31. ágúst 2010

Reyna geðsjúklingar of mikið?

Yfirdrifin samúð“Þunglyndi er ekki merki um veikleika, það er merki um að þú hafir reynt að vera sterk/ur allt of lengi. Settu þetta sem status hjá þér ef þú þekkir einhvern sem hefur, eða hefur sjálf/ur glímt við þunglyndi. Ég þori - þorir þú?”

Þetta er fésbókarstatus sem sást hjá mörgum á dögunum. Ég veit ekki af hverju fólk át þetta upp hvert eftir öðru, líklega af samúð með okkur geðveika fólkinu. Það er ansi misskilin samúð og sjálf vildi ég gjarna vera laus við samúð af þessu tagi. 

Þunglyndi er alls ekki ”merki um að þú hafir reynt að vera sterk/ur allt of lengi”. Þunglyndi er eins og hver annar sjúkdómur sem stafar af efnafræðilegu rugli í líkamanum. Eins og gildir um marga aðra sjúkdóma getur þunglyndi blossað upp við áreynslu en það er ekki hægt að alhæfa um að áreynsla valdi þunglyndi.  Auðvitað getur svo þunglyndið birst án þess að menn “reyni að vera sterkir”, alveg eins og hvaða efnaskiptasjúkdómar sem er.

Ég reyndi að setja í FB-statusinn minn: “Gyllinæð er ekki merki um veikleika, hún er merki um að þú hafir reynt að vera sterk/ur allt of lengi. Settu þetta sem status hjá þér ef þú þekkir einhvern sem hefur, eða hefur sjálf/ur glímt við gyllinæð. Ég þori - þorir þú?” Það er álíka mikið vit í þessu og frumútgáfunni. Og sennilega eru færri slæmir af gyllinæð en af þunglyndi.

Mér hefur fundist vænlegast að kannast hreinskilnislega við sjúkdóminn. Sama aðferð og kennd er í AA nýtist prýðilega á þunglyndi (reyndar líklega á marga aðra sjúkdóma einnig). Maður viðurkennir vanmátt sinn og þiggur hjálp. Hjálpin er einkum fólgin í efnafræðilegum lausnum, lyfjum, en sjálfshjálpin felst í að viðurkenna geðveikina og leitast við að lifa lífinu skynsamlega til að halda sjúkdómnum niðri, t.d. passa upp á svefn, hreyfingu og ýmislegt annað.

En öll heimsins skynsemi kemur að litlu haldi í slæmu þunglyndiskasti. Þá snýst allt um að lifa kastið af, hanga í voninni að í einhverri fjarlægri framtíð taki eitthvað betra við og hanga í voninni um að einhvern tíma finnist lyf sem virkar. Þetta eru hræðilegir tímar.

Ég var fyrst lögð inn á geðdeild vorið 1998, í slæmu þunglyndiskasti. Síðan hef ég hlotið mikla æfingu í að kljást við þennan sjúkdóm og sætta mig við að stundum er ég algerlega fötluð vegna hans. Líkamleg einkenni eru mjög sterk, t.d. jafnvægisskortur, alls konar verkir, stífir vöðvar, kölduköst, svitaköst o.fl. Mér finnst einbeitingarskorturinn, minnisleysið, nístandi tómleikinn og margt fleira líka ansi líkamlegt enda álít ég að heilinn í mér sé partur af líkamanum.

Undanfarin ár hef ég þurft að haga lífi mínu eins og nunna í klaustri; Reglusemin keyrir um þverbak! Það hefur samt alls ekki dugað til en gerir kannski tímann milli kastanna ofurlítið léttbærari. Erfiðast er kannski að þurfa að hanga á því að manni hafi verið gefin þessi spil, í lífinu, og verði að spila úr þeim eftir bestu getu.

Aukaverkanir lyfjaEn núna loksins er kraftaverkið að gerast! Mér sýnist af lauslegri athugun að nú sé ég að prófa 25. lyfið. Hin 24 eru ekki öll geðlyf heldur allskonar samansafn af lyfjum sem öll áttu að gera mér þunglyndi eða kvíða eða aukaafurðir þessa léttbærari. Í stöku tilvikum er um að ræða lyf við allt öðru sem voru samt prófuð í von um að aukaverkanirnar slægju á geðveikieinkennin. Svo hef ég tvisvar reynt raflækningar, legið inni á geðdeild nokkrum sinnum, aðeins prufað sálfræðiaðstoð og er á því að slík nýtist talsvert við kvíða en hef ekki fengið bót á þunglyndi þannig … og reynt allskonar húmbúkk sem velmeinandi fólk hefur haldið að mér. Geðveikt fólk verður flinkt í reynsluvísindum.

Í vetur sá ég fram á að einungis gamall MAO-blokki væri óprófaður, lyf sem er löngu búið að taka af markaði hér á landi. Þá prófaði ég að vera algerlega lyfjalaus, í þeirri von að ég kæmist af án lyfja, enda hef ég yfirleitt orðið meira eða minna veik af aukaverkunum og þegar svoleiðis bætist ofan á veikindi er ekki gaman að vera til.

Svo tók við frjálsa fallið ofan í myrkrið og kuldann nú í vor; ég veikist skelfilega hratt og hef innan við sólarhring til umráða áður en frostið tekur við og ég verð að uppvakningi. Skelfingin sem grípur mig verður alltaf meiri og meiri af því ég veit hvað er í vændum. Þá datt lækninum mínum í hug að prófa glænýtt lyf. Ég hafði svo sem ekki nokkra trú á því, hafandi almennt heldur slæma reynslu af lyfjum, en féllst á þetta, ekki hvað síst vegna þess að lyfinu áttu að fylgja fáar og sjaldgæfar aukaverkanir, sem ég sá óneitanlega sem plús. Auk þess verður fólk í minni stöðu að gera eitthvað, það er beinlínis lífsspursmál í endurteknum þunglyndisköstum.

Þetta lyf reyndist kraftaverkalyf. Strax í maí byrjaði mér að batna og batinn hefur haldist. Fjölskyldumeðlimir telja að ég hafi ekki verið svona frísk síðan fyrir 1998. En af því ég hef áður náð nokkrum bata af öðrum lyfjum, sá bati hefur svo reynst tálsýn og lyfin ekki virkað nema örstuttan tíma, og af því ég er ekki viss um að ég lifi það af að þurfa enn einu sinni að hætta vinnu á miðri önn og hverfa til heljar, og af því ég hef lært að helv. biðlundin er það sem gefst skást í baráttu við þunglyndi og kvíða … þá hangi ég fullfrísk (í augnablikinu) heima og gef þessu lyfi séns á að virka til langframa. Eins og ég sakna þess að vera að kenna!

Viðbrigðin eru óskapleg.  Allt í einu get ég gert allt mögulegt án vandkvæða. Mesti munurinn er kannski sá að fúnkera vel í hvunndeginum og að geta lesið bækur án þess að gleyma jafnóðum. 

Svo er ég jafnheppin áfram að vera bent á ólíklegustu ráð; Sóknarpresturinn í Árbæjarkirkju, sr. Þór Hauksson, skrifar í kommenti við næstsíðustu færslu: “Bara í síðustu viku fékk ég tvo skjólstæðinga senda frá geðlækni þannig að veröldin er ekki eins svört hvít og þú heldur. Hún er full að þenkjandi fagfólki sem þekkir sín mörg og það á við um flesta presta.” Ég hef ekkert á móti því að spjalla við þann ágæta prest sem þjónar á Skaganum en er hrædd um að mér féllust hendur ef minn ágæti læknir vísaði mér á hann, mér til lækninga. Eiginlega er ég dálítið hissa á þessum ónefnda geðlækni og í rauninni afskaplega fegin að ég er ekki viðskiptavinur hans.

Þannig að ef kraftaverkalyfið skyldi nú hætta að virka á ég bæði Marplan og presta eftir … til prófunar. 

P.s. Nú beinist kirkjuumræðan nokkuð að þeirri afgreiðslu sem konurnar hlutu á sínum tíma víða í þjóðfélaginu, nefnilega að þær væru geðveikar og því ekki mark takandi á þeim. Ég hef ekki hugmynd um hvað stendur í sjúkraskýrslum þessara kvenna og þær gætu þess vegna allar hafa leitað til geðlæknis og fengið lyf. En mér finnst þetta koma málinu álíka lítið við og hugsanlegar heimsóknir til kvensjúkdómalækna eða möguleg taka “pillunnar”. Vitfirring fylgir einungis litlum hópi geðsjúkdóma. Ef fórnarlamb er jafnframt veikt á geði, á þá ekki að taka mark á því? Gildir þetta ekki líka um fatlaða? Er þá í fínu lagi að hunsa allar ásakanir um brot ef fórnarlambið hefur leitað til geðlæknis?

Þeir sem halda í alvörunni að viðtal við geðlækni og geðlyf skipti máli í ásökunum á borð við Sigrúnar Pálínu o.fl. ættu kannski sjálfir að láta tékka á sínu eigin geði. Þetta gildir að sjálfsögðu líka um þá sem brugðust svona við á þeim upplýstu tímum 1996!

10 ummæli við “Reyna geðsjúklingar of mikið?”

 1. gua ritar:

  Jahérna eru geðlæknar að senda sjúklinga til sóknarpresta þá er nú mikið að í heilbrigðiskerfinu þegar fólk sem er búið að mennta sig til fjölda ára og sérhæfa sig í geðlækningum valda ekki starfinu, það setur bara að mér hroll vesælis fólkið sem leitar sér hjálpar hjá þess háttar læknum.

  Annars, til hamingju með nýja lyfið og við skulum vona að þú þurfir ekki að leita á náðir prestsins ;)

  kv. gua

 2. Hafrún ritar:

  Facebook er uppfull af þvi sem maður getur i besta falli kallað velmeinta fávísi og yfirborðskennt skvaldur. Á slæmum dögum vel ég önnur orð yfir svona statuslínur en stilli mig um að segja nokkuð af því að vinir mínir halda að þeir séu að sýna svo svakalega mikla samkennd. Svo skilur helmingurinn ekki ádeiluna í svona gyllinæðis hvatningu. Því miður.
  Ég get alveg skilið að geðsjúklingum sé vísað til prests ef þeir hafa áhuga á að ræða Biblíuskýringar, það útilokar ekki áhuga á trúmálum að vera veikur. En ég hef ekki minnstu trú á að geðlæknar noti það sem meðferðarúrræði að senda sjúklingana til presta, ekki einu sinni til að fá handayfirlagningu. Hmm, en hvað veit ég svo sem!

 3. Harpa ritar:

  Það rifjast upp fyrir mér núna að ég leitaði til prestsins hér haustið 2006, fékk hann til að meta fyrir mig ritgerð sem ég var að skrifa og koma með ábendingar um efnistök. Hann reyndist mér afar vel enda ákaflega vel að sér. Ég treysti mér alveg til að ræða eigin geðveiki við þennan mann, ekki af því hann er prestur heldur af því hve indæll hann er og vandaður. Sé samt ekki alveg af hverju ég ætti að leggja slíkt á hann og held að ég sé betur sett með að halda mig í opinbera heilbrigðiskerfinu.

 4. elva ritar:

  Mig langar svo að fá að vita hvað nýja lyfið heitir sem virkar á þig?
  Vona að heilsa þín haldist góð.

 5. Helga Arnar ritar:

  Hæ Harpa,

  og til hamingju með nýja lyfið, vonum að það sé komið til að vera til að virka. Veit að nemarnir sakna þín líka.
  Ég er einmitt að leita að einhverju svona fyrir mig, góðri töflu til að leysa mín mál að mestu…, en ég er í líkamlega pakkanum, þetta er ekkert einfalt, og bara drulluerfitt, en á endanum skal þetta hafast!

  Nú hef ég aldeils nóg að lesa, er ekki búin að kíkja á þig síðan þú fórst í bloggfrí. Er ánægð með að þú ert komin úr fríi ;)
  Bestu kveðjur úr bakgarðinum,
  Helga Arnar

 6. Harpa ritar:

  Aha … svo þú ert kona mannsins sem var að passa hundinn í sumar, sem litli guli kötturinn djöflaðist í? Ég á sem sagt litla gula óargadýrið ;) Svona getur einn geðsjúklingur í bata tengt út og suður þessa dagana.

 7. Helga Arnar ritar:

  Já, rosalega var sá guli djarfur eða hundurinn vitlaus….. ;) En kötturinn þinn kemur ekki lengur í garðinn nema hann viti að hundurinn sé í heimsókn, hann líklega sér ekki tilganginn í því. Ekki finnst honum við skemmtileg!
  Gaman að tengingarnar eru farnar að virka út og suður :D

 8. Valdís ritar:

  Ég stal facebook-stöðunni þinni rétt í þessu og vona að það sé í lagi. Gat til um höfund og bloggsíðu. Þetta er frábært innlegg í umræðu um fordóma

 9. Harpa ritar:

  Já, í fínu lagi :)

 10. Þóra Kristín Stef ritar:

  Til hamingju með að vera frísk, já innilega til hamingju.
  Ég er á Reykjalundi eftir margra mánaða baráttu á LSP þar sem mér tókst að setja “alþjóðlegt met” í aukaverkunum lyfja. Fékk bæði að heimsækja hjartagáttina og bráðadeild, fara í sjúkrabíl já allur pakkinn. Fékk síðan raf- meðferð, sem hefur stungið mér í samband við lífið.
  Það er mjög gott að lesa bloggið þitt, því þá líður mér ekki eins og honum Palla, sem var einn í heiminum.
  Megi bataferli þitt endast að eilífu.
  Bestu kveðjur úr Borgarnesi.