Færslur frá 5. október 2010

5. október 2010

Harmblogg

Kötturinn vakti mig hálf-sex í morgun. Ég náði undir klukkutíma normal. Sá tími styttist með hverjum deginum.

Núna er ég koldofin, finnst allt ískalt og dimmt. Einhvers staðar djúpt inni í mér leynist Harpa en það er ansi djúpt og frosið allt í kringum hana. Ætti að taka upp nafnið Morri í staðinn. Ekkert skiptir máli og heimurinn hefur breyst í nístandi tóm.

Á föstudaginn komst ég að því að ég var búin að gleyma hvar sonur minn byggi í borg óttans. Samt hef ég komi nokkrum sinnum til hans, síðan hann flutti. Þetta bara strokaðist út. Síðan hefur æ meir strokast út og ég get ekki lengur lesið (þ.e.a.s. auðvitað get ég lesið en ég man ekki það sem ég les - þetta er athyglisbrestur dauðans!). Seinnipartinn í gær var orðið erfitt að hitta á rétta lykla á lyklaborðinu svo ég læt pjanófortið algerlega ósnert. Reyni ekki að horfa á sjónvarp en gæti sosum legið á sófanum fyrir framan tækið - það er ekki verri staður en hver annar. Hannyrðir hafa verið lagðar til hliðar að sinni en ég SKAL samt berja saman færslu um sögu prjónaskapar fljótlega, það tekur þá bara einhverja daga að rifja aftur og aftur upp það sem ég les um það efni og reyna að hugsa í smáskömmtum.

Í gærmorgun gerði ég tilraun til að svindla á kvíðastillandi skammtinum, seldi mér þá hugmynd að ég yrði skírari í kollinum fyrir hádegi án slíkra lyfja. Það virkaði ekki og það eina sem ég hafði upp úr tilrauninni var að stíga ölduna í þeim stutta labbitúr sem ég þó kom mér í. Kvíðastillandi draslið virðist laga jafnvægisskynið svolítið.

Þegar ég var að veikjast vorkenndi ég sjálfri mér ógurlega, fannst mikið áfall að komast að því að nýja lyfið væri að hætta að virka. Núna er ég kominn á þann stað að ég vorkenni mér ekki neitt, faktískt finn ég ekki til neinna tilfinninga. Skruna yfir fjölmiðla og tek eftir að Lady GaGa og Yoko Ono tóku saman lagið, að einhverjir flögguðu nasistafána á Austurvelli, að femínistar eru enn einn ganginn óðir af heilagri vandlætingu … en þetta líður hjá eins og bíómynd og snertir mig í rauninni ekki nokkurn skapaðan hlut. Mér er líka ljóst að fullt af fólki hefur það miklu meira skítt en ég og það er fullt af fólki sem glímir við grafalvarlega sjúkdóma o.s.fr. en það er ekki nokkur einasta huggun eða pepp; í rauninni kemur það heldur ekkert við mig.

Það eina sem ég get gert er að reyna að bíða af mér helvítis kastið og lifa það af. En í miðju þunglyndiskasti er ekki einu sinni það huggun eða til bóta. Þegar maður syndir gegnum daginn á 38 snúninga hraða og hver sólarhringur verður óendanlega langur er hugsanlegur eða væntanlegur bati svo handan sjóndeildarhringsins að hann er ósýnilegur möguleiki.  Skásti raunhæfi möguleikinn er að dobblun lyfjanna skili einhverjum árangri, það ætti að vera ljóst fyrir miðjan október. Þangað til er best að sofa sem mest, sem er guði-sé-lof ekki erfitt því helv. þunglyndið eyðir orku meir en nokkurt fyrirbæri sem ég þekki. Svefn er dásamleg pása úr þessu helvíti.

Þessi færsla var bein útsending úr Hel. Hirði ekki einu sinni um að myndskreyta hana en menn geta ímyndað sér sogandi svarthol ef þeir sakna mynda. Er  farin að sofa.

Ummæli (11) | Óflokkað, Geðheilsa