28. ágúst 2010

Hjálmar, Karl, hinir karlarnir og kirkjan; Ég gefst upp!

Ég var að hugsa um að blogga um Hjálmar Jónsson, sem hvíþvær sig í viðtali í mogganum í gær, og Karl biskup sem hvítþvær sig í mogganum í dag … ekki í venjulegu viðtali heldur einhverju sem mogginn kallar “burðarvital”. Það er vissulega þung byrði að lesa það viðtal svo nafngiftin er ekki alveg út í hött, í þessum snepli sem berst hér á heimilið í vanþökk mína.

En svo sé ég að mér núna. Einkum eftir að hafa lesið frásagnir kvenna í DV núna áðan. Mér er um megn að hugsa meir um þessi mál. Þótt ég hafi a.m.k. tvisvar á ævinni kynnst mönnum sem voru að ná sér niður eftir að hafa haldið sig vera Guð í mestu maníunni hef ég aldrei kynnst þeirri ofurtrú á sjálfum sér sem finna má í þessum viðtölum; þessir menn hafa m.a. vald yfir sannleikanum. Það að halda áfram að sveigja sannleikann til löngu eftir að menn eru komnir út í horn, upp að vegg … að bakka eitt hænufet í einu en neita samt að viðurkenna snitti fyrr en menn eru beinlínis neyddir til þess er ekki í samræmi við minn skilning á iðrun, hvað þá yfirbót. Þessir menn næðu ekki langt í sporavinnu því þeim er um megn að viðurkenna vanmátt sinn.

Það sem er skelfilegast er að nú staðhæfa þeir báðir að þeir hafi allan tímann trúað Sigrúnu Pálínu og fleiri konum. Hvernig geta þeir sagt þetta og fundist ekkert að því að hafa bara staðið hjá vegna þess að yfirmaður þjóðkirkjunnar, sem var sakaður um þessi hryllilegu brot, var frekja eða nýkominn af fundi þar sem var klappað fyrir honum? Sá sem velur að þegja yfir glæpsamlegum verkum vegna meðvirkni er samsekur.

Hvernig getur fólk í þjóðkirkjunni setið messu hjá sr. Hjálmari eða sr. Pálma eða sætt sig við Karl Sigurbjörnsson sem æðsta mann þjóðkirkjunnar?  Hvernig getur fólk leitað til sálusorgara innan kirkjunnar nútildags hafandi þessa menn sem fyrirmynd, ekki árið 1996 heldur í viðtölum 2010?  Hvernig er það hægt?

Ég segi ekki að ég verði beinlínis þunglynd á að hugsa um þetta. En kvíðinn blossar upp og kemur m.a. fram í mikilli reiði og hringspólandi hugsunum, sem er afskaplega óhollt fyrir mig. Samt stend ég algerlega utan við þetta mál. Það gleðilega er að ég get dáðst að þeim konum sem aldrei hafa hvarflað og að þeim konum sem nýverið hafa komið fram og sagt sögu sína. Þær eru hetjur! Án þess að kasta rýrð á aðrar dáist ég mest að Sigrúnu Pálínu, Guðrúnu Ebbu og Stefaníu Þorgrímsdóttur.

Mín eigin sáluhjálp á undir því að ég hætti að velta þessu fyrir mér. Best að snúa sér að meinlausum morðsögum, hannyrðum, píanóspili eða öðrum jákvæðari umhugsunarefnum en málefnum þjóðkirkjunnar.

15 ummæli við “Hjálmar, Karl, hinir karlarnir og kirkjan; Ég gefst upp!”

 1. Margrét ritar:

  Þú ert góður stílisti og gaman er að lesa pistla þína. Ég er alveg sammála þér í þessu máli. Sagði mig úr þjóðkirkjunni 1980 og hef aldrei sé eftir því. Er kristin en þarf ekki á kirkjunni að halda.

 2. Einar ritar:

  Tek undir hvert orð.

  Ég sagði mig sjálfur úr þjóðkirkjunni fyrir rúmu ári og er utan trúfélaga, enda trúleysingi.

  Maður er algjörlega orðlaus að horfa upp á kattarþvott þjóna kirkjunnar í ýmsum viðtölum og á bloggi.

  Og að horfa upp á æðsta mann kirkjunnar segja í viðtali í Kastljósi á dögunum að hann trúi ekki dóttur Ólafs, sem sagði hann hafa misnotað sig.
  Algjör hetja að koma fram og segja frá þessari ömurlegu reynslu sinni sem barn. Og biskup Íslands segir svona í sjónvarpinu.

  Eigi hann skömm fyrir !

 3. ragnhildur ritar:

  Það gætir léttrar hysteríu í þessum skrifum. Það ríkir trúfrelsi á Íslandi og enginn er neyddur til að sækja kirkju, jafnvel ekki dauður. Það geta því allir sofið rólegir, enginn er dreginn yfir logandi kol til að hlýða á Guðsorð.

  Það eru ekki margir sem efast um að Sigrún Pálína hafi orðið fyrir óskemmtilegri reynslu af hálfu sr. Ólafs, en eftir hverju er hún að sækjast? Hún talar um að hafa viljað koma í veg fyrir að aðrar konur þyrftu að ganga í gengnum slíka reynslu. Eftir að hún kom fram með ásakanir sínar 1996 hafa þessi mál verið í opinni umræðu. Alþingi tók þetta upp og í framhaldinu voru kirkjunni veittar lagaheimildir til að takast á við slík mál. Samkvæmt því tókst henni þá að ná tilgangi sínum. Að því undanskildu að engin lög geta komið í veg fyrir að slíkir atburðir gerist, hvorki innan eða utan kirkjunna.

  Það að hún er enn að og nú búin að finna nýja sökudólga í málinu er þó umhugsunarvert. Til hvers að sækjast eftir “sættum” við einhvern sem hefur misnotað tiltrú þína? Sættir við sr. Ólaf! Var einhver ástæða til að sættast við sr. Ólaf? Svokallað sáttaskjal er nú gert að einhverskonar sönnunargagni um óheilindi þessara tveggja manna sem flæktust ínn í málið. En þar sem sr. Ólafur hafnaði alfarið að undirrita skjalið þá skiptir engu máli hvort skjalið innihélt fleiri eða færri orð. Sáttagjörð er samkomulag deiluaðila. Án undirskriftar er engin sáttargjörð enda felst í orðinu sátt að um frjálst val er að ræða. Annars kallast það kúgun.

  Það mætti ætla á umræðunni, og þá er geðshræring þín ekki undanskilin, að hér byggi trúaðasta þjóð í heimi. En ef umræðan er skoðuð þá er eitthvað allt annað upp á teningnum. Umræðan er öll í einum hrærigraut. Tregatogsbleðlar eins og DV seljast grimmt vegna gægjuþarfar fólks sem hefur ekkert annað að gera en að lepja upp sálarkreppur annarra og reyna að gera þær að sínum. Svo eru þeir sem ætla að nýta sér málið til að klúfa kirkju frá ríki og þá eru þeir líka til sem hafa gert vantrú að sínum trúarbrögðum. Ástæður femínista eru svo kapituli útaf fyrir sig.

  Hefur þú gert upp við þig í hvaða flokk þínar skoðanir falla?

  p.s. Flottur þessi blómabekkur sem þú skreytir bloggið með.

 4. vilhjálmur ritar:

  Væri ekki rétt að fara niður í Fíladelfíu ? Þar snýst um að ná sem mestum peningum út úr auðtrúa fólki.

 5. Harpa ritar:

  Þú hefur nokkuð til þíns máls, Ragnhildur; Það gætir vissrar hysteríu í þessum skrifum. Enda hef ég ákveðið að blogga ekki meir um þetta mál því að mér setur hroll í hvert sinn sem ég hugsa um það, ekki hvað síst þegar ég sé hve viðbrögð sömu stétta virðast óhugnalega keimlík 1996 (þá sögu rakti ég í næstsíðustu færslu, sjá http://harpa.blogg.is/2010-08-24/biskupar-prestar-kirkjan-og-folkid-landinu/). Ég les sjaldan tregatogsbleðilinn sem þú kallar svo og er því ekki komin með neitt sigg á sálina þegar sálarkreppur fólks ber á góma, öllu heldur sálarmorð.

  Ég sé ekki alveg hverju þú ert að svara í upphafi komments … það er ekki hægt að lesa það út úr færslunni minni að fólk sé þvingað til að sækja kirkju, er það?

  Alþingisumræðan sem þú vísar til var utandagskrárumræða að beiðni Kvennalistans. Hún er fljótlesin, sjá http://www.althingi.is/altext/120/03/l14133249.sgml, enda fáir sem tóku til máls, flestir slógu um sig með farvegs-frösum og þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddssyni, tókst að komast hjá því að svara því sem hann var spurður um. Fjarvera þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, Þorsteins Pálssonar, er eftirtektarverð. Og umræðan snérist ekki um “biskupsmálið” heldur almennt um kynferðisafbrotamál … kannski helst um kynferðislegar áreitni á vinnustað.

  Ég er engin sérstök málpípa Sigrúnar Pálínu enda þekki ég hana ekki neitt. Mér heyrðist þó í Kastljósviðtali við hana að hún væri fyrst og fremst að sækjast eftir sátt við kirkjuna sem stofnun. Í slíkri sátt fælist að kirkjunnar menn gerðu hreint fyrir sínum dyrum.

  Hvaða flokki ég tilheyri? Ja, ég hef alltaf rekist frekar illa í flokkum ;) Svo ætli ég tilheyri ekki fyrst og fremst mér sjálfri.

  Takk fyrir hrósið um útlitið. Kjörorðin eru ekki síðri og má fá Gúgúl frænda til að þýða tilvitnunina í Kazantzakis.

  Vilhjálmur: Takk fyrir tillöguna. Ég er ágætlega sett eins og undanfarin 30 ár+, með því að hafa mína trú í friði.

 6. Þorgerður ritar:

  Góður pistill - Sammála öllu
  Skil ekki hversu miklar gufur Íslendingar eru að nenna ekki að segja sig úr kirkjunni (held það sé leti eða sinnuleysi hjá brjálæðislega mörgum)

 7. caramba ritar:

  Málflutningur kirkjunnar manna og verjenda/fulltrúa hennar eins og ragnhildar hér að ofan einkennist af settlegri hræsni. Eftir hverju er konan að sækjast? spyrja þeir hver um annan þveran, ekki enn lausir við kennimannlega þóttasvipinn. Sigrún Pálína lýsti því reyndar vel og skörulega í eftirminnilegu Kastljósi þar sem hún kom fyrir sjónir sem óvenju heilsteyptur og hugrakkur einstaklingur með ríka réttlætiskennd og ábyrgðartilfinningu gagnvart stofnun sem hún enn, merklegt nokk, hefur taugar til. Maður skyldi ætla að kirkjan þyrfti á slíkum safnaðarbörnum að halda og fagnaði þeim. En hún hefur ekkert lært og engu gleymt. Að opin umræða hafi verið um þessi mál síðan 1996 eru augljós ósannindi. Skjaldborg var slegin um biskup af þáverandi ritstjórum Morgunblaðsins og öðrum valdhöfum í þjóðfélaginu uns ljóst var að fall hans af stallinum var óumflýjanlegt og jafnvel þá var alið á grunsemdum um persónu hennar, geðheilsu og hvatir. Eftir hverju er hún að sækjast! Það er ekki fyrr en kirkjan lærir að skammast sín, játar það hreinskilningslega og iðrast í sekk og ösku sem hún á nokkra von um að vinna traust og tiltrú á ný.

 8. Sigmundur Guðmundsso ritar:

  Það er annað mál sem við ættum öll að kynna okkur og það er ráðning
  tengdasonar biskupsins í embætti sóknarprests í London fyrir nokkrum árum.

  Fyrir þetta var biskupsembættið dæmt fyrir brot á jafnréttislögum. Síðar var
  embættið dæmt til greiðslu skaðabóta í sama máli.

  Morgunblaðið fjallaði ítarlega um þetta mál á sínum tíma. Það var reyndar
  áður en Davíð Oddsson gerðist ritstjóri.

  Fyrir dómi hélt biskupinn því fram að hann hafi ekki vitað að tengdasonurinn
  hefði ætlað að sækja um embættið.

  Þetta er athyglisvert í ljósi þess að sama dag og staðan var fyrst auglýst, barst
  biskupsstofunni umsókn frá áðurnefndum tengdasyni sem þá var búsettur í London.

  http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=258896&pageId=3619579&lang=is&q=tengdasonur+biskupsins

  Þrátt fyrir að tengdasonurinn hafi sótt um starfið skipaði Karl Sigurbjörnsson dómnefndina.

  Ísland er YNDISLEGT land !!!!

 9. Einar ritar:

  Ég vil benda á í sambandi við síðasta komment að Kalli biskup vék sæti þegar tekin var ákvörðunin um ráðninguna á Sigga presti í Lundúnum og tók Bolli þáverandi vígslubiskup ákvörðun um hver skyldi ráðinn. Breytir því þó ekki að allt annað er rétt, kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði að ekki hefði verið staðið rétt að málum og neyddist síðar til að greiða skaðabætur minnir mig.

 10. ragnhildur ritar:

  Upphafskommentið, Harpa, vísar til þess að þú undrast að fólk sæki kirkju hjá mönnum eins og sr.Hjálmari, Pálma eða Karli. Ég endurtek enginn er neyddur til að sækja kirkju á Íslandi. Fólk sækir kirkju af því að það hefur þörf fyrir að trúa. Þessir prestar koma til móts við þarfir þeirra.

  Trúarþörf verður ekki skilin frá manninum, enda honum jafn eðlileg og að nærast. Stundum er jafnvel talað um andlega næringu í þessu samhengi. Sumir trúa á guðinn Jehova, aðrir á Krist. Svo eru þeir sem trúa á Allah, Budda og alla þá félaga á meðan enn aðrir trúa á mátt kvenna. Eitt sinn trúðu menn á kommúnismann en nú eru stórir hópar (og hugsanlega þeir sömu) sem trúa á umhverfisguðinn. Nokkurra ára gömul könnun, taktu nú eftir Vilhjálmur, frá Pew Forum sýnir að Hvítasunnusöfnuði, sem eitt sinn var aðeins jaðarfyrirbæri, vex nú fiskur um hrygg (http://pewforum.org/Christian/Evangelical-Protestant-Churches/Pentecostal-Resource-Page.aspx). Hálfur milljarður manna tilheyrir nú þessari kirkju. Þetta er ekkert smá sé miðað við aðra trúarhópa í heiminum. Það er því óþarfi að hæðast að Hvítasunnusöfnuðum

  Það sem þetta segir okkur er að trúarþörf manna hefur síður en svo dvínað á þessari öld upplýsingar sem við teljum okkur lifa á. Hver og einn reynir að skapa sinni sérstöku trú rými. Ég er ekki að dæma það, hins vegar finnst mér lágkúra felast í því persónuníði sem felst í árásum á presta sem héldu að þeir væru að gera gott, en fá nú bágt fyrir.

  Sigrún Pálína er óhamingjusöm kona, því hún getur ekki rifð sig upp úr eigin eymd; er vanmáttug til að lífa eðlilegu lífi. Hún varð fyrir trámatískri lífsreynslu sem hún getur ekki unnið úr. Allir kraftar hennar beinast að ásökunum á aðra, en með því dýpkar hún aðeins eigin skaða.

 11. Harpa ritar:

  Ég er alveg sammála þér um trúarþörf, Ragnhildur. Ég er hins vegar ekki sammála um að það felist persónuníð í að benda á að prestarnir brugðust flestir, ekki hvað síst Hjálmar (sem starfaði reyndar sem alþingismaður á þessum tíma) og Karl. Það gerir þeirra stöðu verri að halda áfram að bregðast núna.

  Þú þekkir greinilega Sigrúnu Pálínu persónulega. Það geri ég ekki og á því erfitt með að meta meinta óhamingju hennar. Mér fannst hún reyndar afar heilsteypt kona og dáðist að því hve vel hún virtist hafa unnið úr þessari ömurlegu lífsreynslu, í Kastljósviðtalinu.

 12. hildigunnur ritar:

  Ég skil Sigrúnu Pálínu vel að koma með þetta upp aftur núna í kjölfarið á því að dóttir Ólafs kemur með ásakanir á pabba sinn. Á henni var nánast framið mannorðsmorð þegar heil risastór og virt stofnun í þjóðfélaginu dregur orð hennar í efa og hæðst var að henni opinberlega fyrir að koma fram með sitt mál á sínum tíma. Það er ekkert skrítið að fólk verði ekki hamingjusamt upp úr því.

  Það hæðist enginn að henni núna, við verðum bara að vona að þessi uppreisn æru hjálpi henni, en það er meira en að segja það að öðlast frið eftir slík ósköp sem hún hefur lent í.

  Skil ekki ennþá kommentið með að það sé enginn neyddur til að sækja kirkju, það hélt því enginn fram - ég undrast eins og Harpa að fólk skuli hafa geð í sér til að sækja sáluhjálp til þessara manna en mér dettur ekki í hug að það sé neinn að neyða viðkomandi til þess.

 13. caramba ritar:

  Ummæli ragnhildar hér að ofan lýsa óvenjulega rætnu og meinfýsnu hugarfari. Hún þekkir greinilega ekkert til Sigrúnar Pálínu persónulega. Gildir það annars um allan þann fjölda kvenna sem nú segja frá samskiptum sínum við biskup að þær séu óhamingjusamar og geti ekki “rifið sig úr eigin eymd”? Hvað veit rægitungan um þessar konur?

 14. Ingunn ritar:

  Hver er þessi Ragnhildur eiginlega?

 15. Harpa ritar:

  Einhver doldið í mínus, held ég, úr því hún skrifar nafnið sitt með tómum lágstöfum. Eða svona ofurkristilega hógvær … hvað veit ein vesöl bloggynja?