 

[Sem minnir mig á að mig hefur undanfarið blóðlangað að segja við næsta AA mann sem kvartar undan kvefpest: Ja, þú hefur bara ekki unnið sporin nógu vel!  En þetta er náttúrlega útúrdúr og sýnir eingöngu tíkarlegt innræti bloggynju ;) ]

Það sem ég man skást af síðustu geðdeildarvist var að eftir hræðilega helgi, þar sem mér leið ólýsanlega illa en hélt fésinu því mér er illa við að gráta fyrir framan aðra og fékk margar heimsóknir þessa helgi, var það samdóma álit staffsins, aðallega hjúkrunarkvenna ef ég man rétt  (á einhverjum mínímalískum fundi) að mér hefði bara hreint liðið prýðilega og verið kát og hress þessa helgi. Só möts fyrir innsæið í sjúkdóminn eða bara þekkingu byggða á reynslu. Ég man að mér þótti ég algerlega svikin og efaðist náttúrlega um eigin geðheilsu (kannski rétti staðurinn til þess, ég viðurkenni það); Af hverju leið mér eins og mig langaði að deyja þegar sérmenntaða fólkið taldi mig káta og hressa? Vantaði bara að það segði að það væri ekkert að mér! Þegar ég andmælti þessu samdóma áliti var eins og málið væri að láta mig éta andmælin ofan í mig … í minningunni er þetta eins og ég væri orðin króuð af úti í horni, gott ef ekki upp við þvottavél, og læknirinn spurði hvort ég teldi mig betur geta metið eigið hugarástand en sérmenntað starfsfólk! Ég fór auðvitað að hágráta þegar ekki einu sinni hann trúði mér! Núna, þegar ég skrifa þetta, finn ég hvað ég er ennþá ofboðslega reið en á þessum tíma gat ég auðvitað ekki borið hönd yfir höfuð mér, nema kannski með tíkarlegu sparki undir beltisstað, sem ég iðraðist síðar mjög.

Svoleiðis að nú vil ég allt til vinna til að lenda ekki inn á geðdeild. Það er brjálæðislegur hávaði í sjónvarpi þar alla daga, bækurnar eru í alvöru við það að grotna í sundur og það er alveg satt sem Lára segir að læknir eða sálfræðingur sinnir manni svona 5 mínútur á dag en annars geta sjúklingarnir bara átt sig og reynt að hafa hver ofan af fyrir öðrum. Margar konur eru betur settar því þær geta þó prjónað en karlarnir verða bara að ráfa stefnulaust um. Fönduraðstaðan á minni deild fólst einkum í því að mála á gifs-styttur og var opin eitthvað um 2 tíma á dag nema þegar föndurkonan var veik. Þarna er engin sérstök batadagskrá í gangi, fræðsla um geðsjúkdóma eða uppbyggingarstarf  nema örsjaldan (prestur einu sinni í viku, tónlistarþerapía í mýflugumynd o.s.fr.) Sem betur fer reyki ég og það bjargaði dögunum að fara út til að reykja. Geðdeild er í rauninni afar reykingahvetjandi. Hápunktar dagsins voru matartímar (það er a.m.k. eitthvað um að vera) en því miður er spítalamatur nánast óætur.

Ég lagðist fyrst inn á geðdeild 1998, á A-ganginn á deildinni sem Lára lýsir, og þar var akkúrat sama sagan þá. Þannig að ég held að afskiptaleysi gagnvart sjúklingum, jafnvel hunsun, hafi ekkert með fjárveitingar að gera. Í lok síðasta árs sýndist mér að geðdeildin hin væri það vel mönnuð að starfsfólk væri álíka margt, jafnvel fleira, en sjúklingarnir.

Það sem kannski gæti lagað geðdeildir einna mest er að starfsfólkið lærði (t.d. á námskeiðum) að bera virðingu fyrir sjúklingunum, byggða á þekkingu á geðsjúkdómum. Sjúklingarnir völdu nefnilega ekki að vera svona veikir eða geta ekki hagað sér eins og Dorrit í teboði alla daga. Alveg eins og kennarar eiga að sýna nemendum virðingu byggða á skilningi þótt þeir séu á einhvern hátt fatlaðir eða ekki námsmenn par excellance. Ég vorkenni hjúkkum ekki neitt að sýna sjúklingum umhyggju og alúð, frekar en kennurum að vera almennilegir við nemendur sína. Báðar stéttir eru menntafólk en það að hafa klárað nokkur ár í háskóla gefur fólki ekki leyfi til að niðurlægja skjólstæðinga sína, hvorki á spítölum eða í skóla.

Af mér er annars það að frétta að mér batnar ekki hætis hót af hinu nýja kraftaverkalyfi … en úr því það á að vera svona mikið kraftaverkalyf er best að fullreyna áður en því er hent. Marga daga líður mér djöfullega. Ég er t.d. örugglega alltof veik til að höndla geðdeildarvist í augnablikinu. Aftur á móti er talsverður ávinningur af kvíðanámskeiðinu sem ég sæki einu sinni í viku, þar læri ég margt nytsamlegt en er ekki nærri nógu dugleg að æfa mig milli tíma. Leiðbeinendur á því námskeiði eru yndislegir og klárir og skipulagðir og tala aldrei niður til nokkurs þátttakanda.

Og svo er ég byrjuð að skoða grískar eyjar og strendur og ferjusiglingar milli staða og svoleiðis … Það er ljúft!

4 ummæli við “Geðdeildir og fordómar í tilefni glæsilegs viðtals”

 1. Fyrrum geðsjúklingur ritar:

  Sæl Harpa

  Þetta voru dapurlegar lýsingar hjá henni Láru en ég efast ekki um sannleiksgildi þeirra því ég hef svipaða reynslu sjálf þó það hafi verið á öðrum tíma. Það er mjög erfið staða að vera í að þurfa að nýta sér þjónustu geðdeildar. Þegar ég lagðist þar inn (sjálfviljug) þá fór ég þar inn með þær ranghugmyndir að þar væri unnið faglega og markvisst.

  Ég var mjög meðfærileg, hélt mig til hlés og vildi ekki láta neinn hafa nokkuð fyrir mér. Það breytti því ekki að fordómarnir voru áberandi og eins og Lára lýsir þá fékk ég líka að hlusta á niðrandi tal starfsfólks um sjúklingana. Þegar ég var nýkomin inn þá herjaði á mig sjúklingur á deildinni sem var með mjög miklar ranghugmyndir og ég fór því að halda mig inni á herbergi og átti lítil samskipti við annað fólk til að byrja með.

  Starfsfólkið ákvað í alvisku sinni hvað væri í gangi hjá mér, ég væri bara svona rosalega ófélagslynd að eðlisfari og það var ekki fyrr en eftir þónokkurn tíma að einhverjum datt í hug að ræða við mig og komast að því að ég var að flýja áreitið frá þessum manni. Ég var svo stjörf á þessum tíma að ég hafði ekki vit á því að gera eitthvað gagnvart áreitinu sjálf annað en að loka mig af. Það var nú einu sinni ekki að ástæðulausu að ég var komin þarna inn.

  Eftir drjúgan tíma á deildinni þá nálgaðist yfirmaður deildarinnar mig til að tilkynna mér að ég væri komin með annan lækni. Ég var búin að vera að hitta einn lækni deildarinnar í nokkur ár áður en ég lagðist inn. Þessi tiltekni læknir kjaftaði í fjölskyldumeðlim (sem hafði verið að beita mig ofbeldi í mörg ár og var líklega aðalorsök þess að ég var á þessum stað í lífinu) atvikum sem ég hafði klárlega sagt honum í algjörum trúnaði. Í stað þess að gangast við afglöpum sínum og biðja mig afsökunar þá sendi hann boð til mín í gegnum millilið og vísaði mér til enn verri læknis.

  Ein hjúkkan sem sinnti okkur á því tímabili sem ég var þarna var svo uppdópuð sjálf að það kom fyrir að hún var að útdeila svefntöflum til okkar rétt fyrir kaffi. Karlkyns starfsmaður á deildinni var ítrekað gripinn við það af skjúklingum að hann var að læðast inn á herbergin til að fara í gegnum eigur sjúklinga. Að einhver fari svona á bakvið mann og maður fái ekki að hafa sínar einkaeigur í friði er mjög truflandi og veldur miklu óöryggi, ég fékk martraðir um það á meðan ég lá inni að þessi maður kæmi inn í herbergi til mín, fyrst til að leita í dótinu mínu og svo til að leita á mér sofandi. Það er bara algjört rugl hvað er í gangi á svona stöðum.

  Ég lét bjóða mér þetta því ég var ekki í ástandi til annars og hélt að annað væri ekki í boði en mér varð þó ljóst einhvers staðar í framhaldinu að inn á geðdeild geta fæstir farið til að fá hjálp, því vanhæfnin og virðingarleysið er svo yfirgengilegt. Ég tók þá ákvörðun um að útskrifast gegn læknisráði og það er ein besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu. Þegar hún var tekin þá var það þó meira vegna hálfgerðrar örvæntingar því ég hélt að ég væri eitthvað meira en lítið rugluð að geta ekki nýtt mér geðdeildina til einhvers konar bata. Það var löngu síðar sem ég áttaði mig á því að það var ekki ég sem var aðal vandamálið í vanlíðan minni gagnvart “meðferðinni”, heldur reksturinn á deildinni sjálfri.

  Alls staðar þar sem sett er upp kerfi til að sinna fólki sem geta af einhverjum ástæðum illa eða ekki borið hönd yfir höfuð sér er full ástæða til að vera mjög vel á varðbergi. Ég sá ítrekað að réttmætri gagnrýni var svarað með dylgjum um andlegt ástand viðkomandi og fólk er ekki í aðstöðu til að tækla svoleiðis níð þegar það er innritað sem sjúklingar inni á geðdeild.

  Eftir að ég útskrifaðist þá fór ég heim og lagðist í hýði í ár (sem innihélt m.a. eina sjálfsvígstilraun) en svo komst ég í almennilega meðferð, sem er ekki lengur aðgengileg, þar sem komið var fram við mig eins og jafningja og manneskju. Þar voru góð úrræði fyrir fólk til iðjuþjálfunnar og endurhæfingar og það varð til þess að ég hef verið án geðrænna kvilla síðan (í yfir 12 ár), þ.e. fyrir utan það sem telst eðlilegt, depurð þegar aðstæður eru þannig o.þ.h.

  Jæja, fyrirgefðu langlokuna, ég hef lesið skrif þín núna lengi og hrífst af baráttu þinni því ég sé að þú ert vel “heil” manneskja og tæklar þín vandamál af aðdáunarverðum heiðarleika. Einn besti félagsskapur sem ég hef komist í voru hinir sjúklingarnir á geðdeildinni því fólk sem hefur verið í okkar stöðu veit flest ef ekki allt, eins og við, að við erum öll verð jafn mikillar virðingar og umhyggju en okkur er bara ekki öllum úthlutað aðstæðum til að þrífast af alvöru. Og þegar við áttum okkur ekki sjálf á því hvaða leið við eigum að fara og við gerum mistök í blindni okkar þá er það langversta sem hægt er að gera að sparka í liggjandi manneskju. Við þörfnumst bara leiðsagnar yfir á gjöfulli grundir!

  Ég vonast til að sjá áframhaldandi skrif og baráttu fyrir þínum tilverurétti, sem ætti þó auðvitað að vera sjálfsagðari en hann er í dag. Gangi þér vel.

  FG

  (E.s. Sú starfsemi sem ég held að líkist einna mest þeirri meðferð (mannvirðing og þekking) sem gagnaðist mér sem mest á sínum tíma er í dag held ég hjá Hugarafli.)

 2. Harpa ritar:

  Takk fyrir ummælin! Ég er sammála því að mesta gagnið af geðdeild sé að kynnast hinum sjúklingunum og læra jafnvel ráð og annað af þeim. Mér finnst leiðinlegt hve andrúmsloft og meðferð á geðdeildum hefur breyst ótrúlega lítið á mörgum árum, miðað við þína frásögn. Kannski eru fordómar í garð geðsjúkra hvergi meiri en hjá starfsfólki svona deilda?

 3. Hrönn Sig ritar:

  Ég sá þetta viðtal við Láru og fannst hún vera sérdeilis sterk að fjalla um sjúkdóm sinn á opinskáan og einlægan máta.
  Það sem stakk mig mest var einmitt þetta - að vera stungið í fangaklefa ef þú reynir sjálfsmorð utan hefðbundins skrifstofutíma!! Ömurlegt í hinu svokallaða velferðarþjóðfélagi.

  Svo flissaði ég upphátt og mæli með því að þú stingir þessu með tólfspora vinnunna að næstu hornös í flokki AA.

  Það kannski afhjúpar mest mitt tíkarlega innræti :)

 4. Harpa ritar:

  Stundum er ómetanlegt að hafa tíkarlegt innræti! :)