Færslur frá 22. september 2010

22. september 2010

Blogg um blogg

Já, þetta er leim umfjöllunarefni, ég veit það. Og vona að forkar íslenskrar tungu (hér í ekki í merkingunni gafflar heldur andstæðrar merkingar við reiðareksmenn) gefist umsvifalaust upp á að lesa þessa færslu - um leið og þeir reka viðkvæmar glyrnurnar í slettuna “leim”.

En meðan skipaðar eru nefndir um nefndir og skrifaðar skýrslur um skýrslur … jafnvel nefndir til úttektar á skýrslu um skýrslu um skýrslu … þá má afsaka blogg um blogg.

Mér finnst bloggheimurinn verða æ leiðinlegri. Þar er t.d. ekki þverfótað fyrir fólki sem bloggar oft á dag um veimiltítulegar skoðanir sínar á einhverjum fréttum sem birtust í einhverjum netmiðli. Þetta er veimiltítulegt því yfirleitt er enginn rökstuðningur eða umfjöllun önnur en einfaldur halelújasöngur eða einfalt skítkast eftir því hvernig “bloggara” hugnaðist fréttin. Á bloggrúntum forðast ég svoleiðis blogg eins og heitan eldinn enda er ég afar hrifin af Facebook til einmitt þessa en finnst blogg eiga að vera bitastæðara.

Fastir bloggarar netmiðla blogga oft bara um eitt áhugamál, on and on. Vinsælasta áhugamálið er náttúrlega pólitík. Vandinn er sá að yfirleitt leiðist mér pólitík. Svoleiðis að ég skruna líka nett framhjá þeim bloggum. Annað vinsælt áhugamál eru trúmál - einsleitu bloggin eru annað hvort áróður fyrir þjóðkirkjunni eða áróður gegn þjóðkirkjunni; Hvort tveggja frekar leiðinleg umræða til langframa og gætir mikilla endurtekninga í málflutningnum.

Ég sakna margra fínna bloggara (hafði meira að segja gaman af því að rífast við suma þeirra) eins og Pipruðu kennslukonunnar og Gurríar, sem eru nánast eða alveg hættar að blogga, geðsjúklinga og alka sem hafa læst bloggunum sínum, bloggara sem ég var alltaf ósammála og margra annarra.

Sem betur fer eru þó enn einhverjir sem blogga um fjölbreytt efni, skrifa skemmtilega og tengja við sitt daglega líf á stundum. Ég ætla einmitt að bæta tveimur svoleiðis í listann yfir blogg sem ég les. Og nota tækifærið til að fagna því að Gísli málbein er aftur farinn að blogga!

Eigið blogg? Ja, ég þverbrýt allar reglur, blogga langlokur sem einungis fluglæst fólk nennir að lesa, held mig engan veginn við eitt umfjöllunarefni, held mig ekki einu sinni við sama stíl o.s.fr. Hef hugsað mér að halda uppiteknum hætti meðan ég hef einhverja lesendur. Mætti jafnvel spyrja sig hvort bloggynja þurfi endilega lesendur úr því henni finnst svona gaman að þessu sjálfri ;)  

Þetta er óvenju stutt færsla enda kannski ekki mikið meira sem hægt er að blogga um blogg. Þess vegna er myndin líka óvenju stór, til að fylla upp í plássið.

Ummæli (7) | Óflokkað, Daglegt líf