4. ágúst 2010

Um geðveiki

Mér varð hugsað til þunglyndis og kvíða, aðallega af því ég var að tala um slíkt núna áðan og af því ég var að fá þær góðu fréttir að kraftaverkalyfið nýja virðist ekki skemma mína góðu lifur og af því ég hraðlas Truntusól í gær og af því ég lenti í smá umræðum um hugtakið truntusól við ungling heimilisins þá hann kom af næturvakt núna í morgun.

Truntusól er afbökun á lyfjaheitinu Tryptizol (sem er svokallað þríhringlaga geðdeyfðarlyf en þau lyf eru með elstu geðlyfjunum … lyfið kom á markað 1961 en hugsanlega er lyfjaheitið tryptizol yngra). Sjálf tók ég þetta lyf um tíma, þá gegndi það nafninu Amilín, en ég held að nú sé búið að taka það af skrá hér á landi. Reynsla mín af Amilín var ekki góð en reyndar er reynsla mín af geðlyfjum almennt slæm uns kraftaverkalyfið kom á markað nú nýverið.

Truntusól er líka bók eftir Sigurð Þór Guðjónsson, útg. 1973 en segir frá reynslu höfundar af geðdeildarvist árið 1970. Bókin er kölluð skáldsaga en er svona álíka skáldsaga og endurminningarbækur Þórbergs Þórðarsonar, nema Sigurður varð að breyta öllum nöfnum persóna til að bókin fengist gefin út.  Ég las þessa bók í denn og hef sennilega verið að lesa hana í þriðja sinn í gær. Þetta er rífandi skemmtileg bók og góð lýsing á þunglyndi og kvíða. Höfundur er undir sterkum áhrifum af Þórbergi og það fer náttúrlega eftir ást manna á slíkum frásagnarhætti hvort þeir lesa allt eða skruna yfir hástemmdar lýsingar í þórbergskum anda ; ) Sjálf hafði ég meira gaman af einlægum köflum í skertari skrúðstíl.

Í samtali við ungling heimilisins kom fram að Megas hefði samið texta um truntusól. Það vissi ég ekki en ég er náttúrlega álíka lítill aðdáandi Megasar og Þórbergs. En það gladdi mig mjög að unglingurinn hefur þó tekið almennilega eftir í áföngum sem honum þóttu skemmtilegir :)   Ég tékkaði á texta Megasar, ljóðið heitir Paradísarfuglinn og má sjá brot úr því hér … en í því segir m.a.: “Þeir gáfu henni truntusól og tungl / og tróðu hana út með spesstöðluðu smæli”. Textinn fjallar um stúlku sem “gjörðist veik á geði”.

Brotið úr Paradísarfuglinum fékk mig til að spá í hvort Megas héldi að lyfið væri einhvers konar læknadóp - sem það er alls ekki. Það er algengur misskilningur enn þann dag í dag að þunglyndislyf  séu vímugefandi. Ég hvet þá sem svo telja til að verða sér út um svoleiðis pillur og reyna að selja þær … held að markaðurinn sé enginn. Texti Megasar birtist fyrst 1977 og því miður hefur álit fólks á geðlyfjum breyst alltof lítið síðan þá.

(Mér finnst við hæfi að punta þessa færslu með Ópinu hans Munch. Svo hvet ég áhugasama til að lesa frumlega túlkun á myndinni, sjá föstudagssvar Vísindavefjar við spurningunni “Af hverju er karlinn að hrópa á myndinni “ópið”? Hvað gerðist svona hræðilegt?” Kannski hefði karlinn haft gott af truntusól en því miður var ekki búið að finna lyfið upp á tímum Munch.)

Talandi um geðveiki og lækningar þá sá ég að sænska sjónvarpið ætlar að sýna þátt kl. 18 (að ísl. tíma), sá heitir Uppdrag granskning - sommarspecial (líklega læknisfræði fyrir pöpulinn) og í kvöld er einmitt fjallað um raflækningar, “Ikväll: Patienter vilseledda om riskerna med ECT - elbehandlingar inom psykiatrin.”  Hugsa að ég horfi á þáttinn.

Ég hef tvisvar farið í raflækningar. Í fyrra sinnið gerðist kraftaverk og ég varð frísk í eina þrjá mánuði. Að vísu tapaði ég tveimur árum úr minni en náði að læra slatta af minningum með því að skoða myndasöfn og lesa bloggið mitt. Í seinna skiptið tapaði ég aftur tveimur árum og því miður batnaði mér ekki hætis hót.

raflækningarFordómar almennings í garð geðsjúkra og í garð geðlyfja eru umtalsverðir. Það er þó hjóm eitt miðað við fordómana þegar kemur að raflostum / raflækningum. Enda byggja margir eingöngu á Gaukshreiðrinu án þess að átta sig á því að sú mynd gefur algerlega skakka mynd af geðlækningum enda höfundur bókarinnar á endalausum LSD-trippum. Úr því ég minntist á Megas er rétt að nefna Bubba líka (þótt hann verði reyndar seint talinn “póstmódernískt skáld”, ætla ég að vona!).  Bubbi samdi hið ódauðlega lag og texta “Stórir strákar fá raflost“, útg. 1982. Lagið er fínt en textinn alger steypa. Ekki hvað síst vegna botnlausra fordóma í garð geðlækninga sem kristallast í honum.

(Það er eiginlega dálítið merkilegt að þessir trúbadúrar tveir, Bubbi og Megas, skuli báðir velja sér kvenkyns persónu þegar þeir fara að fjalla um geðsjúkan einstakling. Stúlkan í Paradísarfuglinum er nafnlaus en allir vita að hjá Bubba er það “Lilla”, sem er “orðin ær” og leggst inn á geðdeild. Ætli þeir séu að koma í veg fyrir að vera tengdir geðsjúkdómum sjálfir?)

Raflækningar hafa tíðkast gegn svæsnu þunglyndi í bráðum 70 ár. Á Íslandi voru skiptar skoðanir um ágæti þessarar aðferðar; Karl Strand, sem varð yfirlæknir á geðdeild Borgarspítalans þegar hún opnaði 1957, var hlynntur notkun raflækninga og þær voru því brúkaðar þar. (Sjá viðtal við hann í Mbl. 25. 6. 1993.) Fyrir þann tíma tíðkuðust einnig raflækningar, t.d. á Farsóttahúsinu (sjá frétt frá 1953 um þetta) og, að ég hygg, fyrir norðan. Aftur á móti var Helgi Tómasson, yfirlæknir á Kleppi, eindregið á móti raflækningum (sjá árás á hann í Mánudagsblaðinu 11. janúar 1954), hvers vegna veit ég ekki. En ég vorkenni sjúklingunum á Kleppi sem ekki fengu þennan séns út af tiktúrum yfirlæknisins. Ef allt um þrýtur er skárra að þiggja þessa meðferð en lifa við óbreytt ástand, þrátt fyrir aukaverkanir (minnistap - alla jafna er það tiltölulega lítið en ég var sérlega óheppin, að venju).

Sem geðsjúklingur er ég afskaplega þakklát fyrir að vera uppi á þessum lyfjaþróunartímum. Það sem mér finnst hins vegar merkilegt er hve fordómar fríska fólksins gagnvart svona sjúkdómum eru lífsseigir. Ég er handviss um að slæmt endurtekið þunglyndi og kvíði eru arfgengir sjúkdómar og í rauninni ekkert dularfyllri en sykursýki eða kransæðaþrengingar. Samt er það svo að ég verð hvað eftir annað vör við þá skoðun fólks að veikindin séu að einhverju leyti sjálfskaparvíti, þ.e. að sjúklingar kalli þau yfir sig sjálfir, væntanlega með syndugu líferni og óhreinu hjarta …? Og þegar kemur að læknisráðum er sama fríska fólkið andsnúið þeim og telur jafnvel að geðsjúklingar séu að gadda í sig dóp alla daga (væntanlega af syndugri fíkn). Þetta er ótrúlegt!

M.a. út af þessu dáist ég að bók eins og Truntusól því hún gefur þokkalega raunsæja mynd af því hvernig er að þjást af geðsjúkdómum. Mér finnst það afrek af tæplega hálfþrítugum manni að skrifa svo góðan texta og einstakt að hafa komið bókinni í útgáfu árið 1973.

2 ummæli við “Um geðveiki”

 1. gua ritar:

  Ég las Trunntusól á sínum tíma og fannst hún svona hálfgerð opinberun, ekki síst fyrir það að einhver þorði að tala um geðsjúkdóma á svo opinskáan hátt.

  Tók aldrei trúanlega þennan skáldsögustimpil fannst það liggja í augum uppi að maðurinn hefði gengið í gegnum þessar hremmingar sjálfur.

  Og ótrúlegt að fáfræðin skuli ennþá vaða uppi núna á 21 öld og að fólk skuli þurfa að þjáðs vegna þess.

  Til hamingju með nýja lyfið og gangi þér allt í haginn.

  mbk.gua

 2. Harpa ritar:

  Horfði á sænska þáttinn og þar var mikill harmagrátur, allt svo jobbigt og tråkigt (kann að vera rangt stafsett) o.s.fr. Sænskir geðlæknar eru greinilega hið versta fólk og plata mann og annan í raflækningar án þess að gefa almennilegar upplýsingar. Ég er glöð yfir að skipta við íslenska geðlækningarbatteríið og verð að segja að þótt ég hafi verið svona óheppin með minnistap er óþarft að grenja yfir því, það gat enginn vitað fyrirfram. Auk þess sem ég hef yfirleitt verið það veik að ég skipti glöð á tveggja ára minningum og þriggja mánaða fríi frá þessum andstyggilega sjúkdómi!