Færslur frá 15. október 2010

15. október 2010

Bardús

Ég hef verið of lasin undanfarið til að blogga. Sem þýðir að ég hef verið of heillum horfin til að gera nokkurn skapaðan hlut annan en láta daginn líða með sem minnstum harmkvælum. Þessi færsla er út og suður eins og hugur bloggynju.

Samt verða kramaraumingjar að hafa ofan af fyrir sér og reyna að beina sjónum að einhverju öðru en eigin kröm. Það er erfitt þegar maður getur ekki lesið neitt flóknara en vefsíður - eiginlega er skást að hanga inni á myndasíðum Gúguls frænda - og manni finnst fésbókin eiginlega full flókið lestrarefni. (Hvað gerðu þunglyndissjúklingar í kasti fyrir daga Vefjarins? Lásu Andrésblöð?)

Svoleiðis að ég reyni að bardúsa. En af því ég festi hugann illa við, hann flöktir og linkar út og suður, datt mér náttúrlega fyrst í hug að athuga hvað þetta bardús væri eiginlega, fletti því upp og las (í Íslenskri orðsifjabók mannsins) að orðið myndi þýða dútl eða baks, uppruni óljós en hugsanlega komið af dönsku upphrópuninni bardus, í sambandi við skyndibreytingu, fall, skell eða þessa háttar … e.t.v. tengt gammeldansk barduse sem þýðir luraleg kona. (Leturbreytingar mínar).

þunglyndisskýÞetta fellur allt sem flís við rass: Ég dútla, baksa, fæ skelli og finnst ég ákaflega luraleg kona, höktandi hér á snigilishraða milli herbergja og ber sko ekki höfuðið hátt!

Dútlið undanfarið er að reyna að slá upp vefsíðum um sögu prjóns. Gallinn er sá að ég flökti út og suður og festist í aukatriðum … var t.d. að gera undirsíðu um spænska prjónaða svæfla, elstu dæmi um prjón í Evrópu, frá 13. öld, en festist kirfilega í spennandi sögu kastilísku konungsfjölskyldunnar á sama tíma. Reyndar virðast þær bakgrunnsupplýsingar hafa farið fram hjá sagnfræðiprjónaáhugafólki, það skiptir t.d. örugglega meginmáli hvað Alfonso X, pabbi hans Fernandos sem fékk elsta svæfilinn undir höfuðið í sinni steinþró,  hafði mikinn menningarlegan áhuga, þ.á.m. á arabískum fræðiritum … en samt! - þetta veldur því að verkið vinnst seint og illa. Jákvæði þátturinn er sá að það er aldrei að vita hvenær maður þarf á kunnáttu í flóknum ættartengslum kastilísku konungsfjölskyldunnar að halda.

Til að hafa vaðið fyrir neðan mig hafði ég samband við höfund bókar, hvar undurfagra litmynd af svæflinum hans Fernandos var að finna, og bað um leyfi til að nota myndina. Enda voru krassandi hótanir aftast í bókinni um lögsókn gegn hverjum þeim sem stæli svo miklu sem snitti úr bókinni, birtur myndalisti og sagt síðan að allar aðrar myndir væru teknar af höfundi sjálfum. Engin tilvísun varðandi þessa mynd svo ég vildi tala við manneskjuna sjálfa. Svörin sem ég fékk voru byrjendaleiðbeiningar í heimildaritgerð og tilkynning um að myndin væri ættuð úr bók þess góða biskups Richards Rutt. Þannig að myndin í bókinni var sem sagt stolin. Höfundaréttur sökkar enda fara menn endalaust á svig við hann. En ég var kurteis og fékk leyfi til að birta munsturteikningar höfundar, sem ég sé reyndar ekki betur en séu ættaðar úr hinum og þessum evrópsku sjónabókum ýmissa tíma.

Nú er ég föst í koptísku sokkunum (egypskum, frá 4. öld), sem voru ekki einu sinni prjónaðir en er einhver lenska að hafa með í sögulegri prjónaumfjöllun. Í því sambandi rakst ég á gamlan texta sem segir að Evans (Arthur sá sem maður verður áþreifanlega var við á Krít) hafi fundið fresku í Knossos, sýnandi nautaat en þar ku einhver vera á röndóttum nálbrugðnum sokkum, svipuðum þeim koptísku. Mér datt strax í hug að eyða nokkrum klukkutímum í að finna mynd af þessari helv. fresku þótt markmiðið hafi upphaflega verið að gera stuttan inngangskafla að elstu prjónaleifunum, sem eru egypskir sokkar frá því á 11. öld. Með þessu vinnulagi enda ég í pælingum um snákagyðjuna eða liljuvallarprinsinn eða eitthvað álíka sem ekkert kemur prjóni við …

Í gær datt ég líka í Dagligt liv i Norden, þ.e. pælingar um að þegar fólk eignaðist föt til skiptanna og gat farið að þvo fötin hætti það að þvo sjálfu sér og fann upp sterkara ilmvatn. Áhugavert en kemur því miður prjóni ekkert við.

rfa sig uppAf hverju að byrja á vef um sögu prjóns? Ja, mig vantaði verkefni (til að beina huganum frá grámanum og þokunni) og held að saga prjóns virki alveg eins vel og búddísk hugleiðsla til þeirra nota. Haldi ég áfram að vera svona veik endist mér verkefnið út ævina (nú eru meir en 2 tímar síðan ég vaknaði og svartsýnin leggst yfir kropp og sál). Ekki spillir því að verkið endist og endist að þær tvær grundvallarbækur í prjónasögufræðum eru ekki til á einu einasta íslensku bókasafni.

Í gramsinu á netinu hef ég annars fundið margt skemmtilegt, t.d. þessa síðu, sem eru krækjur í þær eldgömlu prjónabækur sem hinn góði enski biskup safnaði, og hef líka skoðað glænýju Knitting Iceland síðuna; glæsilegt framtak og þarft. (Aftur á móti pirraði mig þessi gegnumgangandi villa um vökustaurana, í örsögu prjóns á Íslandi, sem hver étur upp eftir öðrum en má rekja til sr. Jónasar á Hrafnagili, sem misskildi sínar heimildir. Allskonar smotterí truflar mig þessa dagana. Og ég varð náttúrlega fúl yfir að annar væri búinn að gera það sem átti að vera partur af mínum vef … en ég nálgast þá efnið bara öðru vísi.)

Beinagrind van GoghAnnað bardús er að mestu fólgið í að strjúka kettinum, reykja með kettinum, fóðra köttinn … reyna fylgjast með sjónvarpi, prjóna soldið (er að klára peysuna mannsins og næst eru það SMS-vettlingar á unglinginn) en stundum er ég of athyglisbrostin til að prjóna munstur. Merkilegt nokk á ég oft skást með að skrifa og held helst þræði í svoleiðis bardúsi. Kannski eru skrif-hugsi-stöðvarnar ekki á sama stað og málstöðvar til að tala?  Helv. þunglyndið hefur meira að segja gert mér ókleift að þrífa húsið og vesalings maðurinn þurfti að hraðræsta! Og ég sem er yfirleitt sérstök áhugakona um þrif og pússun, eins og sumir vita.

Nú er að þreyja þorrann smástund og leggja sig svo til að endurræsa heilann. Skríða svo í skjól Gúguls frænda þegar dimman tekur mig seinnipartinn.

  

Ummæli (8) | Óflokkað, Geðheilsa, handavinna