17. maí 2010

Kardimommu-vörnin

Í Kardimommubænum yfirheyrir Bastían bæjarfógeti einn ræningjanna, stendur svo upp og tilkynnir eitthvað á þessa leið: “Já, en hann segist vera góður!”  [Því miður get ég ekki flett upp í Kardimommubænum því verkamaður heimilisins er farinn að sofa og bókin er geymd inni í því herberginu …]

Kannski halda menn að sérstakur saksóknari sé jafn góður og hinn bláeygi Bastían? Halda mattadorarnir og jafnvel ofbeldismenn að þeir séu sjálfir Kasper eða Jesper eða Jónatan? (Bloggynju sýnist t.d. að Björgólfi Thor finnist nóg að “skila Soffíu frænku heim” og þá sé málið dautt …)

Það er a.m.k. doldið skondið að sjá hvern meinta glæponinn eða dæmda glæponinn halda eindregið fram sakleysi sínu í fjölmiðlum; gæsluvarðhald, fangelsi, stefnur og fréttir um siðlausar peningagjafir eru víst allar bara misskilningur. Jafnvel ofbeldi sem á sér nánast ekki hliðstæðu er blásið af og yfirlýst sem misskilningur!

Dæmi um útgefin aflátsbréf á ýmsu formi eru hér á eftir, reyndar dálítið handahófskennt úrval, sem byggðist helst á skásta leitarmöguleikanum, en ætti að gefa nokkra mynd af týpískum meintum glæpamanni, dæmdum eða ódæmdum,  sem “didn’t do it … wasn’t there”.  Ég ímynda mér þessa menn ekki eins og þá indælu ræningja í Kardemommubæ heldur frekar eins og þeir vilja lýsa sér, sjá myndina til hægri …

„Ég er ekki kynferðisbrotamaður og ég er ekki þetta skrímsli sem verið er að lýsa,” segir Bjarki Már Magnússon í samtali við DV í dag. (Til samanburðar er fróðlegt að renna yfir málavexti neðarlega í Hæstaréttardómnum hér.)

“Hr. Jóhannesson hyggst verja sig af fullum krafti gegn ásökunum Glitnis Banka og endurtekur sakleysi sitt gagnvart þessum fölsku staðhæfingum sem lagðar hafa verið fram.” (Yfirlýsing frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni [titill fréttar].)

Magnús Guðmundsson segist saklaus (fréttinni fylgir yfirlýsing Magnúsar).

Björgólfur Thor vill ljúka skuldauppgjöri með sóma (fréttinni fylgir yfirlýsing Björgólfs Thors).

Jón Sigurðsson: Ég hef engin lög brotið.

Lárus Welding harmar málsókn skilanefndar (fréttinni fylgja bútar út yfirlýsingu Lárusar).

“Pálmi Haraldsson, oft kenndur við Fons, hótar að stefna Steinunni Guðbjartsdóttur, formanni slitastjórnar Glitnis, persónulega vegna stefnu slitastjórnar Glitnis á hendur honum…” (úr þessari frétt - einhverjir bútar úr yfirlýsingu Pálma).

Endursögn á lokum Kardimommubæjarins er svona: “Í fangelsinu líkaði rœningjunum svo vel, að þá fór að langa til að gerast heiðarlegir menn . . . Í lok leikritsins kemur svo í ljós hvernig þeir fá tœkifœri til að vinna mikla hetjudáð í Kardemommubœ og eignast marga og góða vini. Allir fá rœningjarnir vinnu við sitt hœfi og eru þeir að lokum orðnir heiðarlegir menn.” (Sjá “Kardemommubærinn - leikrit á hljómplötu“, á Wikipedíu)

Einhvern veginn held ég að þeir náungar sem vitnað er í hér að ofan turnist ekki eins og þeir Kasper, Jesper og Jónatan. Ekki heldur aðrir sem ég sleppti að nefna, ekki einu sinni konur sem hafa óvart brúkað morð fjár, frá “saklausum” eiginmanni eða sem “styrki” í prófkjörsbaráttu o.s.fr. Einhvern veginn held ég að þessu liði sé ekki viðbjargandi. Þótt það haldi því endalaust fram hversu saklaust og hjartahreint það í rauninni sé og hafi meira að segja selveste Bubba með sér í liði ;)

P.s. Ég kvótaði færsluna í flokkin “Geðheilsa” en aldrei þessu vant er ég ekki að efast neitt um eigin geðheilsu þegar ég hugsa um efni færslunnar.

5 ummæli við “Kardimommu-vörnin”

 1. Hrönn Sig ritar:

  Assgoti ertu góð!! Þetta er með betri færslum sem ég hef lesið lengi!

 2. Einar ritar:

  Er Eva Joly Soffía frænka? Verður henni rænt?

 3. Harpa ritar:

  Úr því þú nefnir það, Einar, þá held ég að hún Eva ætti að passa sig vel en hún er norsk og kann náttúrlega Kardimommubæinn út og inn og ætti því að vera vel undirbúin.

  Annars tékkaði ég þá verkalúsin var farin í vinnuna og Bastían segir þetta hvergi orðrétt (í bókinni) en aftur á móti finnst honum ræningjarnir mjög góðir (eftir að þeir hafa baðað sig og farið í klippingu) og að í rauninni séu öll þeirra afbrot mjög skiljanleg þegar þeir útskýra þau. Vona að okkar fyrrum sýslumaður sé ekki jafn góðtrúa. Enda voru gæjarnir vel klipptir og baðaðir þegar þeir hrifsuðu til sín milljarðana.

 4. Freyja systir ritar:

  Myndu ekki útrásarvíkingar fljótlega skila Evu Joly (eins og Soffíu frænku)?

 5. Harpa ritar:

  Jú, ég hugsa að þeir myndu ræna henni aftur og skila henni heim … mjög fljótlega!